laugardagur, janúar 27, 2007

Mörgu að venjast á nýju heimili

Mættur hingað á blog.is eftir að hafa verið á blogspot. Þótt útlitið sé nánast eins (þökk sé sérfræðingum mbl.is) er margt breytt í umhverfinu og stjórnarendanum. Ég verð einhvern tíma að venjast þessum breytingum að fullu.

Það er t.d. þetta með bloggvinina, ég er strax búinn að fá tilboð um að gerast bloggvinur þessa og hins. Veit ekkert hvað það er, hef bara vanist því að gera tengla á þá sem vilja. Útlitið mitt gerir ekki ráð fyrir þessum möguleika í dag en sjáum hvað setur.

Svo er það þetta með tenglana af forsíðu, ég hef vanist því að skrifa stutt, setja litla vinnu í færslur, uppfæra ört og gera út á að þetta sé nokkurs konar straumur þar sem fólk kemur alltaf inn í gegnum forsíðuna. Nú er traffíkin sjálfsagt mikið til í gegnum tengla annars staðar af mbl.is og blog.is, kallar kannski á breytt vinnubrögð í framtíðinni, veit það ekki, sjáum hvað setur

Og gamla kommentakerfið, það var skilið eftir, færslurnar fluttar en kommentin urðu eftir.

Nýtt blað - sme og Jónas funduðu í dag - Smári á hliðarlínunni?

Hvað sem króginn verður kallaður hef ég fengið staðfest að í kringum -sme er hópur að vinna að undirbúningi að útgáfu á síðdegisblaði, lausasölublaði, sem sækir í DV-hefðina. Það er óvíst hvort þessi framhjáldskrógi Sigurjóns M. Egilssonar, sem hann átti framhjá Sigurði G. Guðjónssyni og Blaðinu, verður látinn heita DV eða eitthvað annað. Kannski DB eða NT, - nú eða eitthvað allt annað.

Upphaflega var stefnt að DV nafninu en í undirbúningsvinnunni hafa menn horfst í augu við þá staðreynd að vörumerkið DV er dautt, það dó undir ritstjórn Jónasar Kristjánssonar og Mikaels Torfasonar sl. vetur, og á því verður ekki byggt á dagblaðamarkaði um fyrirsjáanlega framtíð.

Ég hef ekki fengið staðfestingu á því að Gunnar Smári, bróðir -sme, sé þátttakandi í þessum ráðagerðum en sennilega eru hann og fleiri, sem verið hafa tengdir 365, þarna að tjaldabaki.

En þótt Jónas Kristjánsson hafi á endanum ritstýrt DV út af dagblaðamarkaðnum hefur verið leitað til hans um þátttöku í undirbúningi þessarar nýju útgáfu. Hann er og verður gúrú -sme og DV-skólans í íslenskri blaðamennsku. Í dag sást til þeirra -sme og Jónasar sitja saman á kaffihúsinu í Iðu við Lækjargötu. Það þarf ekki mikið hugmyndarflug til að vita um hvað þeir voru að ræða.Og sjálfsagt hefur dómurinn sem féll í dag yfir Jónasi og Mikael Torfasyni líka borist í tal.