föstudagur, desember 08, 2006

Brynjólfur vill ritstýra Blaðinu

Það bíður mikil áskorun þeirra Sigurðar G. Guðjónssonar útgáfustjóra og Karls Garðarssonar framkvæmdastjóra að halda Blaðinu gangandi við þær aðstæður sem nú blasa við í útgáfunni.

Ritstjórinn -sme hefur sagt upp störfum, líka þrír aðrir lykilstjórnendur á ritstjórninni, Janus sonur sme, og fréttastjórarnir Brynjólfur Guðmundsson og Gunnhildur Arna. Enginn blaðamaður hefur sagt upp, t.a.m. ekki Trausti Hafsteinsson, bróðursonur sme, en sögur gengu um það í dag. Andrés Magnússon blaðamaður er á uppsagnarfresti sem rennur út um áramót og í byrjun vikunnar hætti Örn Arnarson, umsjónarmaður erlendra frétta, en hann hefur ráðið sig til starfa á nýju og endurbættu Viðskiptablaði. Eini stjórandinn á ritstjórninni, sem enn hefur ekki sagt upp er Elín Albertsdóttir, hún er nýkomin til starfa, og sagði samstarfsmönnum sínum í dag að hún teldi að hún hefði nánast verið fengin um borð í fleyið á röngum forsendum.

Það er ekki auðvelt að sjá hvers vegna Sigurður G. og Karl báðu -sme ekki að taka föggur sínar og fara út um leið og hann tilkynnti þeim fyrirætlanir sínar, það hlýtur að vera erfitt fyrir bæði ritstjórann og eigendurna að hafa kallinn vappandi á ritstjórninni við þessar aðstæður. Kannski telja þeir að þeir standi þannig betur í dómsmáli eða lögbannsmáli sem þeir munu væntanlega höfða gegn honum þegar hann gengur á dyr.

Flutningar í gangi

Stend í flutningum. Verð framvegis á slóðinni hux.blog.is. Lét undan tískustraumum eftir nokkra varnarbaráttu.
Vinsamlegast uppfærið tengla.

Stormasamur skilnaður

Það kemur ekki á óvart að -sme sé að skilja við Blaðið. Það eru tveir mánuðir síðan hann tók tilboði 365 um að ritstýra DV, en bakkaði vegna þess að það hefði orðið honum erfitt að losna undan ráðningarsamningnum við Sigurð G. Guðjónsson. Þessi uppákoma benti ekki beinlínis til þess að Sigurjón ætlaði sér að vera lengi í þessu hjónabandi. Sú saga hefur verið á sveimi undanfarnar vikur að hann sé að fara að hætta. En hvað er hann að fara að gera? RÚV hefur eftir honum að það sé rangt að hann sé að fara til 365 og Denni segir að -sme hafi logið að sér í gær um að hann væri að hætta. RÚV segir líka að nýtt dagblað sé í burðarliðnum fyrir utan áform SDA og Valda um nýtt vikublað og áform Viðskiptablaðsins um fjölgun útgáfudaga.

Sme segir í viðtali við RÚV að hann sé að skilja við fríblaðaformið og hann af öllum mönnum hefur talað býsna óvirðulega um fríblöð á eigin bloggi undanfarna daga. Í mínum huga er enginn vafi á því að ef- sme er að fara að gefa út eitthvert blað þá er það lausasölublað í anda DV, eins og það var. Ég tel mig þekkja hann nógu vel til að vita að í huga hans er DV á sínu blómaskeiði hið sanna viðmið í blaðamennsku. Eru einhverjir auðmenn að setja pening í að stofnsetja frá grunni nýtt blað í þeim anda? Hinn möguleikinn er að -sme ætli sér enn þá, eins og í október, að verða þátttakandi í einhvers konar endurreisn DV á dagblaðamarkaði. Ég veðja á að svo sé. Það kemur í ljós.

Nú verða sagðar fréttir

Fréttablaðið í dag setur þessa frétt á bls. 6.:
Þorsteinn Davíðsson, aðstoðarmaður Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra og sonur Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra, er meðal umsækjenda um stöðu dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur en dómsmálaráðherra skipar í embættið frá og með 1. janúar á næsta ári.

fimmtudagur, desember 07, 2006

Írak

Washinton Post um skýrslu nefndar Bakers og Hamiltons um Írak:
"The report is replete with damning details about the administration's competence in Iraq. It notes, for instance, that only six people in the 1,000-person U.S. embassy in Baghdad can speak Arabic fluently, and recounts how the military counted 93 acts of violence in one day in July when the group's own examination of the numbers found 1,100 acts of violence. 'Good policy is difficult to make when information is systematically collected in a way that minimizes discrepancy with policy goals,' the report says."

Lyfjamál, menntamál og ferðamál

Staksteinar taka Jakob Fal Garðarsson talsmann frumheitalyfjafyrirtækja á beinið í dag en Jakob lítur ekki svo á að lyfjafyrirtækin séu að markaðssetja framleiðslu sína þegar þau kosta alls konar uppákomur á vegum læknafélaga heldur séu þetta einhvers konar framlög til menntamála þjóðarinnar, tilkomin af illri nauðsyn vegna vanrækslu ríkisvaldsins.

Af þessu tilefni rifjast upp fyrir mér saga sem kunningi minn úr læknastétt sagði mér fyrir nokkrum árum af samskiptum við lyfjafyrirtækin. Það var haldin ráðstefna eða fundur á vegum lyfjafyrirtækis til þess að kynna nýtt og voða fínt lyf. Í lok samkomunnar var tilkynnt að sá læknir úr hópi viðstaddra sem yrði duglegastur við að ávísa þessu undrameðali næstu mánuðina mundi fá hálfsmánaðar utanlandsferð fyrir sig og fjölskyldu sína í verðlaun. Kunningi minn fór hjá sér og varð staðráðinn í því að láta hafa sig ekki að fífli með því að fara að ota þessari vöru að sjúklingum sínum umfram aðrar. Trúlega var svo um flesta kollega hans en einhver þeirra fór nú samt í ferðina góðu með konu og börn.

Viðtengingarháttur

Sme skýrir dagblaðakönnunina á bloggi sínu. Styttri útgáfa hljóðar svo: Ef veðrið hefði verið betra í könnunarvikunni og ef blaðberar Moggans stæðu sig betur í vinnunni, þá hefði Blaðið fengið magnaða útkomu í könnuninni.

Sveitarstjórnarmál

Athyglisvert þetta mál sem Fréttablaðið hefur verið að fjalla um þar sem forseti bæjarstjórnar á Álftanesi, grefur laugar og heldur grillveislur á annarra manna sjávarlóð og kemur í veg fyrir að hægt sé að byggja á henni en neitar því að það hafi nokkuð með það að gera að þá mundi hann missa sjávarútsýnið úr húsinu sínu.

miðvikudagur, desember 06, 2006

Kali spera

Mér finnst þessi pistill Björns frá Grikklandi undarlegur. Hleranirnar á Hannibal spilltu ekki fyrir sambandi Sjálfstæðisflokksins og Alþýðusambandsins, segir hann meðal annars. Ég geri þá ráð fyrir að hann hafi upplýsingar um að vitneskja um þær hafi verið á beggja vitorði.

Sturla á þorra og Sturla á aðventu

Sturla Böðvarsson á Alþingi 8. febrúar 2006: Í þessu samhengi hef ég talið skynsamlegt að nálgast málið á þeim forsendum að vegurinn milli Rauðavatns og Hveragerðis verði svokallaður 2+1 vegur og væntanlega í fyrstu einnig vegurinn frá Hveragerði til Selfoss. Síðan verði gert ráð fyrir því, og ég spái því að umferðarþróunin verði á þann veg, að í framhaldinu þurfi að gera ráð fyrir tvöföldum vegi milli Hveragerðis og Selfoss. En áhersla mín er sú að leiðin alla leið austur að Selfossi verði í 1. áfanga byggð upp sem 2+1.

Frétt frá samgönguráðuneytinu 6. desember 2006: Þar sem umferðaröryggisaðgerðir á Suðurlandsvegi og Vesturlandsvegi þola enga bið er mikilvægast að bregðast við með aðgerðum sem nú þegar gefa aukið öryggi á hættulegustu vegarköflunum. Vonir standa til þess að þegar í stað verði hægt að aðskilja akstursstefnur á Suðurlandsvegi og Vesturlandsvegi þar sem aðstæður leyfa og breikka vegina þar sem brýnast er. Með þessu verður hrundið í framkvæmd árangursríkum aðgerðum í þágu aukins umferðaröryggis. Markmið og stefna samgönguráðherra er að Suðurlandsvegur og Vesturlandsvegur verði tvöfaldaðir og að verkefnið verði sett í samgönguáætlun sem kemur til meðferðar Alþingis í byrjun næsta árs.

Könnun


Ekki stafur í Mogganum um nýja könnun á lestri dagblaða. Fréttablaðið og Blaðið túlka bæði hana sér í vil, Fréttablaðið út frá því að örlítið fleiri hafa eitthvað lesið í blaðinu en í síðustu könnun. Blaðið og út frá þeirri sókn sem það hefur verið í undanfarið misseri. Mogginn tjáir sig líklega um málið á morgun. Hvorki Fbl né Blaðið birta þessa mynd yfir meðallestur á tölublað, sem finna má á vef Capacent og er sú mynd sem Capacent virðist leggja áherslu á. Þess vegna held ég að ég birti hana bara. Smellið til að sjá stærri útgáfu, þá sést betur að meðallestur allra blaðanna er á niðurleið og Blaðið virðist búið að toppa.

Einlægar svívirðingar

Staksteinar birta í dag sannkölluð gullkorn eftir Merði Árnasyni úr umræðum á Alþingi um vantraust Ingibjargar Sólrúnar á þingflokki sínum. Þessi kafli er óborganlegur:

"Mörður [...] sagði sjálfstæðismenn í áratugi hafa mátt "una við einfalda formenn sem ekki nota ræður á fundum til að aga sitt lið heldur gera það með öðrum hætti" og skilja ekki "hvernig við förum að því að styrkja okkur í Samfylkingunni, nefnilega með sjálfsgagnrýni og einlægum skömmum og svívirðingum sem við hreinsum okkur með og stígum fram eins og goðin eftir ragnarök að lokum. Svona gera almennilegir flokkar."

Hornafjarðarpönk

Óblíðar móttökur fyrir nýaðflutta Hornfirðinga var fyrirsögn löggufréttar frá Hornafirði á Vísi í gærkvöldi. Það sem er athyglisvert við fréttina er að klukkustund eftir að hún birtist á vefnum fer í gang mikil bylgja athugasemda frá Hornfirðingum. Margar þeirra virðast komnar frá hinum meintu árásarmönnum. Þeir halda áfram að pönkast á meintum fórnarlömbum sínum í athugasemdunum og saka þá um að vera ekki bara utanbæjarmenn heldur líka heróínsjúklingar, nýkomnir frá Litla Hrauni og jafnvel frá Danmörku. Svo hafi þeir byrjað átökin.

Bækur

Sótthiti, stífluð skilningarvit og almennt slen stuðlar ekki að bloggi, a.m.k. ekki í mínu tilviki. Kom ekki frá mér staf. Í slíku ástandi kemur sér hins vegar vel að eiga áhugaverðar bækur ólesnar. Ég náði loks að klára bók Bob Woodwards, lesa bók John Dean um Conservatives Without Conscience frá upphafi til enda og er kominn vel inn í bók Sidney Blumenthal, How Bush Rules, Chronicles of a Radical Regime þegar ég rís úr rekkju. Bók Blumenthals er best en bók Dean er einnig feykilega athyglisverð og afhjúpandi. Allar til hjá Amazon, besta vini íslenskra neytenda.

Sérstaklega held ég að bók Dean gæti vakið áhuga margra vina minna í Sjálfstæðisflokknum, sem fundið hafa til skyldleika við bandaríska repúblíkana frá dögum Barry Goldwaters. Dean skrifaði bók sína í samráði við Goldwater en lauk verkinu ekki áður en sá gamli lést. Hún er magnað uppgjör fyrrverandi innsta kopps í búri bandarískra íhaldsmanna við það samfélag sem Repúblíkanaflokkurinn er orðinn. Íhaldsmenn af gamla skólanum flýja nú þennan flokk óttans, afneitunarinnar og ofstækisins hver á fætur öðrum og einnig frjálshyggjumenn, sem jafnvel eru farnir að leita hófanna um samstarf við demókrata.

sunnudagur, desember 03, 2006

Hvað næst?

Merkileg ræða Ingibjargar Sólrúnar. Gott hjá henni að viðurkenna staðreyndir eins og þær að flokkurinn nýtur ekki trausts. Það var líklega óhjákvæmilegt að þetta kæmi upp enda er þetta veikleiki Samfylkingarinnar í hnotspurn. Hún hefur viljað reyna stýra því hvernær og hvernig sú umræða kæmi upp á yfirborðið og metið það svo að það sé betra að taka þungann af því nú fremur en þegar nær kosningum dregur. Um leið gefur hún náttúrlega á sér mikið færi. Össur tekur þetta greinilega persónulega og telur sneiðina sér ætlaða. Líklega er það rétt hjá honum.

Nú hefst væntanlega markviss tilraun Ingibjargar Sólrúnar og Samfylkingarinnar til þess að ávinna þingflokknum traust, umbreyting á ímynd. Ætli Samfylkingin muni í auknum mæli reyna að tala af ábyrgð, taki undir einstaka mál og tillögur ríkisstjórnarinnar og leggi aukna áherslu á málefnalega afstöðu? Kannski munu þeir meira að segja halda útgjaldatillögum við 3ju umræðu um fjárlagafrumvarpið í lágmarki, jafnvel leggja fram hugmyndir um sparnað í ríkisrekstrinum.

RÚV í leyniþjónustustarfsemi?

Guðmundur birtir merkar upplýsingar sem kalla á nánari skýringar. Bendir til þess að starfsmenn Ríkisútvarpsins hafi fyrir 30 árum unnið fyrir ráðuneytisstjóra dómsmálaráðuneytisins við að halda til haga ummælum manna um pólitík í útvarpinu.

Íslandi að kenna

Ísland fær leiðara í Washington Post í dag. Fyrirsögnin er Blame Iceland. Tilefnið er það að tilraunir til að ná samkomulagi um eitt stærsta umhverfisverndarverkefni sem við blasir, að hlífa úthafsbotninum við botnvörpuveiðum, urðu að engu. Washington Post segir m.a. þetta: In closed-door negotiations, Iceland, along with Russia, took a particularly vocal and aggressive stand against strong action. Because the arcane rules of high-seas fishing are largely defined by consensus, even small countries that are genuine moral outliers in world attitudes toward oceans can prevent agreement.

föstudagur, desember 01, 2006

Grasrót

Tek eftir því við lestur þessarar töflu um Gallup-könnunina að fylgi framsóknar í NV stendur í stað milli mánaða, var 16% í byrjun nóvember og er 16% í byrjun desember. Neikvæð áhrif af ósigri Kristins H. Gunnarssonar í prófkjörinu mælast engin.

Höfðingjar heim að sækja

Mér er tjáð að það séu allar líkur á því að þrír bæjarstjórra muni njóta biðlauna frá Akureyrarbæ næstu þrjú og hálft ár. Kristján Þór Júlíusson er búinn að vera fimm mánuði í starfi frá kosningum og fær nú sex mánaða biðlaun. Sigrún Björk tekur við en mun víkja fyrir Hermanni Samfylkingarforingja, og fara á sex mánaða biðlaun. Hermann mun svo væntanlega eiga rétt á sex mánaða biðlaunum í lok kjörtímabilsins. Þeir eru grand á því í höfuðstað Norðurlands.

Leiðari og leiðari

Þorsteinn Pálssonar er alltaf að verða leiðari og leiðari á Jóni Baldvin, leiðari dagsins sýnir það. Rökfastur og hvass eins og oft áður. Fyrir Þorstein er þetta náttúrlega hápersónulegt mál enda er hann sjálfur dómsmálaráðherrann sem JBH segir að hafi ekki verið treystandi til þess að rannsaka hleranir CIA.

Skáld dagsins

Skáld dagsins situr suður á Spáni og yrkir limrur, Sigurður Þór Salvarsson, teygir sig aðeins í rími og segir:
Óhöpp þau eru einsk-is sök
og eins má segja um slys stök
því þótt verði mann’ á
eins og að stela og slá
þá eru það tæknileg mis-tök