þriðjudagur, október 31, 2006

Viska dagsins

Kristján G. Arngrímsson í Viðhorfi í Mogganum:
Sterk trúarþörf sem ekki verður vikist undan kemur fram þegar ljóst er orðið hversu skammt mannleg skynsemi hrekkur, og hversu takmarkað gildi það hefur í sjálfu sér að hafa þá grundvallarreglu í heiðri að taka jafnan eigin hugmyndir fram yfir hugmyndir annarra.

Sagnaþulur samtímans

Í útgáfu Össurar er frásögnin af átökunum innan Sjálfstæðisflokksins svo spennandi og dramatísk að betri reyfari kemur tæplega á markaðinn þetta árið. Það þýðir ekkert að birta úr þessu kafla, þetta þarf að lesa frá upphafi til enda. Ég veit ekki um heimildagildið en stílþrifin trúi ég að fari langt með að tryggja þessari útgáfu sess á spjöldum sögunnar.

Menn fólksins

KB-banki greiðir sjö milljarða í skatta, samkvæmt álagningarskrá, meira en nokkur aðili í landinu. Á dögunum var í fréttum að hagnaður fyrirtækisins fyrstu níu mánuðina væri meiri en verðmæti alls sjávarafla sem kemur hér að landi á heilu ári. Saga þessa fyrirtækis undanfarin áratug er náttúrlega ekkert annað en ótrúlegt ævintýri.

Fyrir 10 árum keyptu sparisjóðirnir 50% hlut Búnaðarbankans í því sem þá hét Kaupþing. Á þeim tíma var fyrirtækið að mig minnir metið á um 300 milljónir króna. Sigurður Einarsson var þá aðstoðarforstjóri fyrirtækisins, en tók skömmu síðar við forstjórastóli. Minn gamli og góði skólabróðir er tvímælalaust langmesti gróðapungur Íslandssögunnar og húrra fyrir honum. Í höndum hans og samstarfsmanna hans hefur þetta fyrirtæki blómstrað og fært hluthöfum sínum og öllu þessu samfélagi lygilegan arð. Verðmæti þess hefur aukist stjarnfræðilega, einhver sagði mér að það hefði allt að því 2000 faldast á þessum tíma.

Mér finnst rétt að nefna þetta af því að þeir sem eiga heiðurinn af þessu ævintýri hafa að mínu mati aldrei notið sannmælis í umræðu hér á Íslandi, þeir hafa allan tímann verið með áhrifamikla hælbíta á eftir sér og hafa þeir einskis látið ófreistað til þess að láta spunavélar sínar rakka þessa starfsemi niður og rægja jafnt hér heima og erlendis, meðan öðrum er hossað fyrir afrek sem ekki komast í hálfkvisti við það ævintýri sem uppbygging og vöxtur Kaupþings hefur verið undanfarinn áratug. Og þar hafið þið það.

And the winner is...

Eftir líflegar umræður í kommentakerfinu hér að neðan treysti ég mér til þess að úrskurða að Anna Kristín Gunnarsdóttir er verðugur handhafi titilsins Óþekkti þingmaðurinn. Aðrir sem koma sterkir inn og deila 2.-4. sæti eru Valdimar Leó Friðriksson, Þuríður Backman og Jón Gunnarsson.

mánudagur, október 30, 2006

Niður brekkuna

Aðeins 3 af 25 stærstu dagblöðum Bandaríkjanna juku útbreiðslu sína síðustu mánuði. NY Post það eina sem bætir við sig að gagni. LA Times missir 8%, NY Times 3,5. Meira hér.

Óþekkti þingmaðurinn eða Vitlausa póstnúmerið

Kostulegar þessar skýringar Önnu Kristínar Gunnarsdóttur á hrakförum sínum í prófkjörinu. Ég á reyndar erfitt með að setja mig inn í þessa stemmningu að það skipti miklu máli í hvaða póstnúmeri þú býrð hvort þú færð einhver atkvæði. Veit ekki til þess að á þessu landsvæði sé einhver að spá í hvort frambjóðandi býr í 105, 109 eða 220. En ég veit að úti á landi er þetta eitthvað sem skiptir máli. Ég held samt að þetta ráði ekki úrslitum þegar frambærilegt fólk á í hlut og að Anna Kristín reyni þarna að selja sjálfri sér fullauðvelda skýringu.

Nú er hún sitjandi þingmaður og kannski sá þingmaður sem fæstir Íslendingar þekkja. Hún átti aldrei séns í 1. sætið og tapar 2. sætinu fyrir manni sem var hættur eftir tilþrifalítinn pólitískan feril. Hún hangir með 16 atkvæðum í 3ja sætinu. Sú sem var næstum búin að fella hana enn neðar var einn fjögurra "vestfirskra" frambjóðenda í toppslagnum og aðeins búin að búa í kjördæminu í nokkrar vikur. Anna Kristín var hins vegar eini frambjóðandinn úr norðvesturhluta kjördæmisins sem sóttist eftir forystusæti.

Ég kaupi ekki að póstnúmerið hafi ráðið úrslitum og held að málið sé einfaldlega þetta: Hefði Anna Kristín notað betur það tækifæri sem hún hefur fengið á þessu kjörtímabili hefði hún rúllað þessu upp. Hún hafði forskot þegar lagt var af stað, eina konan í hópi alþingismanna í kjördæminu, en það nýttist henni ekki.

Ps. Er Anna Kristín réttur handhafi titilsins Óþekkti þingmaðurinn? Hverjir aðrir koma til greina? Svör óskast í komment.

Mjór munur

Helgu Völu Helgadóttur vantaði aðeins 16 atkvæði til þess að fella Önnu Kristínu Gunnarsdóttur úr 3ja sætinu í prófkjöri Samfylkingarinnar í NV. Hún hafnaði í 5. sæti, þar sem Sigurður Pétursson var með massívan stuðning í 4. sætið, sem hann sóttist eftir.

Sagan öll

Sme segir fréttir á blogginu sínu, í tilefni af útkomu nýja tímaritsins, athyglisverð lesning, m.a. þetta:
Meðan ég var í burtu höfðu aðrir stjórnendur Fréttablaðsins gengist inn á samkomulag við Baug, eða þá ákærðu, um birtingu ákæra, skýringa með þeim og viðtöl við Jón Ásgeir Jóhannesson og Jóhannes Jónsson.

sunnudagur, október 29, 2006

Fram og aftur Miklubrautina

Framsóknarmenn í Reykjavíkurkjördæmi norður ákváðu á 30 manna kjördæmisþingi í dag að stilla upp framboðslista sínum vegna alþingiskosninganna næsta vor. Jón Sigurðsson formaður vill skipa fyrsta sætið og ekki er annað vitað en að Guðjón Ólafur Jónsson alþingismaður stefni í annað sætið. Óvíst er um fyrirætlanir Sæunnar Stefánsdóttur, þingmanns kjördæmisins og ritara flokksins, en hún er um þessar mundir á ferðalagi um Norðausturkjördæmi.

Framsóknarmenn stilltu upp í báðum Reykjavíkurkjördæmum fyrir síðustu kosningar og margir vildu að önnur leið yrði farin nú, annað hvort með kosningu á tvöföldu kjördæmisþingi beggja Reykjavíkurkjördæmanna eða prófkjöri. Ekki var stemmning fyrir þeirri leið norðan Miklubrautarinnar.

Óvíst er hvað gerist í Reykjavíkurkjördæmi suður. Þar er kjördæmisþing annan fimmtudag og þá skýrist fyrst hvort framsóknarmenn í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur stilla sameiginlega upp framboðslista eða hvort þeir sunnanmegin fara eigin leiðir og efna til tvöfalds kjördæmisþings eða prófkjörs.

Egill má sköpum renna

Björn skrifar sig frá úrslitunum í nýjum pistli. Kemur víða við. Gefur í skyn að hverfafélögum sé beitt í þágu ákveðinna manna en ekki flokksins í heild. Jón Baldvin og andstæðingar utan flokks fá sinn skerf fyrir "atlöguna" og einnig SUS fyrir "dæmalausa ályktun" á viðkvæmasta stigi prófkjörsbaráttunnar. Svo eru það álitsgjafarnir. Úr hópi þeirra nefnir Björn sérstaklega Sigurjón M. Egilsson og Egil Helgason til sögunnar "sem þá álitsgjafa sem sótt hafi harðast" að sér.

Þetta er í annað sinn sem Björn nefnir Egil Helgason til sögunnar þegar hann sleikir sárin eftir að hafa tapað kosningum. Eftir borgarstjórnarkosningarnar 2002, þar sem Birni mistókst að fella Reykjavíkurlistann, sagði hann þetta í pistli:
Það þykir áberandi, samkvæmt tölvubréfi til mín, hve Agli Helgasyni er tamt að grípa fram í fyrir okkur sjálfstæðismönnum. Leiddi ég hugann að þessu, þegar ég horfði á þátt Egils í dag, þar sem Guðlaugur Þór Þórðarson borgarfulltrúi okkar sjálfstæðismanna átti fullt í fangi með að ljúka setningum sínum vegna þess að Egill var alltaf taka af honum orðið. Stjórn Egils er stundum ómarkviss og tilviljanakennd auk þess sem hann nálgast málefni um of út frá frekar þröngum einkasjónarmiðum sínum.

Eftir storminn

Sigurjón og Guðmundur eru búnir að melta prófkjörið, hvor með sínum hætti. Úrslitin hljóta að vera Birni og nánustu starfsmönnum Davíðs mikil vonbrigði, það verður spennandi að sjá hvernig þetta þróast. Athyglisvert að tveir nýliðar skella þorra þingflokksins aftur fyrir sig en Guðfinna og Illugi voru auðvitað mjög sterkir frambjóðendur.

Kona í 4., 7. og 10. sæti, Ásta Möller segir í Fréttablaðinu að staða kvenna á listanum sé sterk. Það var og.

Kjörsóknin finnst mér lítil miðað allt sem var undir lagt, rétt rúmlega 50%.

laugardagur, október 28, 2006

Lúðvík og léttadrengirnir

Lúðvík Bergvinsson er eini frambjóðandinn í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi sem hefur nægilega reynslu til þess að verða ráðherra. Eina von Samfylkingarfólks um að kjördæmið fái "sinn ráðherra" liggur í því að Lúðvík verði í efsta sætinu. Aðrir frambjóðendur hafa ekki þá reynslu sem til þarf. Þetta eru svolítið krassandi staðhæfingar. Hver er heimildin? Jú, það er Lúðvík Bergvinsson sjálfur. Hann lætur hafa þetta eftir sér í Eyjablaðinu Vaktinni.
„Hvort ég fái ráðherrastól fer eftir því hvort mér tekst að ná 1. sæti í kjördæminu í komandi prófkjöri. Takist það og með Samfylkinguna í stjórn, já. Það er ljóst að ég hef mestu reynslu þeirra sem koma af landsbyggðinni og það ásamt ýmsu öðru gerði það að verkum að ef Suðurkjördæmið fengi ráðherra yrði það væntanlega ég. Og dæmin sanna að ráðherrastóll hefur skipt sköpum fyrir mörg kjördæmi landsins. En fari svo að ég leiði ekki listann í Suðurkjördæminu eru aðrir landsbyggðarþingmenn en meðframbjóðendur mínir í fyrsta sæti listans í Suðurkjördæmi reynslumeiri en þeir og mun líklegri til að fá ráðherrastól.“

Aftur á hleri

Var að skoða gögnin á skjalasafn.is , - það sem varðar 1949. Sé ekki betur en eina gagn dómsins hafi verið forsíða Þjóðviljans. Af henni er ekki auðvelt að álykta um annað en að fólk hafi ætlað að færa sér í nyt fundafrelsið og mótmæla. Það er krafist þjóðaratkvæðis og sagt að þingmönnum verði hafnað í næstu kosningum. Þetta er hlaðið þjóðernishyggju fremur en byltingarhyggju. Markmiðið virðist að framleiða pólitískan þrýsting, ekki byltingu, svona ef lesið er það sem stendur í línunum.

Svo er eins og dómurinn krefjist einskis rökstuðnings fyrir því að viðkomandi einstaklingar eigi að vera við þetta ætlaða valdarán riðnir. Ekki einu sinni augljóst að dómarinn viti hverja á að hlera. Það er ekkert próf lagt fyrir lögregluna, engir þröskuldar settir upp. Áttu þessir einstaklingar ekki í grófum dráttum sömu stjórnarskrárvörðu réttindi þá og þeir ættu nú? Minni á að á þessum tíma var þrígreining ríkisvaldsins ófullkomin í meira lagi, rannsóknarlögregla undir sakadómara og ráðherra fór með ákæruvaldið. Hvað var gert til að tryggja meðalhóf í aðgerðunum? Voru ekki lýðræðisöflin að verjast? Trúðu þau ekki í verki á það sem þau sögðu í orði?

Það kemur fram í greinargerð dómsmálaráðuneytisins að það eigi að hindra Alþingi í störfum sínum, sama orðalag og iðulega hefur verið síðan viðhaft um það sem gerðist á Austurvelli. Voru aðrar heimildir um það en forsíða Þjóðviljans? Mér sýnist sú ályktun síður en svo blasa við af því sem stendur í blaðinu. Mér sýnist þessi gögn vera heimild um paranoju stjórnvalda, fyrst og fremst, og til þess fallin að maður vilji túlka það sem gerðist dagana á eftir í því ljósi.

Enn á hleri

Þá er Guðni Jóhannesson búinn að greina frá því að hann hafi séð gögn sem bendi til þess að Ólafur Jóhannesson hafi vitað um flesta þætti í starfsemi öryggisþjónustu lögreglunnar og gefur afdráttarlausa yfirlýsingu um að það sé rangnefni að tala um leyniþjónustu Sjálfstæðisflokksins. Fínt að þetta liggi fyrir og ég hlakka til að sjá Guðna greina nánar frá þessum gögnum. Mér finnst líka gott hjá Guðna að árétta að Björn hafi greitt honum leið í hans störfum að þessu máli enda hef ég alltaf skilið Björn þannig að hann vildi að sem mest og best yrði um þessi mál öll fjallað.

Klukkan er rúmlega tólf

Hvernig fer þetta hjá sjálfstæðismönnum? Hef ekki hugmynd og held þetta sé tvísýnt. Miðað við að það eru 21.000 á kjörskrá og óflokksbundnir stuðningsmenn mega kjósa finnst mér kjörsóknin fara hægt af stað. Gæti unnið með Gulla, hann hefur mikið batterí í gangi, sem er að handlanga þúsundir á kjörstað. En hvað veit maður svosem hérna í sófanum.

Björnsmenn segja að andstæðingar flokksins voni að Björn tapi. Ekki held ég að það sé rétt. Ég held að það verði meira pláss á hinni pólitísku miðju ef Björn vinnur. Þess vegna hljóta andstæðingar flokksins að telja hann vænlegri keppinaut í kosningabaráttu í vor og svo hefur hann náttúrlega verið virkur gerandi í mörgum umdeildum málum.

föstudagur, október 27, 2006

Hvað segir Samkeppniseftirlitið?

Valdimar er misboðið enda stendur málið honum nærri. Er ekki verið að lýsa hér ólögmætum viðskiptaháttum?
"Fréttablaðinu er tryggt fjármagn svo lengi sem það tilheyrir samsteypu Baugs en hins vegar kunna ókostir þessa eignarhalds að vera þeir að blaðið fái mun minna fyrir hverja auglýsingu fyrirtækja Baugs en ef það tengdist ekki Baugi," segir Guðbjörg en hún telur að óneitanlega veki slík slagsíða í birtingum á auglýsingum upp þá tilgátu að Fréttablaðið bjóði systurfyrirtækjum sínum verulegan afslátt af auglýsingaverði sem önnur dagblöð geta ekki keppt við.

Ég sé ekki af þessum fréttum að fjölmiðlafræðingurinn sé í snertingu við hugtakið snertiverð og þann möguleika að það sé best að auglýsa þar sem flestir lesa, þannig fái maður bara mest fyrir peninginn. En um sérstaka afslætti til systurfyrirtækja: mundi það standast samkeppnislög?

Það er fjör í Eyjum

Utakjörfundaratkvæðagreiðsla í prófkjöri Samfylkingarinnar er hafin á skrifstofu flokksins í Eyjum, einmitt í sama húsi og Lúðvík Bergvinsson hefur opnað kosningaskrifstofu sína og líka hinir Eyjamennirnir í prófkjörinu, Guðrún Erlingsdóttir og Bergvin Oddsson.

Bíddu við, Eyjamennirnir í prófkjörinu? Hvað með Róbert Marshall, fær hann ekki líka að vera með kosningaskrifstofu á kjörstaðnum, sjálfur Brekkusöngvarinn? Nei, nýjustu fréttir herma að Róbert teljist ekki með Eyjamönnum af því að hann er ekki skráður í Samfylkingarfélagið í Eyjum, heldur í Reykjanesbæ.

Forsíðustúlkan

Unnur Birna verður forsíðustúlka fyrsta tölublaðs Ísafoldar, nýja tímaritsins hans Reynis Trautasonar. Það kemur út í næstu viku er mér sagt en fyrirmynd þess er glanstímaritið Vanity Fair.

Getraun dagsins

Það eru víðar prófkjör en hér á átakasvæðunum í Reykjavík. Til dæmis í Norðvesturkjördæmi. Þar er Samfylkingin að kjósa sér fólk. Getraunin er þessi: Hvernig fer? Hér er atrenna að spá en setjið endilega meira í komment.
1. Guðbjartur Hannesson.
2. Anna Kristín Gunnarsdóttir.
3. Helga Vala Helgadóttir.
4. Karl V. Matthíasson.

Pistill dagsins

Sigmar fer á kostum og klárar málið.

Ljóð dagsins

Það hefur líklega verið á degi eins og þessum sem Stefán Jónsson orti:
Hrollkaldri rigningu hann hellti yfir landið
svo hrikti í hriplekum torfkofaskriflunum
en andstkotinn má vera óspar á hlandið
ef hann ætlar að drekkja öllum helvítis fíflunum.

Andvarp dagsins

Ææ og óó.

fimmtudagur, október 26, 2006

Allt í klandri

Ég sagði hér að neðan að borgarstjórinn styddi Gulla og dró þá ályktun af heilsíðuauglýsingunni góðu. Eftir að hafa horft á gamla, góða Villa í kvöldfréttum Stöðvar 2 er ljóst að ekki er allt sem sýnist. Borgarstjóri veit ekki sitt rjúkandi ráð. Hvað getur hafa breyst í dag?

Formaður og borgarstjóri Sjálfstæðisflokksins eru greinilega ekki mjög miklir kappar þegar á hólminn er komið. Þeir létu hafa sig í það að efna til átaka við Kjartan og Björn en reyna svo að hlaupa í felur þegar mest gengur á. Kannski er þeim einhver vorkunn, það er örugglega hægara sagt en gert að eiga við þá innvígðu og innmúruðu í bardagaham.

En óneitanlega hefði verið gaman að vera fluga á vegg þegar Guðlaugur Þór horfði á þetta, nýbúinn að eyða tæplega hálfri milljón í heilsíðuauglýsingu með Villa í Fréttablaðinu. Og nú sé ég frétt á heimasíðu Gulla þar sem fagnað er "afgerandi stuðningi" borgarstjórans. Ertu ekki að grínast?

Mannauðsstjórnun

Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra vill tryggja aðgengi útlendinga að íslenskunámi. Gott hjá honum.

Ég þekki kennara sem er með tvo 15 ára gamla drengi í bekknum sínum, nýflutta til landsins. Hann gerir sitt besta en hvorugur skilur orð í íslensku og móðurmál þeirra er annarrar gerðar og ættar en okkar. Þeir mæta í skólann og sitja kyrrir á sínum stað í bekknum frá klukkan 8-14 fimm daga í viku, skilja ekki orð og fá nánast enga aðstoð til þess að læra tungumálið eða læra eitthvað á sínu eigin.

Ég er viss um að með hverjum tímanum vex innra með þeim sú tilfinning að þeir séu utangarðs, öðruvísi, eigi ekkert sameiginlegt með hópnum og þeir gætu eins verið á tunglinu. Það er bókstaflega verið að reka þá út úr samfélaginu með því að sóa tíma þeirra á þennan hátt.

Þú reddar þessu Maggi, það er bara verið að rækta þarna reiða, unga menn. Við eigum nóg af þeim fyrir.

Koddahjal dagsins

Sveitarstjórnarmenn halda áfram að lýsa yfir stuðningi við frambjóðendur. Borgarstjórinn í Reykjavík styður Gulla og nú blandar þessi bæjarstjóri sér í leikinn í öðru prófkjöri. Yfirlýsing hans er álíka óvænt og stuðningur Villa við Gulla, eða svona um það bil.

Ertu að hlusta, Einar Kristinn?

Í viðtali við Jóhann Hauksson segir Illugi Gunnarsson m.a. þetta:
"Eg er ekki hlynntur hvalveiðum nú ef í ljós kemur að engin markaður er fyrir hvalkjötið," segir Illugi Gunnarsson, frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Hann segir að rétturinn til að hefja veiðar sé fyrir hendi en að það sé tóm vitleysa og "alveg galið" að stunda þær ef ekki er neinn markaður fyrir afurðirnar. "Skynsemin í þessu hvílir á því að markaðurinn sé fyrir hendi."
Ég vona að Illugi verði ekki undir og klemmist á milli í yfirstandandi borgarastyrjöld sjálfstæðismanna í Reykjavík. Öflugur og frjór náungi, sem hefur mikið fram að færa í pólitíkinni. Mensch, held ég að megi segja.

Vandræði

Mér er sagt að vegna prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík séu nú á þrotum allar birgðir af vöfflumixi í verslunum í borginni.

Hvenær styður maður mann III

Gulli og Villi svara fyrir sig á bls. 9 í Fréttablaðinu í dag. Heilsíðuauglýsing, þeir standa hlið við hlið, skælbrosandi og Vilhjálmur handskrifar stuðningsyfirlýsinguna sína til þess að það fari nú ekki á milli mála að hann standi með Gulla og að Björn hafi ekki haft leyfi til þess að tala um stuðning borgarstjórans við sig.

miðvikudagur, október 25, 2006

Talsmaður neytenda

Gísli Tryggvason hefur sýnt að hann er prinsíppmaður og er kominn í fjölmiðlabindindi fram yfir prófkjör til þess að verja embætti sitt ásökunum um pólitíska misnotkun. Með þessari ákvörðun komst hann reyndar í fréttirnar en gott hjá honum og til háborinnar fyrirmyndar.

Nú er skarð fyrir skildi. Hver á að gæta hagsmuna neytenda og vera talsmaður þeirra? Eiga íslenskir neytendur nú engan vin? Það þýðir ekkert að bíða eftir að einhver annar leysi vandann. Ég hef því ákveðið að axla þessa ábyrgð í forföllum Gísla, eða fram til 4. nóvember. Ég mun ekki krefjast launa fyrir starfið ekki fremur en Kjartan Gunnarsson krafði Sjálfstæðisflokkinn um laun fyrir erfiði sitt. Maður verður að gera skyldu sína, eins og kallinn sagði. Hefst nú lesturinn:

Meðalverð á slægðri ýsu á fiskmörkuðum í síðustu viku var 167 kr./kg og framboðið gríðarlegt. Í dag borguðum við hjónin 1.300 krónur fyrir kílóið af ýsuflökum í búð. Það er eitthvað að.

Ég er að velta þessu fyrir mér í sambandi við verðlagið hér á landi. Nú eru ekki tollar eða vörugjöld að sprengja upp verðlagið á ýsunni. Landbúnaðarkerfið er mér engan veginn að skapi. Ég væri til í að hafa á því endaskipti og geta keypt osta hvaðanæva að en ég er hræddur um að það yrði ekki til þess að lækka verðið á ýsunni.

Íslenskir neytendur eru hafðir að fíflum á öllum sviðum, ekki bara í bensínsölu, bankaviðskiptum og verði á landbúnaðarvörum.

Góðar stundir.

Hvenær styður maður mann II?

Í dag er dreift í hús í borginni bæklingum frá bæði Guðlaugi Þór og Birni Bjarnasyni. Báðir flagga því að þeir njóti stuðnings Vilhjálms borgarstjóra. Engum kemur á óvart að Vilhjálmur styðji Gulla, hann á honum sennilega öðrum fremur að þakka sigurinn í prófkjörinu sl. haust og þar með borgarstjórastólinn. Hins vegar hafa margir rekið upp stór augu við að sjá Vilhjálm á forsíðu stuðningsmannablaðs Björns. Vilhjálmur sjálfur er víst einn þeirra sem varð hissa, og hreint ekki glaður.

Það sem þarna mun hafa gerst er að Vilhjálmur flutti stutta tölu við opnun kosningaskrifstofu Björns og fór viðurkenningarorðum um frambjóðandann við það tækifæri, eins og tilheyrir. En mínar heimildir úr herbúðum Gulla herma að Vilhjálmur hafi verið alls óviðbúinn því að stuðningsmenn Björns tækju setningar úr þeirri tölu og settu með mynd á bæklings Björns til þess að gefa til kynna sérstakan stuðning borgarstjórans við Björn og þar með andstöðu við Gulla. Gamli, góði Villi hafi ekki gefið leyfi til þess að þetta efni væri notað á þennan hátt. Hann er sagður vera að velta fyrir sér viðbrögðum.

Það verður spennandi að sjá hvernig þeir fóstbræður Vilhjálmur borgarstjóri og Guðlaugur Þór bregðast við. Hvaða mótleik eiga þeir?

Mæla skal þarft eða þegja

Mér finnst þetta rétt ábending hjá Guðmundi:
Ef Arnþrúður er að gefa í skyn að meðal verkefna hennar hjá Útlendingaeftirlitinu eða lögreglunni forðum daga hafi verið ólögmæt iðja, þá ber henni þegar í stað að snúa sér til saksóknara og láta vita af því
Fólk sem gefur í skyn að það búi yfir svona vitneskju verður að tala hreint út, fara til saksóknara, en líka tjá sig opinberlega eftir því sem unnt er. Þagnarskyldukúltúr er allsráðandi í löggu- og fjarskiptageiranum en þagnarskyldan getur bara náð yfir lögleg fyrirmæli. Ef fólki hefur verið falin verk, sem ástæða er til að ætla að séu ólögmæt, getur það ekki verið bundið af þagnarskyldu.

Það er í vinnu hjá ríkinu sem stjórnast af lögunum en ekki hjá mönnunum sem fara með ríkisvaldið hverju sinni. Þannig að nú er rétti tíminn fyrir alla litlu Landssímamennina að koma fram ef þeir hafa eitthvað að segja og tali þeir þá hreint út, það vantar ekki hálfkveðnar vísur inn í þessa umræðu. Hún líður hins vegar mjög fyrir skort á upplýsingum og staðreyndum.

Egill dagsins

Fín hugvekja hjá Agli, og ekki í fyrsta skipti. Ég er alltaf hrifnari af því þegar menn bera fram mikið af spurningum frekar en mikið af einföldum svörum. Egill spyr margs, m.a. þessa:
Hitt stéttlausa Ísland, sem menn stærðu sig af eitt sinn, er að hverfa. Er vaxandi misskipting kannski til marks um dýnamískt samfélag þar sem menn geta loks auðgast almennilega, þar sem miklir kraftar hafa losnað úr læðingi? Eða er þetta vandamál? Getur ójöfnuðurinn eyðilagt samfélagið? Er hætta á að lítill hópur manna eignist allt landið? Af hverju hurfu litlu mennirnir - það sem í útlöndum er kölluð stétt smákaupmenna?

Elín Alberts á Blaðið

Blaðinu hefur bæst góður liðsauki. Elín Albertsdóttir hefur verið ráðin þar til ábyrgðarstarfa á ritstjórninni og kemur til vinnu um næstu mánaðamót. Elín er með reyndustu mönnum í faginu, nýhætt sem ritstjóri Vikunnar og var áður lengi á DV. Væntanlega mun hún taka að sér störf á innblaðinu.

Einnig er komin í fréttir á Blaðinu Ingibjörg Bára Sveinsdóttir, sem áður var aðstoðarritstjóri Vikunnar, og þar áður í fréttum á DV. Ekki er vafi á að það styrkir unga ritstjórn Blaðsins að fjölga þar reynsluboltum í hópi blaðamanna.

Orð dagsins

Kristján G. Arngrímsson í viðhorfi í Morgunblaðinu:
Ef trú á guð er jafn slæm fyrir okkur og Dawkins fullyrti í Íslandsheimsókn sinni, væri þá ekki líklegt að þeir sem slegnir hafa verið þessari "óáran" hefðu dáið út en hinir komist af sem væru lausir við þennan galla? Allur meginhluti mannkyns trúir nú, með einum eða öðrum hætti, á æðri mátt. Þetta eru sömu einstaklingarnir og orðið hafa ofan á í miskunnarlausri þróunarsamkeppni. Þessi samkeppni hefur staðið lengi. Hvenær fóru sumir þátttakendanna í henni að trúa á æðri máttarvöld? Gæti verið að það hefði verið um svipað leyti og þessir sömu einstaklingar fóru að verða ofan á í samkeppninni?

þriðjudagur, október 24, 2006

Hvenær styður maður mann?

Baráttan milli Guðlaugs Þórs og Björns Bjarnasonar um 2. sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins er æsispennandi. Stuðningsmenn beggja eru kappsfullir - sumir einum of kappsfullir. Sú lýsing á amk við um þann stuðningsmann Björns sem safnaði saman stuðningsmönnum til þess að lýsa opinberlega yfir stuðningi við dómsmálaráðherrann í Morgunblaðinu síðastliðinn laugardag.

Þorkell Sigurlaugsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Eimskip og nú stjórnandi hjá Háskólanum í Reykjavík, frétti nefnilega fyrst af því þegar hann var að lesa Moggann á laugardagsmorguninn að hann væri yfirlýstur stuðningsmaður Björns Bjarnasonar. Þorkell hafði ekki hugmynd um það fyrr en hann las það í Mogganum að hann styddi Björn og meira að segja opinberlega. Honum brá sem von var og hringdi í Björn til þess að kalla eftir skýringum og árétta við hann að hann ætlaði ekki að lýsa yfir stuðningi við nokkurn mann í þessu prófkjöri nema Guðfinnu rektor í 3ja sætið.

Birni varð eðlilega ekki vel við að fá þetta símtal og baðst afsökunar. Hann hafði ekki sjálfur ákveðið að auglýsa stuðning Þorkels við sig heldur talið að stuðningsmenn sínir hefðu fengið leyfi hans sjálfs til þess. Svo var ekki.

Hið merkilega er að þetta mun ekki vera einsdæmi í þessari prófkjörsbaráttu. Frést hefur að fleiri sjálfstæðismönnum hafi svelgst á morgunkaffinu þegar þeir hafa lesið og séð sjálfa sig lýsa yfir stuðningi við mann og annan, að þeim sjálfum forspurðum.

Orð dagsins

Lesið pistlil Guðmundar Magnússonar, sem fer vel yfir kaldastríðsmál og hleranir og kemur að kjarna málsins þegar hann segir:
Ég er þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að öll gögn um pólitískt eftirlit og leyniþjónustustarfsemi hér á landi á kaldastríðsárunum verði gerð opinber. Því fyrr því betra. Við þurfum síðan að fá breiðan hóp fræðimanna til að vinna úr þeim og skrá þessa sögu fyrir almenning. Dómar manna og ályktanir verða vafalaust mismunandi, en mestu skiptir að fá allar staðreyndir á borðið.

Atlaga dagsins

Össur botnar pistil dagsins um slag Björns og Gulla í prófkjöri sjálfstæðismanna með orðum sem ég gæti trúað að einhver líti á sem ósvífna atlögu:
Hvernig á alþýða manna að bera traust til stjórnmálanna, þegar stærsti flokkur þjóðarinnar hagar sér einsog mexíkanskur bófaflokkur?

Er þetta þín sjoppa, Halli?

Haraldur Johannessen segir sjálfsagt að taka ábendingar Ríkisendurskoðunar til skoðunar!! Maðurinn talar eins og þetta sé hans eigin sjoppa. Auðvitað er það dómsmálaráðherra en ekki Haraldur sem er ábyrgur fyrir því að 1. ábendingum Ríkisendurskoðunar um það sem betur má fara í rekstri ríkislögreglustjóra verði sinnt og 2. að stjórnendum embættisins sé treystandi til að hrinda þeim í framkvæmd.

Ekki frétt dagsins

Femínistar vilja fleiri konur á þing.

Tímabær útrás

Halldór Ásgrímsson verður fínn í þetta:
Íslensk stjórnvöld sækjast eftir því að næsti aðalritari Norrænu ráðherranefndarinnar verði Íslendingur. Íslendingur hefur aldrei gegnt stöðunni.

Blað skilur bakka og egg...

Staksteinar:
Það er t.d. ljóst að það gengur ekki hnífurinn á milli Guðna Ágústssonar landbúnaðarráðherra og Andra Snæs Magnasonar rithöfundar þegar kemur að framtíðarsýn þeirra um landbúnaðarmál.

mánudagur, október 23, 2006

Tilboð dagsins

Það eru víst 73% líkur á að þú notir Internet Explorer vafrann til þess að lesa þessa færslu. Má ekki bjóða þér í hinn exklúsíva 14% hóp sem nýtur frelsis með Firefox og ferðast áhyggjulaust um internetið. Hlekkur hér og hér er nýja útgáfan. Alveg ókeypis, allir velkomnir.

Rétt athugað

Helgi:
Fyrirrennarar Geirs hafa varnað því í tuttugu ár að hvalveiðar verði hafnar. Þrátt fyrir ríkan vilja til þess í landinu að veiða hval hafa þeir staðið á bremsunni vegna orðspors okkar erlendis og annarra hagsmuna. En sú fyrirstaða er nú rokin út í veður og vind.

sunnudagur, október 22, 2006

Getraun dagsins

Um hvað fjallar fimmta mest lesna frétt dagsins á vef BBC? Svarið fæst ef smellt er hér.

Fuglahræðublús

Samstaða til sigurs er slagorð Björns Bjarnasonar. Í fyrstu yfirlýsingu sinni sem framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins talaði Andri Óttarsson um mikilvægi þess að flokkurinn kæmi sameinaður til kosninga í vor. Nú er það svo að flokkur, sem er sæmilega sameinaður fyrir, getur einbeitt sér að öðrum verkefnum en þeim að búa til sameiningu í sínum röðum. En meðan einingin er ekki fyrir hendi verður ekki friður til þess að gera nokkuð annað.

Þekkt aðferð til þess að búa til samstöðu er að búa til sameiginlegan óvin - ímyndaðan eða raunverulegan - og þjappa liði sínu saman um andúð á honum. Þetta er gjarnan gert þegar valdhafar vilja beina athyglinni frá eigin heimilisböli eða þegar pópúlistahreyfingar eru að sækjast eftir auknum áhrifum og ítökum.

Í fjórdálkabanner á forsíðu sunnudagsMoggans er leidd fram algeng útgáfa af ímynduðum andstæðingi. Þetta er það sem Kaninn kallar fuglahræður, þ.e.a.s. andstæðingur sem virðist ógnvekjandi úr fjarska en er ekki til þegar að er gáð. Auðvitað er enginn ytri andstæðingur að gera aðför að Birni Bjarnasyni, þeir sem að honum sækja eru þeir sjálfstæðismenn sem vilja fella hann í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Þjóðlegur fróðleikur

Jóhann Hauksson:
Þess má geta að Róbert Trausti Árnason er nú í sérverkefnum á vegum Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra, meðal annars við að undirbúa alþjóðlega ráðstefnu um öryggi á norðurslóðum, sem haldin verður á vegum dómsmálaráðuneytisins 2. nóvember næstkomandi.

Guð láti á gott vita

Repúblíkanar eru búnir að missa takið á bókstafstrúarmönnunum sem hafa tryggt þeim völdin í Bandaríkjamönnum. Boðar gott fyrir demókrata í kosningunum í nóvemberbyrjun:

If the elections for Congress were held today, according to the new NEWSWEEK poll, 60 percent of white Evangelicals would support the Republican candidate in their district, compared to just 31 percent who would back the Democrat. To the uninitiated, that may sound like heartening news for Republicans in the autumn of their discontent. But if you’re a pundit, a pol, or a preacher, you know better. White Evangelicals are a cornerstone of the GOP’s base; in 2004, exit polls found Republicans carried white Evangelicals 3 to 1 over Democrats, winning 74 percent of their votes. In turn, Evangelicals carried the GOP to victory. But with a little more than two weeks before the crucial midterms, the Republican base may be cracking.

Eigið þið ekki að vera ósammála?

Ekki á hverjum degi sem forystumenn í Samfylkingu og Framsóknarflokki eru á einu máli: Burt með tekjutengingar lífeyrisbóta.

laugardagur, október 21, 2006

Tveir turnar

Er það ekki rétt hjá mér að eftir kaup Björgólfs Guðmundssonar á 8% í Árvakri eigi félög sem Björgólfur eldri og BTB ráða amk jafnstóran hlut í Árvakri og Baugsfeðgar eiga í miðlum á vegum 365?

Í nóvember greindi Mogginn frá því að Straumur hefði keypt 16,7% og nú kaupir Björgólfur eldri 8,2%. Það er samtals 24,9% en ef ég veit rétt gerir frumvarp menntamálaráðherra, sem nú liggur frammi á Alþingi, ráð fyrir 25% hámarkseignaraðild skyldra aðila. Veit ekki hvort einhverjar aðrar breytingar á eignarhaldinu hafa orðið frá því í nóvember.

föstudagur, október 20, 2006

Opinberar framkvæmdir

Sturla Böðvarsson tók í dag fyrstu skóflustungu að pósthúsi heima hjá sér í Stykkishólmi.

Beint til Boga

Forvitnilegastu spurningarnar í hleranamálum nú finnast mér þessar: Mun ríkissaksóknari víkka út rannsókn sýslumannsins á Akranesi þannig að hún nái einnig yfir fullyrðingar um að Jón Baldvin og Steingrímur hafi látið utanríkisþjónustuna rannsaka Svavar Gestsson? Hvers vegna/hvers vegna ekki? Ef saksóknari tekur þessi mál yfir mun Jón Baldvin þá hafa réttarstöðu sakbornings eða vitnis í yfirheyrslum hjá löggunni á Akranesi? Verður Svavar kvaddur til vitnis? Og Róbert Trausti, verður hann vitni eða sakborningur? Sakborningur vegna þagnarskyldu opinbers starfsmanns og/eða vegna þess að njósnir um Svavar hafi verið ólöglegar?

Eða getur landsdómur einn rannsakað og dæmt um meint lögbrot ráðherra? Þá væri ljóst að löggurannsóknarleiðin dugar ekki eins og ýmsir hafa talað fyrir og málið fyrnt? Ef svo er, er þá ekki ljóst að það þarf sérstakan farveg á borð við þingnefnd til þess að leiða hið sanna í málinu í ljós og bjarga því úr þeirri herkví smjörklípuaðferðarinnar sem það er komið í?

Ritstjórablogg

Sme er byrjaður að blogga. Setur inn leiðarana sína og vonandi meira.

Hvar er Valli?

Styður Mogginn Gulla gegn Birni í prófkjörinu? Aðsend mynd á bls. 2 af Guðlaugi Þór með Róman Abramóvitsj, báðir gleiðbrosandi og fínir, Gulli svona eins og að máta sig í utanríkisráðherrahlutverkið. Í bakgrunni má, ef vel er að gáð, sjá Ólafi Ragnari Grímssyni bregða fyrir.

Orð dagsins

Leiðari sme í Blaðinu:
Allar þær símhleranir og persónunjósnir sem sannarlega voru stundaðar hér eiga það sammerkt að hafa engu skilað, enga sekt sannað og aðeins verið byggðar á ótta ráðandi afla hverju sinni.

Góður punktur

Góður punktur í leiðara Þorsteins Pálssonar í Fréttablaðinu í dag um Róbert Trausta Árnason, sem hefur komið fram og upplýst að Jón Baldvin og Steingrímur hafi beðið sig að grennslast fyrir um starfsemi STASI á Íslandi. Róbert segir að þessu hafi verið beint gegn Svavari en Jón Baldvin kannast ekki við það.

Allt um það, Þorsteinn Pálsson bendir á að með því að gerast heimildarmaður Þórs Whitehead hafi Róbert rofið þagnarskyldu opinbers starfsmanns en að það muni væntanlega engin eftirmál hafa fyrir hann því að ef hann hafi fengið fyrirmæli um að njósna um Svavar hafi þau verið ólögleg og þagnarskylda opinberra starfsmanna gildi ekki um ólögleg fyrirmæli. Þetta er náttúrlega lykillinn að því að fá fram á borðið allar upplýsingar um þessi mál, að opinberir starfsmenn sem hugsanlega hafa unnið einhver verk af þessu tagi að fyrirmælum yfirboðara sinna stígi fram, tjái sig og geri sér grein fyrir því að sú þögn sem þeir töldu að þeir ættu að viðhafa um starfsemina var og er ólögleg.

Sennilega vinnur ekkert jafnmikið gegn því að upplýsingar komi fram og sú rótgróna hugmynd opinberra starfsmanna í löggu- og fjarskiptageiranum og utanríkisþjónustunni að þeir séu bundnir algjörri þagnarskyldu um allt sem þeir gera í vinnunni. En eins og Þorsteinn bendir á, þá á það bara við um lögleg fyrirmæli yfirmanna. Kannski stíga nú fleiri fram.

fimmtudagur, október 19, 2006

Þú segir nokkuð

Hverjir ætli tapi mestu vegna hvalveiðanna? Ef ég væri breskur græningi mundi ég strax skipuleggja bojkott á Nonnabúð í Oxford-stræti og allar hinar búðirnar hans Baugs, sem er búinn að ná til sín stórri sneið af smásölumarkaðnum í Bretlandi. Láta þá finna fyrir því. Ég væri sannfærður um að það væri rétta leiðin til þess að telja ríkisstjórninni hughvarf að efna til mótmæla gegn Baugi og auðvitað sendiráðinu, kannski líka Bakkavararbræðrum.

Þegar stórt er spurt...

Róbert:
Að leggja í hvalveiðar án þess að hafa útbúið vinnslustað hvalsins, er það ekki svipað og að fara í lundaveiði án þess að vera með veiðikort?

Allir vinna

Það var ekki lengi gert að kalla fram svör við hvalræðinu hér að neðan. Vinningshafi er Svanborg Sigmarsdóttir. Í verðlaun fær hún (og reyndar allir aðrir) aðgang að opinni vefsíðu þar sem lesa má Moby Dick frá upphafi til enda.

miðvikudagur, október 18, 2006

Hvalræði dagsins

Sá sem spurt er um lagði áratugi af ævi sinni undir tryllta leit að hval án þess að skeyta um hverju var til kostað. Hvað heitir hann? Nefnið líka hvalskipið hans og segið frá því hvor hafði betur, hvalurinn eða maðurinn með þráhyggjuna. Svör skráist í kommentakerfið. Verðlaun í boði.

Gott hjá þeim

SUS mótmælir leyniþjónustuhugmyndum og vill rannsókn á hlerunum. Skil þá reyndar þannig að þeir telji að rannsókn ríkissaksóknara eigi að nægja og er ósammála því. Guðmundur er eljusamur í málinu, vekur nýjar spurningar. Mér sýnist allt sem fram kemur styðja hugmyndir um að þingið láti að sér kveða í hleranamálum. Þetta á ekki að vera flokkspólitíkst mál. Það er vísasti vegurinn til þess að klúðra því og koma í veg fyrir að sannleikurinn komi í ljós.

Framtíðarhorfur hvalveiðiráðuneytisins

Athyglisvert mál. Ríkisstjórnin er búin að setja í gang vinnu vegna þessa og var Birni Bjarnasyni og Árna Magnússyni falið að annast hana. Það var einhvern tímann rætt um þetta í fjölmiðlum við Björn en aldrei við Árna svo ég minnist. Hvar ætli málið standi, ætli sú vinna sem farin var í gang hafi verið lögð til hliðar þegar hann hvarf úr ríkisstjórninni eða er kannski enn verið að vinna að þessu?

Orð dagsins II

Leiðari Moggans um hvalveiðar:
"Þeir menn, sem taka svona vanhugsaða ákvörðun, eru ekki með heildarhagsmuni íslensku þjóðarinnar í huga. Þeir eru þvert á móti að þjóna þröngum sérhagsmunum, sem eru svo þröngir að það er ekki nokkur ástæða til fyrir stjórnmálamenn að hlaupa eftir þeim."

Orð dagsins I

Staksteinar: Nýjar kynslóðir Íslendinga þurfa að hafa aðgang að upplýsingum um þessa sögu. Það verður erfitt fyrir þær að skilja sumt af því sem þá gerðist. Það er erfitt ef ekki ómögulegt að koma tíðaranda þeirra ára til skila, en það er sjálfsagt að reyna og tryggja greiðan aðgang að upplýsingum.

Alltaf er auglýsingadeildin að koma á óvart

Birgir Ármannsson á forsíðu Blaðsins og líka á baksíðunni, síðu 2 og næstöftustu síðunni. Ég get ímyndað mér stemmninguna á ritstjórn Blaðsins þegar það fær svona sendingar frá auglýsingadeildinni, tveimur dögum eftir lesendakönnun sem staðfestir að það er í gífurlegri sókn.

Það verður athyglisvert að sjá hvað Valdimar segir um þessi vinnubrögð. En ég vona að Birgi gangi vel og að sjálfstæðismenn í Reykjavík lesi kálfinn frá upphafi til enda og styðji Birgi svo í 3.-5. sætið. Hann er toppmaður.

þriðjudagur, október 17, 2006

Fréttayfirlit

Það bar til tíðinda í prófkjörsfréttum í dag að Ágúst Ólafur Ágústsson fór viðurkenningarorðum um dómsmálaráðherra í frétt um fangelsismál. Gott hjá Ágústi Ólafi að viðurkenna það sem vel hefur verið gert, það gerir stjórnmálamenn miklu foringjalegri og traustari að vera sanngjarnir í garð andstæðinganna og þora að viðurkenna staðreyndir, ekki bara vera fúll á móti. Gagnast honnum kannski í prófkjörinu.

Það bar ennfremur til tíðinda að Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, sem lýsti yfir framboði í 2. sæti hjá framsókn í Kraganum um helgina, komst í fréttirnar og talaði um mjólkuriðnað og neytendur. Góð byrjun á kosningabaráttunni hjá honum.

Loks er þess að geta að Gylfi Arnbjörnsson hefur dregið sig til baka úr prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík en þar hafði hann lýst yfir framboði í 3.-4. sæti. Gylfi er framkvæmdastjóri ASÍ. Hann sætti gagnrýni víða (t.d. hér) fyrir viðbrögð sín við matarskattsaðgerðum ríkisstjórnarinnar. Þau þóttu of prófkjörskandídatsleg fyrir mann í hans stöðu og í kjölfarið gaf ASÍ m.a. út yfirlýsingu. Gylfi klikkaði á því að viðurkenna ekki það sem vel er gert. Meinið var að hann gerði ekki skýran greinarmun á hlutverki pólitíkuss og forystumanns fjöldasamtaka sem byggja á nauðungaraðild. Nú hefur Gylfi ákveðið að halda sig við ASÍ og láta drauminn um Alþingi bíða betri tíma.

Rannsóknarhagsmunir og aðrir hagsmunir

Ríkissaksóknari er náttúrlega að gera skyldu sína með því að hefja opinbera rannsókn á hleranamálinu og eðli málsins samkvæmt beinist sú rannsókn að því að leita sakborninga og draga þá fyrir dóm. Þannig er þetta lögfræðikerfi og gott og vel. Ríkissaksóknari er svo sjálfstæður að hann er einn handhafi ákæruvalds, við erum sem betur fer ekki á tímanum fyrir 1961 þegar dómsmálaráðherra sjálfur var handhafi ákæruvaldsins.

En ríkissaksóknari býr ekki við mjög lýðræðislegan ramma. Hann er ekki ábyrgur gagnvart neinum og enginn hefur möguleika á að kæra t.d. ákvörðun hans að sækja mann ekki til saka á grundvelli rannsóknar. Og enginn á heimtingu á að fá aðgang að neinum upplýsingum frá ríkissaksóknara nema þá dómari og verjendur í þeim tilvikum þegar rannsókn leiðir til þess að ákæra er útgefin og þá aðeins þeim gögnum sem lúta að því sakarefni sem saksóknari hefur ákveðið að leggja fyrir dóm. Ef ákæra er ekki gefin út hefur enginn möguleika á að krefja saksóknara um skýringar og rökstuðning fyrir opnum tjöldum. Það er enginn að gæta varðanna og spurningin í þessu máli er einmitt sú: hvað hafa verðirnir verið að gera.

Það er mjög mikið af lögfræðingum í íslenskum stjórnmálum og stundum er eins og þeir vilji taka sig saman um að smætta bara stjórnmálin niður í lögfræðileg viðfangsefni. Þannig er það ekki, traust og trúnaður eru til dæmis ekki bara einhver lögfræðileg hugtök. Þess vegna þarf þingið að taka þetta mál af framkvæmdavaldinu, kannski ekki þann þáttinn sem snýr að glæp og refsingu heldur hinn sem snýr að grundvallartrausti á stofnunum samfélagsins. A.m.k. eiga rannsóknarhagsmunir ekki að þurfa að þvælast fyrir því að opinber umræða haldi áfram um málið.

mánudagur, október 16, 2006

Gott hjá Þorgerði Katrínu

Menntamálaráðherra ætlar ekki að þvælast fyrir því að Kjartan Ólafsson fái að sjá gögnin um hleranir sem dómsmálaráðherra bað þjóðskjalavörð að geyma fyrir sig. Hún ógildir synjunarúrskurðinn.

Mogginn var með 8,8% frídreifingu

Þegar nánar er rýnt í könnun á dagblaðalestri kemur í ljós að Blaðið er orðið stærra en Mogginn á höfuðborgarsvæðinu, en að vísu munar þar innan við prósenti. Svo er að því að hyggja að Mogginn jók frídreifingu milli kannana, nú var frídreifing Moggans hvorki meiri né minni en 8,8% en síðast 8%. Þrátt fyrir þetta tókst ekki að halda lestrinum yfir 50%. Annað athyglisvert er að Blaðið meira en tvöfaldar lestur sinn í aldurshópnum 20-29 ára. Í maí var lesturinn 17,9% í þeim hópi en er nú kominn í 39,1%. Þannig að blaðalestur ungs fólks er að aukast. Það má telja vel af sér vikið hjá Fréttablaðinu að halda sínu og bæta við sig örlitlu miðað við þá siglingu sem Blaðið hefur verið á.

Fleiri lesa Fréttablaðið, Blaðið í stórsókn, Mbl dalar

Það er kátt á hjalla í Skaftahlíðinni í dag og líka á ritstjórn Blaðsins. Niðurstöður úr lestrarkönnun dagblaða voru að koma í hús. Fréttablaðið er með 68,9% lestur og eykst hlutdeildin um 0,6% frá því í maí. Mogginn tapar hins vegar 4,7% lesenda og fer í 49,6% lestur. Sme og Janus eru sjálfsagt býsna kátir með útkomu Blaðsins því það bætir við sig hvorki meira né minna en 12,7% og hefur nú 45,6% lestur. Þeir feðgar eru því farnir að anda ofan í hálsmálið á stóra bróður, hinum megin við vegginn í Hádegismóum. Og ætli það sé ekki sókn Blaðsins sem veldur mestu um minnkandi lestur Moggans?

sunnudagur, október 15, 2006

Kæri Jón

Kæri Jón. Ég sá þig í Silfrinu í dag og ákvað svo að skrifa þér línu vegna hlerananna. Mér finnst ekki hægt að gera þá kröfu til Jóns Baldvins og Árna Páls að þeir fari til dómsmálaráðherra eða umboðsmanns og láti rannsaka hvort þeir voru hleraðir í utanríkisráðuneytinu. Við erum að tala um grun, sem því miður virðist rökstuddur, um að hér hafi verið stundaðar hleranir án dómsúrskurða. Slík starfsemi skilur ekki eftir sig gögn í stjórnsýslunni með venjulegum hætti.

Ég hlustaði á viðtal við Geir H. Haarde í ríkissjónvarpinu á laugardagskvöld. Hann vill láta rannsaka þann árangur sem hleranir byggðar á dómsúrskurðum fyrir 1991 báru og miðla kaldastríðsgumsinu svo út í þjóðfélagið. Ég held að það sé ekki ekki málið heldur hitt hvort þessi starfsemi var stunduð innan ramma laga og réttar eða ekki. Því miður er mörgum erfiðum en nauðsynlegum spurningum ósvarað. Það nægir ekki að rannsaka gögn, það þarf að tala við fólk.

Kæri Jón, ég vona að þú hlustir frekar á Guðna en Geir í þessu máli. Guðni skynjar eins og oft áður hvernig þjóðarsálin metur þetta mál. Framkvæmdavaldinu er bara ekki treystandi til að rannsaka sig sjálft í þessu efni. Settu þetta nú í rannsókn í þingnefnd, kæri Jón, ekki láta Framsóknarflokkinn elta íhaldið út í þetta fúafen. Þú ræður því á endanum, við vitum það öll.

Fyrsti allaballinn í utanríkisþjónustunni

Enn bætist við hleranamálið. Árni Páll Árnason, var fyrsti Alþýðubandalagsmaðurinn sem var ráðinn til starfa í utanríkisþjónustunni. Já, það er staðreynd að yfirlýstur Alþýðubandalagsmaður fékk fyrst starf í utanríkisþjónustunni í tíð Jóns Baldvins á árunum 1991-1995.

Árni Páll er sonur séra Árna Pálssonar, eins þeirra manna sem dæmdir voru fyrir árásina á Alþingishúsið 30. mars 1949. Verjandi séra Árna í því máli var einmitt Sigurður Ólason, faðir Jón Sigurðssonar formanns Framsóknarflokksins.

Jón Baldvin réði Árna Pál til starfa í utanríkisráðuneytinu. Jón Baldvin fól honum að starfa á varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins og sendi hann síðan til starfa í NATÓ um það leyti sem Jón Baldvin sjálfur fór úr ráðuneytinu og var þá búinn að láta flytja ráðuneytið úr lögreglustöðinni (þar sem hlerunarmiðstöð útlendingaeftirlitsins og fíknó var á neðri hæðinni) og yfir á Rauðarárstíginn.

Það þarf ekki gamla menn til þess að átta sig á því að bakgrunnur Árna Páls gerði það allt annað en sjálfsagt að hann væri aufúsugestur í hinu innvígða og innmúraða öryggissamfélagi á tíunda áratug síðustu aldar, jafnvel þótt hann væri ráðinn og skipaður til starfa af utanríkisráðherra sem lögum og stjórnarskrá Íslands samkvæmt bar ábyrgð á rekstri utanríkisráðuneytisins og samskiptum Íslands við alþjóðastofnanir á borð við NATÓ.

laugardagur, október 14, 2006

Konur slógust í Kraganum

Kosið var milli nánustu samstarfsmanna Sivjar Friðleifsdóttur og Jónínu Bjartmarz á kjördæmisþingi framsóknar í Suðvesturkjördæmi í dag. Sivjarfólk vann með fjórum atkvæðum en það gæti hafa verið Pyrrhosarsigur. Ólga er í baklandinu vegna framkvæmdar kosningarinnar.

Vitað var að kjósa þyrfti formann í stað Eyjólfs Árna Rafnssonar, sem léti af störfum eftir langa þjónustu. Hildur H. Gísladóttir í Hafnarfirði, ein nánasta samstarfskona Sivjar, og Guðrún H. Brynleifsdóttir, lögmaður og bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi og náin samstarfskona Jónínu Bjartmarz, höfðu lýst yfir framboði. Þrýst var á Guðrúnu að bjóða sig ekki fram. Guðrún sagði fjölmörgum þingfulltrúum að Siv hefði tekið hana tali á þinginu sjálfu og beðið hana að draga sig í hlé. Guðrún Helga neitaði. Hún er bæjarfulltrúi flokksins í heimabæ Sivjar en gömul og náin vinkona Jónínu. Samband Guðrúnar og Jónínu er talin helsta ástæða þess að Siv vildi ekki að hún yrði formaður.

Þegar að kosningum kom sauð upp úr. Formanni kjörnefndar Guðmundi Einarssyni, frá Seltjarnarnesi, framkvæmdastjóra Heilsugæslunnar í Reykjavík, láðist að geta þess að Guðrún Helga hefði boðið sig fram sem þó var á allra vitorði. Stuðningsmenn Hildar byrjuðu að klappa, rétt eins og sjálfkjörið væri. Kurr varð í salnum. Þegar hitinn var mestur féllu þau orð að þar hefði Guðmundur gengið of langt í að reka erindi heilbrigðisráðherrans. Guðrún Helga þurfti því að kveða sér hljóðs og lýsa yfir framboði. Svo var kosið. Hildur Helga vann með fjögurra atkvæða mun. Enn jók það tortryggnina milli fylkinga að ekki var kannað hverjir hefðu kosningarétt heldur lét Guðmundur nægja að biðja þá að víkja úr salnum sem ekki mættu kjósa. Kærur eru ekki taldar útilokaðar.

föstudagur, október 13, 2006

Ertu að hlusta, Heimdallur?

Finnst engum öðrum en mér undarlegt að ekkert heyrist í ungum sjálfstæðismönnum vegna símhleranamálsins? Nú eru þeir frægir áhugamenn um verndun friðhelgi einkalífsins, það er einmitt hennar vegna sem þeir skunda ár hvert niður á skattstofu og vernda skattskrána fyrir augum forvitinna.

Nú eru uppi grunsemdir um að árum og áratugum saman hafi verið rekin hér án lagaheimilda einhvers konar leyniþjónusta sem stundaði eftirlit með einkalífi fjölmargra einstaklinga, jafnvel ráðherra í ríkisstjórn landsins. Er það ekki brot á stjórnarskrárverndaðri friðhelgi einkalífsins að hlera síma fólks nema um sé að ræða dómsúrskurði í tengslum við rannsóknir sakamála? Það hélt ég.

En ekkert heyrist frá Heimdalli og bræðrum hans. Eru þeir kannski ennþá niðri á skattstofu?

Huxandi um þetta fer ég að velta fyrir mér nafni félagsins. Var ekki Heimdallur sá ás sem sá jafnt nætur sem daga, þurfti minni svefn en fugl og heyrði svo vel að hann heyrði grasið gróa? Karlgreyið, hann hefur ekki komist hjá því að vera með nefið ofan í hvers manns koppi. Feginn er ég að vera ekki fæddur með þessum ósköpum.

Athyglisvert að ungir sjálfstæðismenn kenni sig við Heimdall, fáir aðrir hafa orðið til að halda nafni hans á lofti. Það hefur ekki einu sinni verið skírt eftir honum varðskip, eins og flestum öðrum ásum af karlkyni, sem halda uppi sýnilegri og lögbundinni öryggisgæslu í landhelginni.

Ha, ráðherra?

Fréttablaðið í dag ræðir við Þorstein Pálsson, ritstjóra sinn í frétt á bls. 2. Í fréttinni er Þorsteinn í hlutverki fyrrverandi dómsmálaráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, á þeim tíma þegar Jón Baldvin segir að sími sinn hafi verið hleraður. Þorsteinn talar um alvarleika þess að Jón Baldvin hafi ekki látið samráðherra sína vita.

Einhverra vegna nýtir blaðið ekki tækifærið til þess að spyrja Þorstein um almenna vitneskju hans um starfsemi leyniþjónustunnar og símhleranir. Nú þekki ég blaðamanninn sem skrifar fréttina og er hann einhver ágætasti ungi blaðamaður sem ég hef starfað með, með fréttanef í lengra lagi og fagmaður fram í fingurgóma. Ég ætla að gefa mér að það sé ekki áhugaleysi hans sem veldur því að svarið við þessari spurningu er ekki að finna í blaðinu. Raunar minnst ég þess ekki að nokkur fyrri ráðherra hafi verið spurður út í þetta í Fréttablaðinu, það hef ég þó ekki kannað í þaula.

Ég minnist þess hins vegar að Morgunblaðið spurði Óla Þ. Guðbjartsson og Jón Sigurðsson fyrrverandi ráðherra út í þetta á miðvikudaginn en náði þá hvorki í Þorstein né Halldór Ásgrímsson. Vonandi heldur Mogginn amk áfram að reyna að ná í þá og einnig væri fróðlegt að heyra hvað Friðjón Þórðarson hefur að segja en hann var dómsmálaráðherra í ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen. Í vikunni greindi einmitt Morgunblaðið frá því að Friðjón hefði flutt mál fyrir Hæstarétti í sumar þótt hann sé orðinn 83 ára að aldri.

fimmtudagur, október 12, 2006

Hvaða paranoju erum við að tala um?

Meinið er að þetta blessaða hleranamál er ekki á neinu stigi nema köttur-í-kringum-heitan- graut-stiginu. Enginn þeirra manna, sem enn eru á dögum og gegnt hafa embætti dómsmálaráðherra, kannast enn við að hafa verið kunnugt um starfsemi einhvers konar leyniþjónustu sem vísbendingar eru um að hér hafi verið starfrækt áratugum saman og jafnvel fram á þennan dag án lagaheimildar í skjóli opinberra stofnana og á kostnað almennings. Ef sú starfsemi var ekki á ábyrgð dómsmálaráðherranna, á ábyrgð hverra var hún þá? Kannski þarf líka að spyrja samgönguráðherrana en amk Steingrímur J. kannast ekki við þetta úr sinni ráðherratíð.

Grunsemdirnar beinast að því að undir því yfirskyni að verið væri að vernda stjórnarskrá og lög íslensks réttarríkis sem vildi byggjast á mannréttindum og vestrænum gildum hafi verið brotið gegn grundvelli íslenska réttarríkisins. Á ábyrgð hverra og á kostnað hverra? Af hverju?

Kannski af ótta við að aðrir væru að vinna gegn þessu sama. Hvað það varðar liggur fyrir að 18 ára drengur vildi kaupa sér byssu árið 1924, Gúttóslagurinn var 1932 og jarðskjálftafræðingur kom fyrir tímasprengju einhvers konar við bragga í Hvalfirði um 1960. Og Kleifarvatnsmálið, auðvitað og inngangan í NATÓ. Sjá menn samræmi í því og þeirri löglausu paranoju sem allt þetta virðist farið að snúast um? Miðað við sumt af því sem ég les og heyri mætti ætla að eina vandamálið sé paranojan í hausnum á Jóni Baldvin.

Þessu máli þarf að veita í gagnsæjan farveg.

Eru þeir fleiri en fjórir?

Rannsókn mín bendir til þess að fjórir Íslendingar haldi með knattspyrnuliðinu West Ham United, sem ef til vill er að komast í eigu Eggerts Magnússonar og félaga hans.

Hinir íslensku stuðningsmenn West Ham eru þessir: bræðurnir Gunnar Smári og -sme, Gylfi Orrason, knattspyrnudómari og Hjálmar Jónsson blaðamaður.

Þessi rannsókn er enn sem komið er á frumstigi en næsta skref hennar hefst hér og nú. Opnað hefur verið fyrir komment með þessum pósti í því skyni að safna upplýsingum um alla þekkta stuðningsmenn West Ham United á Íslandi. Öll framlög eru vel þegin.

Húsið hans afa

Það verður spennandi að fylgjast með því hvaða tilboð koma í þetta hús. Var ekki einhvern tímann um það fjallað að Björgólfur og/eða BTB vildu eignast það og gera að safni í minningu Thors Jensen, tengdaafa Björgólfs og langafa BTB? Það er eins og mig minni það. Svo verður spennandi að sjá hverjir aðrir bjóða, gæti verið að Magnús Kristinsson vilji líka slást um þetta við BTB?

Saga húss

Lögreglustöðin við Hverfisgötu var að ég held tekin í notkun árið 1972, þegar hér sat vinstri stjórn Ólafs Jóhannessonar. Ákvörðun um að byggja hana var tekin á tímum viðreisnarstjórnarinnar, líklega í framhaldi af því að almenn lögregla fluttist frá sveitarfélagi til ríkis.

Einhverra hluta vegna var tekin sú ákvörðun á þessum tíma að í sama húsi og Reykjavíkurlögreglan skyldi utanríkisráðuneytið vera. Ennfremur var tekin sú ákvörðun að í lögreglustöðinni skyldi vera símstöð, með öllum tækjabúnaði til þess að hlera símtöl. Þessi símstöð var staðsett þannig í húsinu að hún var í sömu álmu og ráðherraskrifstofan og líklega beint undir henni. Tilvera símstöðvarinnar var verst varðveitta leyndarmálið á lögreglustöðinni í Reykjavík þegar ég vann þar fyrir rúmum 20 árum. Engum datt þó að ég held í hug að hún væri þarna til þess að hlera utanríkisráðherrann, menn héldu að hún væri til þess að auðvelda fíkniefnalögreglunni störfin, en vitað var að útlendingaeftirlitið notaði hana líka og litið var svo á að hún væri í umsjón þess.

Það að símstöðin er/var þarna var staðfest á forsíðu Fréttablaðsins í vor af aðstoðarlögreglustjóranum í Reykjavík. Hún er sjálfsagt ekki lengur í notkun og utanríkisráðuneytið er komið í annað hús en kannski liggja enn í húsinu ummerki eftir gömul rör og gamlar lagnir. Það ætti því að vera einfalt mál kanna hvort húsið var þannig hannað bókstaflega að hægt væri að fylgjast með símtölum utanríkisráðherra af neðri hæðunum. Það er ömurleg staðreynd að sú spurning á fyllsta rétt á sér í dag.

Orð dagsins

Steinunn Stefánsdóttir í leiðara Fréttablaðsins.
Nú er því ekki haldið fram hér að fylgst hafi verið með íslenskum borgurum á sama hátt og gert var í Noregi en það er yfirvalda dómsmála í landinu að sýna fram á að svo hafi ekki verið.

miðvikudagur, október 11, 2006

Skjallbandalagið klofið

Skjallbandalagið hefur klofnað í herðar niður. Ástæðan er ágreiningur um hvernig spinna eigi fréttir af áhuga Eggerts Magnússonar á því að kaupa West Ham United. Ég er á móti en þessi og hinn eru með, virðast alveg óðir og uppvægir yfir því að íslenska þjóðin sé í þann veginn að eignast sinn eigin Róman Abramovitsj.

Ljósi punkturinn við þetta West Ham mál er náttúrlega sá að gangi þetta upp þarf nýja forystu í KSÍ.

Í þessum rituðum orðum stend ég fyrir mótmælasetu í sófanum mínum til þess að mótmæla því að KSÍ er búið að stækka stúkuna í Laugardal á kostnað reykvískra skattgreiðenda en fækka um leið landsleikjamiðum á almennum markaði og breyta þeim í junket-varning fyrir viðskiptavini fjármálamarkaðarins. Fjölmiðlamönnum er svo boðið í hundraðatali til þess að tryggja þögn um þetta ótrúlega samsæri gegn íslenskum almenningi. Þetta er einmanaleg barátta og sonur minn er alls ekki sáttur við hana en ég ætla að halda mínu striki og horfa á alla landsleiki í sjónvarpinu þangað til skipt hefur verið um forystu í KSÍ. Helst vil ég að bindislausir menn komist þar til valda.

Ég er hins vegar viss um að þessir tveir eru í stúkunni núna, líklega með boðsmiða.

Vestur skinka

Eggert Magnússon að fara að kaupa West Ham? Fyrir hvaða peninga? Peningana sem hann á í Straumi? Á hann peninga í Straumi, hann er þar fulltrúi "smærri hluthafa" en situr hann ekki bara þarna sem leppur fyrir helsta styrktaraðila KSÍ? Bresku blöðin verða örugglega ekki lengi að kveikja á nánu samstarfi Eggerts við sjálfan BTB.

En auðvitað á hann fleiri vini, þannig að það er óvíst að þetta hafi nokkuð með BTB að gera. Í húsi FIFA eru margar vistarverur, sá Panorama-þátt frá BBC í sumar þar sem fjallað var um Sepp Blatter og vini hans í CONCAF, sem er UEFA þeirra í Suður-Ameríku. Kæri Páll, værirðu ekki til í að sýna okkur þann þátt á RÚV og má ég í leiðinni biðja þig um að taka síðustu seríuna af West Wing til sýninga sem allra fyrst.

þriðjudagur, október 10, 2006

Aukaatriði og aðalatriði

Hleranamálin verða ólíkindalegri með hverjum deginum sem líður, nú síðast með þessum yfirlýsingum Jóns Baldvins. Það er ekkert einkamál sagnfræðinga að komast til botns í þessu, þetta er rammpólitískt viðfangsefni í samtímanum, ekki síst þegar menn standa frammi fyrir umræðu um að setja svona starfsemi lagaramma í fyrsta skipti. Hvernig á það að vera hægt án þess að vita hvernig staðið hefur verið að verki til þessa?

Það hefur ekkert að segja að takmarka slíka rannsókn við einhverja sex dómsúrskurði. Ég vil virða Jóni Baldvin það til vonkunnar að hafa ekki tekið málið upp á sínum tíma, ætlað Bandaríkjamönnum verknaðinn og látið kyrrt liggja fyrr en nú þegar öll þessi umræða kemur fram og það eru teknar að renna á menn tvær grímur um þennan þátt í sögunni.

Lengi lifi Paul

Frá því ég var átta ára hef ég átt erfitt með Yoko Ono. Að svo mæltu gef ég snillingunum Davíð Þór og Sigmari orðið.

Tveir vinir og annar ekki í fríi

Það er athyglisvert að bera saman viðbrögð þeirra Gylfa Arnbjörnssonar, framkvæmdastjóra ASÍ, og Grétars Þorsteinssonar, forseta ASÍ, við matarverðslækkuninni. Grétar tjáir sig á forsíðu Moggans í dag, fagnar aðgerðunum en lýsir hóflegum fyrirvörum. Mjög forsetalegt hjá honum. Gylfi tjáði sig í kvöldfréttum RÚV í gær, byrjaði á því að nefna lækkun vsk af sælgæti og fann lækkununum allt til foráttu. Mjög prófkjörsframbjóðandalegt hjá honum.

Nú höfum við dæmi um tvo prófkjörsframbjóðendur sem veita þekktum stofnunum forstöðu og hyggjast skora forystumenn hvor í sínum stjórnmálaflokki á hólm í prófkjörum. Guðfinna Bjarnadóttir vill í fremstu röð sjálfstæðismanna og skorar Björn, Gulla, Pétur Blöndal og Ástu Möller á hólm. Hún tilkynnti samstarfsfólki sínu þetta með saklausum tölvupósti og var samstundis send í frí.

Gylfi Arnbjörnsson vill í forystusveit Samfylkingarinnar og skorar Ingibjörgu Sólrúnu, Össur, Jóhönnu, Helga Hjörvar og Steinunni Valdísi á hólm. Nokkrar vikur eru síðan hann gaf kost á sér en hann heldur áfram að vinna eins og ekkert sé og fær að reka prófkjörsbaráttu sína með því að koma fram sem talsmaður ASÍ og umboðsmaður launafólks í landinu í fjölmiðlum.

mánudagur, október 09, 2006

Hvernig eru tekjumöguleikarnir?

Davíð Logi segir í Mogganum að það blási byrlega fyrir framboði Íslands í öryggisráðinu. Ég hef verið svag fyrir þessu framboði, af því að ég hef trúað því að hvort sem kosningin vinnst eða ekki muni gefast tækifæri til þess að ljúka við að umbreyta utanríkisþjónustunni þannig að hún verði hæfari um að móta og framfylgja hér sjálfstæðri utanríkisstefnu, byggða á mati á íslenskum hefðum og hagsmunum í breytilegum heimi.

En eftir að þessi varnarsamningur liggur fyrir, um ósýnilegt tvíhliða varnarsamstarf og sýnilegt samstarf við mennina sem gáfu okkur Abu Ghraib og Guantanamo, þá eru runnar á mig tvær grímur. Ef við erum tilbúin í slíkar æfingar til þess að spara aðildargjöldin að NATO, hvað munu menn láta hafa sig út í þegar í Öryggisráðið er komið?

Össur dagsins

Össur fer á kostum þessa dagana. Nú er hann með námskeið í beitingu smjörklípuaðferðarinnar.

sunnudagur, október 08, 2006

Skjallbandalagið og andhverfa þess

Sammála. Merkilegast finnst mér samt í þessu að ef ég skil yfirlýsinguna sem Helgi sendi fréttastofu sjónvarpsins rétt mun hann sjálfur ekki eiga krónu í félaginu og tekur þátt í þessu sem stjórnarmaður í eignarhaldsfélagi sem heitir því voðalega nafni Samvinnutryggingar. Það er spurning hvort prófessorinn, sem rætt var við í fréttinni, hafi vitað það þegar hann svaraði spurningunni. Mér sýnist þetta sambærilegt við að formaður bankastjórnar Seðlabankans væri í stjórn einhvers lífeyrissjóðs, sem væri að kaupa hlut í einhverju félagi á markaði.

Merkilegt hvernig allt fer á hvolf ef eitthverjir sem tengast framsókn hreyfa sig í viðskiptalífinu. Egill Helgason, sem er allra manna skapbestur, umhverfist ef hann heyrir á Finn Ingólfsson minnst. Ég er klár á því að Finnur fór alveg yfir strikið í ummælum um Egil í Kastljósinu í fyrra en come on, þetta er ekkert minna en hallærislegt.

Vatnaskil

Í fyrsta skipti frá 2001 treysta Bandaríkjamenn nú demókrötum betur en repúblíkönum til þess að standa vörð um siðferðisgildi og leiða baráttu gegn hryðjuverkamönnum. Fann þetta í gegnum TPM.

Follow the money

Michael Corgan staðfestir í viðtali við Egil Helgason að þetta er svona. Nýi samningurinn við Bandaríkin færir okkur í rauninni ekkert það sem ekki er tryggt með NATO-aðildinni sjálfri.

Það getur bara þýtt eitt, menn eru að semja við Kanann aftur til þess að spara sér að taka þátt í þeim kostnaði sem annars mundi fylgja fullgildri aðild að NATO.

Aronskan hefur sigrað. Hvað hefði ríkið þurft að borga mikið til NATO ef ekki lægi fyrir tvíhliða samningur við Bandaríkin? 10 milljarða? 25? Hver sem upphæðin er þá eru menn að spara sér hana með því að hengja sig áfram í tvíhliða samning við Kanann í staðinn fyrir að borga sjálfir kostnaðinn sem fylgir því að vera fullgildur, óháður aðili á alþjóðavettvangi. Í leiðinni er samstarfið útvíkkað á brautir löggæslu- og öryggisgæslu í anda Abu Ghraib og Guantanamo Bay.

laugardagur, október 07, 2006

Html er ekki mitt tungumál

Bloggerinn er búinn að vera með uppsteit, drap stílsniðið mitt, þannig að ég þarf að byrja á hægri stikunni upp á nýtt. Það er svolítil handavinna, gef mér einhverja daga í að koma því í gott horf, á meðan eru engir tenglar.

Blaðið er í Hádegismóum

Athyglisverðar pælingar hjá Guðrúnu Helgu. Ég held að þetta sé rétt hjá henni, ólgan braust einhvern veginn fram á síðurnar meðan á þessu stóð. Svo fékk náttúrlega fólk þarna þær fréttir á mánudag að búið væri að segja Andrési Magnússyni upp störfum. Ég þekki -sme það vel að ég sé hann alveg fyrir mér þessa daga.

Ruglingurinn með Brussel og Strassborg er náttúrlega hámarkið/lágpunktur Blaðsins síðustu viku en mér er sagt að það hafi gerst þannig að -sme sjálfur hafi verið að vaka yfir forsíðuumbrotinu. Fyrirsögnin passaði ekki og kallinn sjálfur fór að vinna í málinu. Það var hann sjálfur sem gaf fyrirskipun um að fyrirsögnin ætti að vera Póstarnir í Brussel. Það fylgir sögunni að hann hafi engin önnur afskipti haft af innihaldi umfjöllunarinnar um tölvupóstana, taldi sig of nátengdan efninu. Kannski eins gott að hann kom ekki meira nálægt, miðað við þetta.

Auðvitað er hann of nátengdur efninu, líklega um of til að sjá að þetta voru ekki slík tímamót sem ætla mátti af lestri Blaðsins. Þannig að þótt hann hafi ekki tekið ákvörðunina um að keyra svona á málið hefði hann mátt hafa vit fyrir fólkinu sínu um að gera það ekki.

Begga er líka að velta fyrir sér DV og Blaðinu en úr annarri átt. Guðmundur Magnússon er að vísa í póstana og Blaðið en fer á of mikið dýpi fyrir mig.

Orð dagsins

Jón Ólafsson í Lesbók Moggans:
Það sem afhjúpanir Þórs Whithead nú gera ljóst er ekki að íslensk yfirvöld hafi metið hættu af róttækum hreyfingum hér á kreppu- og kaldastríðsárunum rétt, heldur einmitt að íslensk yfirvöld féllu í þá gryfju að ofmeta þessa hættu stórlega og leiddust því út í vafasamar og hugsanlega glæpsamlegar aðgerðir gegn saklausu fólki. Íslensk stjórnvöld ættu að láta sér það að kenningu verða og reyna eftir megni að forðast að gera sömu mistök aftur.

föstudagur, október 06, 2006

Sme ætlaði á DV en hætti við

Á dögunum fékk Sigurjón M. Egilsson, -sme, tilboð sem hann gat ekki hafnað. 365 hafði samband við hann og bauð honum að verða ritstjóri DV. Þetta hefur -sme lengi langað að gera, hann taldi illa fram hjá sér gengið þegar Páll Baldvin og Björgvin voru gerðir að ritstjórum þegar Jónas og Mikael duttu fyrir borði í upphafi árs. Sme sótti það þá hart að fá að stjórna DV en Gunnar Smári bróðir hans gaf engan kost á því. Samskipti bræðranna hafa ekki verið söm síðan. Vonbrigðin með að fá ekki DV gerðu að verkum að -sme var tilkippilegur til að yfirgefa Fréttablaðið og gerast ritstjóri Blaðsins þegar Sigurður G. Guðjónsson bauð honum starfið í vor. Síðan hefur Blaðið verið á uppleið eins og við þekkjum.

En á dögunum sá -sme fram á að gamli draumurinn gæti ræst og hann fengið mikla launahækkun í leiðinni. Hann gekk þess vegna að tilboði frá 365 um að verða ritstjóri DV og ætlaði að taka með sér þangað Janus, umbrotssnilling, Brynjólf Þór og Gunnhildi Örnu, fréttastjóra. En þá kom babb í bátinn. Sigurður G. Guðjónsson, stjórnarformaður Blaðsins, neitaði að sleppa takinu á kalli, taldi sig hafa samið við hann um átta mánaða uppsagnafrest. Niðurstaðan varð sú að -sme fór hvergi. Nú hefur verið frá því gengið að ritstjórnar DV verða Óskar Hrafn Þorvaldsson og Freyr Einarsson. Páll Baldvin Baldvinsson er hins vegar farinn yfir á Fréttablaðið og mun þar sjá um menningarumfjöllun. Sme heldur áfram á Blaðinu og ekki er líklegt að launin hans hafi lækkað í reiptoginu undanfarna daga.

Í Skaftahlíðinni telja menn sig illa svikna.

Legið á hleri

Leiðari Moggans í dag fjallar um hleranirnar. Minnir á að þetta sé ekki bara saga af því "að stjórnvöld hafi fengið dómsúrskurð til að fá að hlera síma hjá þessum eða hinum", og ekki bara saga af því hvaða menn stunduðu slíka starfsemi til að gæta öryggis ríkisins eða hvaða aðferðum þeir beittu. Hún verði líka saga af því hvernig óvinveitt, erlend ríki stunduðu njósnir hér á landi og leituðust við að ná hér ítökum og áhrifum og hvernig innlendir menn, stjórnmálaflokkar og samtök tengdust þessum ríkjum. Já, já.

Maður má nú gefa sér að fyrst þessi starfsemi var öll svona lögleg og í þágu öryggis ríkisins hefðu kommarnir verið ákærðir og dregnir fyrir dóm ef eitthvað annað og meira hefði komið upp um þeirra ólöglegu njósnir í þágu Sovétsins. Eða var það ekki lögmæta markmiðið með þessu löglega eftirliti á kostnað ríkisins að afla gagna til þess að vera grundvöllur refsimáls gegn landráðamönnum og koma í veg fyrir að áform þeirra næðu fram að ganga?

Það sem er forvitnilegast að vita núna er auðvitað hvert umfang þessarar starfsemi var og þá ekki síst hvers eðlis var samstarf þeirra opinberu starfsmanna og annarra sem njósnum ríkisins tengdust við stjórnvöld Bandaríkjanna og annarra vestrænna ríkja. Það er óumdeilt að þeir aðilar miðluðu persónuupplýsingum um Íslendinga til erlendra ríkja, t.d. fékk stór hluti Íslendinga ekki að ferðast til Bandaríkjanna áratugum saman vegna upplýsinga sem íslenskir menn miðluðu til bandarískra stjórnvalda. Það hefur lengi verið látið að því liggja að sá tími muni koma að fjallað verði um þennan þátt málsins á síðum Moggans. Er ekki að því komið?

Gunnar Smári á dönsku

Hér getur maður víst lesið rafræna útgáfu af danska Fréttablaðinu. Síðan hefur reyndar ekki opnast enn eftir 10 mínútna bið en þá tékkar maður bara á þessu seinna.

Bókmenntagagnrýnandi ríkisins

Mér finnst það til fyrirmyndar hjá Jóni Sigurðssyni iðnaðarráðherra að fara út í samræður um Draumalandið, eins og hann gerði á fundi Samtaka iðnaðarins og Mogginn segir frá. Reyndar áttar maður sig ekki alveg á sjónarmiðum hans nema hafa bókina fyrir framan sig en maður áttar sig á því að hann leggur sig fram um að vera málefnalegur og ber fulla virðingu fyrir efninu. Ætli það hafi áður gerst að ráðherra hafi lagst í bókmenntagagrýni með þessum hætti?

fimmtudagur, október 05, 2006

Gæðunum er misskipt

Björn Ingi segir það ekki hreint út en hann er að vísa í það að hann sat í 2. sæti á lista framsóknar í Reykjavík suður í kosningunum 2003. Hann er varaþingmaður Jónínu Bjartmarz en hefur aldrei tekið sæti á þingi því Jónína er svo dugleg við að mæta. Ég held að Björn sé örugglega eini 1. varaþingmaðurinn sem aldrei hefur verið kallaður inn, þannig að dugnaður Jónínu við mætingar á sér bókstaflega engan sinn líka í þingmannahópnum.

Hjá þeim sem voru í framboði fyrir framsókn norðan við Miklubrautina er staðan önnur, tveir efstu menn á þeim lista eru hættir í pólitík og nú standa yfir æfingar til þess að komast undan því að kalla inn á þing manninn sem var í 6. sæti framboðslistans af því að hann er búinn að segja sig úr flokknum.

Björn Ingi vinur minn væri orðinn alþingismaður ef hann hefði skipað 3. sætið í Reykjavík norður eins upphaflega stóð til og verið næsti maður á lista á eftir Halldóri og Árna Magnússyni. Þá átti Guðjón Ólafur að vera í 2. sæti í Reykjavík suður. En það var andstaða í suðrinu við Guðjón Ólaf og því varð lendingin sú að þeir félagar höfðu stólaskipti.

Endurnýjun á kostnað hinna ungu

Það er ekki óvænt að Jón Sigurðsson ákveði að hasla sér völl í Reykjavík. Við því var búist að hann mundi velja þá leið að gera tilkall til þingsætis Halldórs Ásgrímssonar. Hins vegar þótti mörgum framsóknarmönnum víða um land tvennt mæla gegn því að hann veldi þann kostinn.

Það er hæpið að gera ráð fyrir að Jón nái kjördæmakosningu í borginni, en vissulega á hann mikla möguleika á uppbótarsæti. Það þýðir að alla kosningabaráttuna verður formaður Framsóknarflokksins í mikilli varnarstöðu í allri umræðu.

Hins vegar mun framboð Jóns í Reykjavík þrengja möguleika nýjustu þingmanna flokksins, Guðjóns Ólafs Jónssonar og Sæunnar Stefánsdóttur, á að komast á þing. Þau eru þingmenn Reykjavíkurkjördæmis norður en hljóta nú bæði að horfa annað í leit að pólitísku framhaldslífi. Þess vegna höfðu margir vænst þess að formaðurinn veldi ekki þennan kost.

Í Norðvesturkjördæmi hefur Framsóknarflokkurinn átt í forystukreppu, sem hægt hefði verið að binda enda á ef nýr formaður hefði þar lagt sig að veði í prófkjöri sem framundan er. Það var meðal annars í þeirri von sem meirihluti kjördæmisþingsfulltrúa í Norðvesturkjördæmi ákvað að velja leið póstkosningar við uppstillingu. Formanninum höfðu borist áskoranir um að fara þessa leið frá því á flokksþinginu í ágúst.

En af því varð ekki og nú bendir allt til þess að öfugt við aðra flokka verði endurnýjunin í þingliði framsóknarmanna fólgin í því að ungir þingmenn missa sæti sitt en hinir eldri sitja sem fastast.

miðvikudagur, október 04, 2006

Róbert fer fram í Suðurkjördæmi

Skúbb hjá Denna. En ekki óvænt. Róbert býður sig fram í 1.-2. sæti hjá Samfylkingunni í Suðurkjördæmi.

Þar með munu fjórir berjast um forystuna, Björgvin G. Sigurðsson, Lúðvík Bergvinsson, og Jón Gunnarsson, auk Róberts. Sigríður Jóhannesdóttir, margreynd þingkona af Suðurnesjum, sem gefur kost á sér á ný, treystir sér hins vegar ekki ofar en í 2. sætið.

Líklega mun framboð Róberts koma sér verst fyrir Lúðvík Bergvinsson. Báðir sækja mestan styrk á heimaslóðirnar í Eyjum. Eyjamenn eru þekktir fyrir að bakka sína menn upp í pólitísku bjargsigi hvaða flokki sem þeir tilheyra. En það má bara kjósa einn mann í 1. sæti í hverju prófkjöri. Eyjamenn sem kjósa í prófkjöri Samfylkingarinnar þurfa nú að dreifa atkvæðum sínum á Eyjapeyjana tvo.

Það er því aldrei að vita nema sá sem fagnar framboði Róberts mest verði Björgvin G. Sigurðsson, sem hefur verið einn af öflugustu ungu þingmönnunnum á þessu kjörtímabili og á traust bakland í Árnessýslu.

Bjarni þreifar á framsóknarmönnum

Bjarni Harðarson, blaðamaður, ritstjóri Sunnlenska Fréttablaðsins, er að íhuga að bjóða sig fram í 2. sæti á framboðslista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi.

Bjarni hefur undanfarna daga talað við fjölmarga framsóknarmenn og kannað undirtektir við framboð sitt. Ákvörðun um aðferð við uppstillingu liggur ekki fyrir en verður tekin í nóvemberbyrjun.

Þingmenn Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi eru Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, sem skipaði 1. sæti listans síðast og Hjálmar Árnason, formaður þingflokksins, sem skipaði 2. sætið. Í 3. sæti var síðast Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri á Flúðum. Talið er að allir hyggist þeir leita eftir endurkjöri.

Ekki missa af þessu

Bókmenntaverðlaun dagsins hlýtur Össur Skarphéðinsson. Lesið hér frá upphafi til enda.

Orð dagsins

Árni Páll Árnason í Mbl.:
Ákvörðun um að hefja samvinnu við bandarísk stjórnvöld um ýmsa þætti löggæslu og landamæravörslu er stefnubreyting af Íslands hálfu og stórpólitísk í eðli sínu. Stjórnvöld skulda þjoðinni skýringar á því hvað það er sem íslensk lögregla á að læra í vinnubrögðum við hryðjuverkavarnir, landamæragæslu og almennu löggæslusamstarfi af bandarískum heryfirvöldum sem henni býðst ekki að læra hjá lögregluyfirvöldum í nágrannalöndum okkar innan Schengen.

þriðjudagur, október 03, 2006

Hvað segir Björn?

Það er spurning hvernig Birni Bjarnasyni fellur í geð ráðning nýs framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins. Andri Óttarsson hefur skrifað mikið á Deigluna og iðulega gagnrýnt embættisfærslur Björns í embætti dómsmálaráðherra. Skoðum nokkur dæmi:

Þessi grein heitir Versta frumvarp sögunnar, þar er meginefnið gagnrýni á Sturlu Böðvarsson en með beittu skoti á dómsmálaráðherrann:
Eins og með sum frumvörp sem koma úr dómsmálaráðuneytinu þá virðist frumvarp samgöngumálaráðherra vera skrifað af lögreglunni, fyrir hana sjálfa en gegn almenningi í landinu. Innan lögreglunnar virðist það viðhorf nefnilega ríkja að ef tæknin býður upp á möguleika til að fylgast með einkalífi borgaranna þá eigi að nýta hana. Ekkert er henni heilagt í þeim efnum.
Þessi hét Mannréttindaprútt:
En dómsmálaráðherra var ekki af baki dottinn. Í fyrra lagði hann einnig fram frumvarp til breytinga á lögum um meðferð opinberra mála. Þar var lagt til lögreglu væri heimilt að hefja hleranir án dómsúrskurðar.
Í miðjum umræðum um skipan Björns Bjarnasonar á hæstaréttardómara lagði Andri til málanna þessa grein, sem hann kallaði: Ráðherraleg óhlýðni:
Í vestrænum ríkjum hefur skapast sú hefð að þegar borgarar eru ósáttir við lög eða önnur fyrirmæli stjórnvalda þá mótmæla þeir lagasetningunni með því að virða ekki lögin á táknrænan hátt. Þetta hefur verið kallað borgaraleg óhlýðni. Á sama hátt mætti kalla viðbrögð ráðherrans einhvers konar ráðherralega óhlýðni. Í hnotskurn þá hefur málsvörn hans grundvallast á því að lögin séu vitlaus og því hafi hann ekki farið eftir þeim.

Maðurinn bak við tjöldin hættir

Kjartan Gunnarsson hættur. Þetta eru sannarlega tímamót. Það er sagt að Kjartan hafi aldrei þegið laun fyrir störf sín hjá Sjálfstæðisflokknum, ólíklegt að Andri Óttarsson sé að fara að vinna þarna í sjálfboðavinnu.

Þetta er staðfesting á róttækri breytingu á valdahlutföllum í Sjálfstæðisflokknum. Andri er úr Deigluarminum, hluti af hirðinni í kringum Borgar Þór, stjúpson Geirs H. Haarde. Hanna Birna er nýhætt störfum á skrifstofunni og nú Kjartan. Frjálshyggjudeildin er búin að missa þau tök á flokksmaskínunni sem hún hefur haft í áratugi. Það hljóta að vera framundan umbrotatímar í flokksstarfinu.

Kjartan hefur verið einhver valdamesti maðurinn í íslenskum stjórnmálum í 26 ár. Nánasti samstarfsmaður Davíðs Oddssonar, áður Þorsteins Pálssonar og Geirs Hallgrímssonar. Kjartan var hvatamaður að kjöri Davíðs í formannsstólinn árið 1991. Þótt hann væri á þeim tíma undirmaður Þorsteins Pálssonar vann hann að framboði og kjöri Davíðs gegn Þorsteini. Sá stuðningur var þungur á metunum. Enginn framkvæmdastjóri stjórnmálaflokks hefur haft viðlíka áhrif.

Atvinnumál

Mér telst svo til að 33 af 63 alþingismönnum séu á leið í prófkjör á næstu vikum. Ætli atvinnumál verði ekki meginmál haustþingsins að þessu sinni?

Hagnýt ættfræði

Valgerður Bjarnadóttir ætlar að sækjast eftir öruggu þingsæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík. Hún hefur verið áberandi í greinaskrifum og sem álitsgjafi í sjónvarpi undanfarin ár. Valgerður er dóttir Bjarna Benediktssonar, fyrrverandi forsætisráðherra, og þess vegna systir Björns Bjarnasonar, dóms- og kirkjumálaráðherra.

Fái Valgerður framgang í prófkjörinu munu þau systkinin hittast á þingi og sitja þar hvort fyrir sinn flokkinn. Ætli það auki líkur á stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar að gera Valgerði að þingmanni?

Í stjórnarmeirihlutanum sem nú situr hafa eins og kunnugt er verið bræður, hvor í sínum flokki. Kristinn H. Gunnarsson, framsóknarmaður, og Gunnar I. Birgisson, sjálfstæðismaður, eru hálfbræður. Gunnar hefur nú sagt af sér þingmennsku til þess að einbeita sér að starfi bæjarstjóra í Kópavogi.

mánudagur, október 02, 2006

Hvar er fjarstýringin?

Umræður um stefnuræðu forsætisráðherra annað kvöld í beinni útsendingu á RÚV. Þetta er algjör tímaskekkja, það ætti að láta dagskrá RÚV óhreyfða og vísa okkur þessum 2% sem horfum á þetta á beinar útsendingar frá sjónvarpsstöð Alþingis á Digital Ísland eða Skjánum. Það er ekki lengur hægt að treysta á að nokkur sé að horfa á þetta, fjarstýringin flytur fólk á ljóshraða yfir á Stöð 2, Sýn, Skjá einn eða Sirkus. Þar er örugglega betra sjónvarpsefni í boði. Það er oft ágætt sjónvarpsefni að hafa á Alþingi, en sjaldnast í þessum umræðum. Það eru líka oft ágætar pólitískar umræður á Alþingi en sjaldnast í umræðum um stefnuræðu.

Utandagskrárumræður, umræður um störf þingsins, athugasemdir um fundastjórn forseta og óundirbúnar fyrirspurnir eru beinlínis eru á dagskrá þingsins til þess að sjá sjónvarpsfréttunum fyrir líflegu myndefni úr þingsalnum. Sumir þingmenn hafa náð mikilli leikni í því að spila á það form, til dæmis Össur, Steingrímur J og Helgi Hjörvar sem tala blaðlaust og af innlifun á þeim tveimur mínútum sem þeim er þá úthlutað og passa að "punchline-ið" komi akkúrat þegar forseti rís virðulega á fætur og lætur glymja í bjöllunni.

(Bloggerinn er að stríða mér og er búinn að setja kvóta á lengd færslna, því verður framhald hér að neðan í næstu færslu.)

Jómfrúrræða Jóns á kvöldinu hans Steingríms

Meira um stefnuræðuna. Ég sagði hér að ofan að oft sæist gott sjónvarpsefni í þingsalnum. Það gerist hins vegar sjaldnast í umræðum um stefnuræðuna. Fólk sem í utandagskrárumræðum, athugasemdum og andsvörum sýnir mikil tilþrif, tilfinningahita og á köflum leiftrandi mælsku minnir þetta kvöld iðulega á sýslumann a ð lesa upp aðfarargerð. Það er bara Steingrímur J sem blómstrar alltaf á þessu kvöldi, mætir blaðlaus í pontuna eins og endranær og lætur vaða á súðum í viðtengingarhætti. Sjaldnast verða þarna raunverulegar umræður, flestir halda sig við nestið sitt og eyða ekki orði á það sem aðrir hafa sagt.

Það er þó eitt sem gerir þessar umræður athyglisverðar í ár, í þeim mun nýr formaður Framsóknarflokksins í fyrsta skipti stíga í ræðustól Alþingis og flytja boðskap sinn. Í Gallup í kvöld kom fram að flokkurinn situr fastur í 9% fylgi og vinsældir nýja formannsins í ráðherrastóli mælast mitt á milli Björns Bjarnasonar og Sturlu Böðvarssonar. Það er kannski ekki óvænt, því Jón er lítið þekktur, en bendir til þess að hann eigi mikið verk óunnið fyrir kosningar. Það er því mikið í húfi fyrir Jón að honum takist vel upp í kvöld. Ætli hann mæti blaðlaus í pontuna?

Tvö dagblöð


Ég var að lesa bloggið hans Skapta og reyna að klóra mig fram úr fyrirsögnum spænskra blaða um Eið Smára þegar blaðið La Vanguardia varð á vegi mínum. Það mætti halda að sama góða fólkið hefði hannað hausinn á því blaði og hannaði haus Fréttablaðsins á sínum tíma.

Fjórir Eyjamenn í prófkjörum á Suðurlandi?

Spurningin er víst ekki hvort Róbert Marshall fer í prófkjör á vegum Samfylkingarinnar heldur hvar. Ég sagði frá því um daginn að rætt væri um að hann ætlaði sér í prófkjörið í Reykjavík. Samfylkingarfólk á Suðurlandi býst líka við því að Róbert fari fram þar enda borinn og barnfæddur Eyjapeyi eins og kunnugt er og leysti Árna Johnsen af í Brekkusöngnum meðan Árni var á Kvíabryggju.

Ef Róbert lætur slag standa verða amk fjórir Eyjamenn að sækjast eftir þingsæti í prófkjörum næstu vikna, því báðir þingmenn Eyjamanna, Lúðvík Bergvinsson, Samfylkingu, og Guðjón Hjörleifsson, Sjálfstæðisflokki, sækjast eftir endurkjöri. Svo er auðvitað Árni Johnsen.

Orð dagsins

Mogginn í dag, bls. 10:
"Jón Baldvin sagði herðaðarkenningu Bandaríkjamanna frá 2002 jafngilda því að þeir segðu sig úr lögum við alþjóðasamfélagið. "Svo getur hver og einn svarað því fyrir sig, hvort öryggi vopnlausrar smáþjóðar er best borgið í bandalagi við slíkt herveldi.""

sunnudagur, október 01, 2006

Þá vitum við það

Mér finnst merkilegt að það skuli nú liggja fyrir að það var í utanríkisráðherratíð Jóns Baldvins árið 1989 sem ríkið gerði samninginn þar sem íslenska ríkið samþykkti að afsala sér öllum rétti til þess að krefja Bandaríkjaher um bætur fyrir vatnsmengun vegna starfsemi á Miðnesheiði. Steingrímur J. sat líka í ríkisstjórn á þessum tíma.

Hann var drekinn

Colin Powell claims he was fired by the Bush Administration, according to his official biography .

Hingað til hefur Powell sagt að það hafi verið sameiginleg ákvörðun sín og forsetans að hann léti af embætti í upphafi seinna kjörtímabilsins.