föstudagur, september 29, 2006

Þetta snerist um Kárahnjúka

Það voru Vinstri grænir sem tryggðu sjálfstæðismenninum Halldóri Halldórssyni, bæjarstjóra á Ísafirði, formennskuna í Sambandi íslenskra sveitarfélaga í dag. Kosningin var mjög spennandi og aðeins munaði fjórum atkvæðum.

Niðurstaðan hlýtur að vera fagnaðarefni fyrir áhugamenn um ríkisstjórnarsamstarf VG og Sjálfstæðisflokksins. VG var sigurvegari sveitarstjórnarkosninganna í vor. Flokkurinn er nú fyrst orðið raunverulegt afl á sveitarstjórnarstiginu og lét finna fyrir því afli við fyrsta tækifæri sem gafst og það var á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga á Akureyri.

Framganga Smára Geirssonar, sem oddvita þeirra Austfirðinga sem börðust harðast fyrir álveri í Reyðarfirði og Kárahnjúkavirkjun, gerði að verkum að sveitarstjórnarmenn VG litu á hann sem höfuðandstæðing og máttu ekki til þess hugsa að honum yrði falið að leiða samtök sveitarstjórnarmanna. VG reyndi fyrst að skapa samstöðu um Árna Þór Sigurðsson sem valkost við Smára en þegar það gekk ekki eftir fylktu þeir liði um sjálfstæðismanninn Halldór Halldórsson.

Samfylkingarmönnum féll niðurstaðan þungt. Kom til hvassra orðaskipta Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur og Svandísar Svavarsdóttur strax og niðurstaða úr kosningunni lá fyrir. Sveitarstjórnarmenn Samfylkingarinnar stóðu langflestir með Smára, sem og framsóknarmenn. Flokkslínur héldu þó líklega hvergi alveg, nema innan raða VG.
Einnig naut Halldór víðtæks stuðnings vestfirskra sveitarstjórnarmanna.

Eru ekki allir í stuði?

Síðan ég horfði á Hemma Gunn í gærkvöldi er ég búinn að reyna að sjá fyrir mér að Davíð Oddsson hefði klætt sig í jogginggalla með hinum formönnum flokkanna og tekið þátt í Morfís-keppni til þess að hita upp fyrir Magna. Ég sé það bara ekki fyrir mér. Annað mál með Örn Árnason.

Af hverju ekki Halldór?

Ungir Framsóknarmenn eru farnir að kenna sig við fallinn foringja. Hér segir að á fundinum hafi fráfarandi formaður beint spjótum að þingmanni flokksins í kjördæminu.

Bitlingur í boði

Ég veðja á að Þórólfur Halldórsson hreppi hnossið. Hann er forystumaður í Sjálfstæðisflokknum í Vesturbyggð.

fimmtudagur, september 28, 2006

Kvöldsaga

Það var einhvern tímann á Mogganum þegar mikið gekk á, ég man ekki hvert málið var en það var sótt að blaðinu.

Matthías Johannessen var kominn niður á gólf og menn litu til hans. Hvernig ætlaði hann að taka á málinu?

Matthías lét sér ekki bregða og sagði: Ég ansa ekki flugnasuði.

Uppsagnarbréf með einkaflugvél

Í dag er Ólafur Örn Haraldsson aðstoðarforstjóri Ratsjárstofnunar á ferð og flugi á einkaflugvél um landið.

Hann flýgur á milli ratsjárstöðvanna í grennd við Bolungarvík, Þórshöfn og Höfn. Erindið er að segja upp öllum starfsmönnum ratsjárstöðvanna. Uppsagnirnar koma fólkinu á óvart. Það vissi að störfin yrðu lögð niður en átti ekki von á uppsögnum fyrr en næsta sumar. Fyrir því taldi það að ráðherrar í ríkisstjórninni hefðu gefið vilyrði.

Uppsagnirnar eru þungt högg fyrir byggðarlögin, einkum Bolungarvík og Þórshöfn. Störfin eru afar sérhæfð og vel launuð og langt í frá að fólkið geti gengið að sambærilegum störfum í heimabyggð. Verst þykir fólki að sá aðlögunartíminn sem það hafði vonast eftir verður mun skemmri en lofað hafði verið.

Orð dagsins

Fínn leiðari Jóns Kaldal í dag. Þar stendur m.a. þetta:
Enginn vafi leikur á því að arfleifð Kárahnjúkavirkjunar er að aldrei framar munu jafn umfangsmiklar framkvæmdir og umhverfisspjöll renna eins mótstöðulítið í gegnum kerfið, sama hversu aukin veraldleg hagsæld getur mögulega fylgt þeim fyrir þjóðina.

Inn í skápinn

Staksteinar taka í dag í hnakkadrambið á frjálshyggjudeild Sjálfstæðisflokksins og vilja að þeir hafi hægt um sig á kosningavetri og séu svolítið miðjumannslegir. Ég bíð enn eftir að heyra Sigurð Kára og Pétur Blöndal tjá sig um Íbúðalánasjóðsstýrihópslokaniðurstöðuna. Það verður gaman að sjá hvort þeir taka mark á Staksteinum í því efni.

Maður er nefndur

Mér finnst sennileg kenningin um að þetta sé Svanborg Sigmarsdóttir í dulargervi.

miðvikudagur, september 27, 2006

Róbert á þing?

Innan Samfylkingarinnar er hávær orðrómur um að Róbert Marshall muni gefa kost á sér í prófkjörinu í Reykjavík, sem haldið verður 11. nóvember, og stefni á öruggt þingsæti. Framboðsfrestur rennur ekki út fyrr en 21. október.

Obb bobb bobb !

Nákvæmlega hvað felst í þessum varnarsamningi hvað varðar hefðbundnar varnir sem ekki leiðir af stofnsáttmála Atlantshafsbandalagsins? Það að hingað komi einhverjir hermenn til æfinga eina viku á ári hverju? Er þetta þá 1/52 úr varnarsamningi, eða hvað?

Athyglisverðar þessar athugasemdir Baldurs Þórhallssonar. Víkingasveitin og ríkislögreglustjóri í samstarf við bandarísk lögreglu og hermálayfirvöld, og þá væntanlega mennina sem gáfu heiminum Abu Ghraib og Guantanamo og víðtækustu símhleranir án dómsúrskurða í mannkynssögunni, svo fátt eitt af afrekalista undanfarinna ára sé rakið. Er það málið? Á víkingasveitin að vera í lögreglubúningi hér á götunni milli þess sem hún er í æfingabúðum hjá Bandaríkjaher? Stundum í hernum, stundum ekki, en alltaf með byssurnar í beltinu.

Af hverju í ósköpunum er ekki leitað samstarfs við nágrannaþjóðirnar um löggæslu og öryggiseftirlitsþáttinn? Hvað hafa Bandaríkjamenn að bjóða okkur í því efni annað en að vísa veginn inn í Gulag 21. aldarinnar? Hvaða mat á íslenskum öryggishagsmunum býr hér að baki, hverjir hafa lagt það mat á þá hagsmuni að þeim sé borgið með þessu?

Einu deilumálinu færra?

Það verður athyglisvert að heyra Sigurð Kára og Pétur Blöndal tjá sig um Íbúðalánasjóðsstýrihópslokaniðurstöðuna. Hún féll alveg í skuggann af varnarsamningalokaniðurstöðunni í gær. En mér sýnist ríkisstjórnin búin að ýta einu eldfimu deilumáli út af borðinu fyrir kosningaveturinn.

Samráð banka og verðbréfafyrirtækja er óánægt með niðurstöðuna... Það hafa orðið miklar breytingar á pólitísku andrúmslofti í húsnæðismálum undanfarna mánuði. Fyrir ári eða svo var hægt að sjá fyrir sér að erfitt yrði að tryggja framtíð Íbúðalánasjóðs. En með framgöngu bankanna á markaðnum undanfarna mánuði er almenningur einfaldlega hættur að treysta þeim fyrir þessu. Sjálfstæðisflokkurinn skynjar það eins og aðrir. Ég gluggaði í lokaálitið og sé ekki betur en þetta sé það sem Árni Magnússon vildi ná fram og stóð í stappi út af áður en hann fór að vinna í bankanum. Það er líka athyglisvert að lesa þarna um að það virðist ekki hafa verið eining um málið innan Samráðs banka og verðbréfafyrirtækja.

Orða frjósöm móðir

Leiðarar Þorsteins eru iðulega frábærir, finnst mér, knappir og þrungnir merkingu en stundum óræðir.

Ég held að Þorsteinn hafi verið maðurinn sem bjó til orðið ásættanlegt í íslensku, talaði mikið um það áður fyrr í tengslum við kjarasamninga og sjávarútveg, ég hafði aldrei heyrt það fyrr en allt í einu var það komið á hvers manns varir.

En ég er kominn út á hjáleið. Það sem ég ætlaði að segja var: Veit einhver hvað þetta þýðir?

Og loks fór næstliðin borgaraleg ríkisstjórn út á hjáleið í þessu viðliti með hótun um uppsögn ef ekki yrði orðið við fullkomlega óraunhæfum og órökstuddum kröfum.

Ég held ég túlki þetta bara þannig að þáliðinn formaður Sjálfstæðisflokksins sé að gagnrýna næstliðinn formann Sjálfstæðisflokksins fyrir það hvernig hann hélt á varnarmálunum í sinni utanríkisráðherratíð með kröfum um lágmarksfjölda þotna. En ég er ekki viss.

þriðjudagur, september 26, 2006

Einnar bókar fólkið

Hvað eiga þessar skáldsögur sameiginlegt?
I Know Why the Caged Bird Sings (Maya Angelou)
The Adventures of Huckleberry Finn (Mark Twain)
Of Mice and Men (John Steinbeck)
Harry Potter (Series) (J.K. Rowling)
The Catcher in the Rye (J.D. Salinger)
The Color Purple (Alice Walker)
The Handmaid's Tale (Margaret Atwood)
To Kill a Mockingbird (Harper Lee)
Brave New World (Aldous Huxley)
The House of Spirits (Isabel Allende)
Slaughterhouse-Five (Kurt Vonnegut)
Lord of the Flies (William Golding)
The Adventures of Tom Sawyer (Mark Twain)
Allar eru á þessum lista sem Samök bókasafna í Bandaríkjunum hafa tekið saman yfir þær 100 bækur sem ofstækismenn reyndu mest að fá bannaðar í þarlendum bókasöfnum á síðasta áratug. Oft hefur verið látið undan kröfunum enda öflugur og hávær þrýstihópur á ferð. Það er því síður en svo sjálfsagt að þessar bækur séu til á bókasöfnum vestanhafs.

Blaðið

Nú er könnunarvika, feðgarnir -sme og Janus umbrotssnillingur, munu áreiðanlega uppskera eins og þeir hafa til sáð undanfarnar vikur. Fara tæplega yfir Moggann í þessari atrennu en færast nær og fara að anda ofan í hálsmálið á stóra bróður.

Halldór Baldursson skopmyndateiknari blaðsins er gífurlega flottur þegar honum tekst vel upp. Ómetanlegt fyrir blað að eiga aðgang að slíku efni. Góðir teiknarar eru sannarlega fágætir í blaðamennsku. Halldór er sá fyrsti sem teiknar í íslensk blöð sem ég hef virkilega smekk fyrir. Sigmund hefur alltaf verið eitthvað of ... fyrir minn smekk þótt ég hafi oft getað hlegið að honum.

Af hverju ætli það sé svona langt síðan Andrés Magnússon fékk að skrifa leiðara? Hvað er komið langt síðan? Nokkrar vikur.

Stilltir strengir

Rétt eftir að stjórnarandstöðuflokkarnir tilkynntu þann ásetning sinn að stilla saman strengina og bjóða upp á valkost við ríkisstjórnarflokkana leggur Samfylkingin fram tillögur um lækkun matarverðs sem allir andmæla, ekki síst Vinstri grænir og Frjálslyndir.

Það sem mig langar að vita frá Samfylkingunni er þetta: 1. Mun flokkurinn láta myndun nýrrar ríkisstjórnar stjórnarandstöðuflokkanna stranda á tillögum sínum um matarverð og því aðeins fara í ríkisstjórn á næsta kjörtímabili að hann nái þessum tillögum sínum fram í stjórnarmyndunarviðræðum? 2. Hvaða líkur eru á því að 1. verði að veruleika í ljósi þeirra viðbragða sem fram eru komin?

mánudagur, september 25, 2006

Espresso og latte

Á einhver í fórum sínum upptökuna af þessari ræðu samgönguráðherra við vígslu nýs flugvallar á Þingeyri 20. ágúst sl? Ég hefði gaman af því að heyra hana. Upptakan er ekki á vef RÚV, ég var of seinn, þeir geyma bara hljóðupptökur í hálfan mánuð, held ég.

Ég er búinn að heyra mikið um þessa ræðu. Sturla lætur okkur Reykvíkingana heyra það, segir að við viljum bara fara með flugvöllinn úr Vatnsmýrinni svo að við getum byggt fleiri kaffihús þar sem við getum setið og drukkið espresso og latte allan daginn.

Því miður er þessi ræða ekki á vef samgönguráðuneytisins, bara þessi fréttatilkynning þar sem ekkert er minnst á kaffihúsin og Reykvíkingana.

Athyglisverður fróðleikur

Þetta hafði farið fram hjá mér en kemur vel heim og saman við það þá mynd sem er að verða til af málinu:

Samkvæmt Speglinum, fréttaskýringarþætti Ríkisútvarpsins, í gærkvöldi, sem hér má hlusta á, vissu hvorki Steingrímur Hermannsson, sem var dómsmálaráðherra 1978 til 1979, né Jón Helgason, sem var dómsmálaráðherra 1983 til 1987, um tilvist leyniþjónustu þeirrar sem Þór Whitehead prófessor segir frá í Þjóðmálum.
Þó voru báðir þessir menn yfirmenn leyniþjónustunnar og lögreglunnar. Hvernig getur staðið á þessu? Starfaði leyniþjónustan kannski ekki á þessum tíma?


Þetta blogg er gagnlegt að lesa fyrir áhugamenn um málið.

Bak við tjöldin

Af reynslu sinni sem ráðherra og embættismaður telur Björn Bjarnason fráleitar fullyrðingar Guðna Th. Jóhannessonar að lögreglan hefði haldið úti eins konar öryggisdeild Sjálfstæðisflokksins. Athyglisvert að hann vísi til reynslu sinnar sem embættismaður en embættismennska Björns fólst í því að vera skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, þar sem hann starfaði meðal annars undir stjórn Ólafs Jóhannessonar ef ég veit rétt.

Engin gögn liggja fyrir um dómsúrskurði eða hleranir í tíð Ólafs (eða hef ég misst af einhverju?). Mér finnst það ekki óeðlileg túlkun á orðum Björns að hann hafi sem embættismaður haft eitthvað með starfsemi "öryggislögreglunnar" að gera, fyrst hann vísar til embættismennskunnar í þessu sambandi. En jafnalvarlega og ég tek staðhæfingar Björns allajafna duga þær ekki til í þessu tilviki. Það nægir mér ekki að hann einn lýsi því yfir að þetta hafi verið þverpólitísk starfsemi.

Allt hnígur í eina átt, þá sem Björn Bjarnason lýsti sig reyndar fylgjandi í fréttum í gær, ef ég skildi hann rétt, að galopna eigi aðgang að öllu sem að starfsemi njósnadeildar lögreglunnar í Reykjavík lýtur. Björn segir ljóst að starfsemin hafi öll verið innan ramma laganna þannig að þeir sem verkin unnu hafa ekkert að óttast. Það eru þeir sem hleraðir voru sem knýja á um gögn og upplýsingar og fyrst hinum ætluðu landráðamönnum er sama, hverjum má þá ekki vera sama? Öryggishagsmunir ríkisins? Ríkið, sem óttast var að landráðamenn ynnu fyrir er ekki lengur til og brottför Varnarliðsins segir allt sem segja þarf um það hvort slík umræða væri skaðleg frá öryggissjónarmiði í dag. Utan gildissviðs upplýsingalaga? Já, það á við um mál sem eru til lögreglurannsóknar og mál sem varða öryggi ríkisins en stjórnvöldum er alltaf heimilt að ganga lengra en upplýsingalögin kveða á um, þau fjalla bara um lágmarksaðgang að upplýsingum.

Íslendingur þekkir grunaðan hryðjuverkamann

Davíð Logi þekkir manninn á myndinni hér fyrir neðan. Lesið meira á hans gæðabloggi.

Með og á móti

Af hverju skyldi Samfylkingin styðja svo gott mál í Kópavogi en leggjast gegn því í Reykjavík?

Nú er í lagi að greiða foreldrum barna í Kópavogi umönnunargreiðslur, en í Reykjavík er það argasta ósvinna.

sunnudagur, september 24, 2006

Sindri sagði upp

Það er rétt að Sindri Sindrason er hættur á NFS, hins vegar var ekki rétt hjá mér að honum hefði verið sagt upp. Rétt er að hann sagði upp fremur en að þiggja það nýja starf sem honum var boðið.

Red alert

Myndin er sjálfsagt háð höfundarrétti en er birt hér engu að síður enda gæti þjóðaröryggi ef ekki heimsfriður verið í húfi.

Guardian:

Yet for three and a half years the US government deemed this elderly, infirm man an "enemy combatant", so dangerous to America's security that he was imprisoned at Guantánamo Bay.

Lifirðu tvöföldu lífi? Viltu fá borgað fyrir það?

Í boði MSNBC og YouTube: Þegar unga fólkið í Bandaríkjunum fer í bíó að horfa á nýjustu myndina með Bruce Willis sér það líka þessa atvinnuauglýsingu frá CIA.

laugardagur, september 23, 2006

Og nú er farið að gjósa

Athyglisverðar fréttir af kjördæmisþingi Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi og mörgum mikið fagnaðarefni. Sýnir almennar áhyggjur flokksmanna og ríkan vilja til endurnýjunar. Það verður spennandi að fylgjast með hvernig þessi mál þróast.

Veit það ekki

Ætli það sé tilviljun að Þór Whitehead finnur engin gögn um hleranir vegna fundar Nixons og Pompideu hér á landi?

Velti því fyrir mér vegna þess að á þeim tíma var Sjálfstæðisflokkurinn utan ríkisstjórnar, ef ég man rétt.

Jólabókin

...verður bók Margrétar Frímannsdóttur, sem nú er verið að skrifa. Hlakka sérstaklega til þess að lesa frásögn hennar af síðustu árunum á hennar pólitíska ferli. Hef eins og aðrir heyrt allar sögurnar af samskiptum hennar og núverandi formanns.

Mun Ljósmóðir Samfylkingarinnar varpa sprengjum út í jólabókaflóðið í ár, á kosningavetri? Eða verður niðurstaðan sú að það sé betra að bókin komi út næsta haust, þegar búið er að kjósa?

Annar er stjórnmálamaður - hinn er hagfræðingur

Með framboði Gylfa Arnbjörnssonar í 3.-4. sæti Samfylkingarinnar í Reykjavík er stiginn fram einn nánasti ráðgjafi Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, en jafnframt einn harðasti andstæðingur Össurar Skarphéðinssonar innan Samfylkingarinnar.

Gylfi lýsir yfir áhuga á 3.-4. sætinu, án vafa í samráði við Ingibjörgu Sólrúnu. Andstaða Gylfa Arnbjörnssonar hefur orðið Össuri pólitískt dýrkeypt. Það var hann sem leiddi uppreisnina gegn Össuri innan flokksins vegna eftirlaunafrumvarpsins á haustþinginu 2003. Í þeim átökum missti forysta Samfylkingarinnar trúnað verkalýðshreyfingarinnar, sem um leið ákvað endanlega að fylkja sér að baki Ingibjörgu Sólrúnu sem formanni. Og líkt og hjá Verkamannaflokknum í Bretlandi stjórnar enginn Samfylkingunni í blóra við vilja verkalýðshreyfingarinnar.

Spurningin er hvort sú bíræfni Gylfa að tefla með þessum hætti gegn Össuri og fleiri landsþekktum stjórnmálamönnum Samfylkingarinnar muni ekki koma honum í koll þegar talið verður upp úr kjörkössunum.

föstudagur, september 22, 2006

Af uppsögnum

Sindri Sindrason er mér sagt að sé þekktasta nafnið fyrir utan Róbert Marshall sem sagt var upp hjá NFS. Lóa Aldísardóttir verður í kvöldfréttum, Lára Ómarsdóttir fer í Kompás, Hallgrímur Thorsteinsson verður tengdur Vísi. Þeir sem missa vinnuna eru ungt fólk, lítt þekkt, en þekktustu andlitin og nöfnin halda sínu eða verða flutt til.

Ég veit ekkert af eða á um þann orðróm um Róbert Marshall sem ég fleytti fram hér áðan. Hvað sem síðar verður mun Róbert væntanlega byrja á að taka sér langt frí enda á hann þriggja mánaða uppsagnafrest á launum og sjálfsagt eitthvað í uppsafnað 3ja mánaða frí blaðamanna eins og gengur í þeim bransa. Þannig að það er ekki eins og hann mæti upp í Hádegismóa á mánudaginn, hvað sem síðar verður.

Róbert kominn með nýja vinnu?

Óstaðfestar fréttir herma að Róbert Marshall sé búinn að ráða sig til vinnu í nýja Morgunblaðshúsinu, hjá fyrirtæki tengdu Árvakri.

Óvænt og setur suma atburði undanfarinna daga í nýtt ljós ef rétt reynist. Rétt er að halda þeim fyrirvara til haga en maður má samt spekúlera.

Í ljósi þess að Róbert og Sigurður G. Guðjónsson eru gamlir félagar, sem meðal annars gengu saman á tind Kilimanjaro (er það ekki skrifað svona?) fyrir nokkrum árum, þá þarf þetta kannski ekki að koma á óvart.

Sigurður G. á dreifiveituna Hive, tímaritaútgáfuna sem áður hét Fróði, stóran hlut í útgáfufélagi Blaðsins, sem hefur aðsetur í Moggahúsinu, og nokkrar útvarpsstöðvar. Það þarf ekki mikla skarpskyggni til þess að sjá að hér er fjölmiðlaveldi í fæðingu þótt enn vanti einhverja kubba í púsluspilið.

ps. Ég sagði ykkur að hann mundi skúbba aftur í dag.

Þannig er það

Þetta er ekkert flókið, maður linkar á þann sem á skúbbið. Og ef sá sem maður linkar á á mörg skúbb þá linkar maður oft á hann. Ég gæti meira að segja trúað að þetta væri ekki í síðasta skipti í dag sem ég linka á hann. Það eru nefnilega fleiri fréttir í vændum og ég veit engan líklegri til þess að verða fyrstur með þær en einmitt hann.

Þetta bréf hans Róberts er gott, nei ekki gott, það er eiginlega klassi yfir því, allt að því fallegt, og ef menn taka ekki sjálfa sig svolítið hátíðlega á stundum sem þessum, hvenær þá?

Tölfræði

Meðalfjöldi sjónvarpstækja á bandarísku heimili: 2,73. Meðalfjöldi íbúa á bandarísku heimili: 2,55. Sjá hér.

Þegar bensínverðið lækkar eykst álit Bandaríkjamanna á Bush. Þegar bensínverðið hækkar minnkar álit Bandaríkjamanna á Bush. Skoðið sambandið þarna á milli hér.

Getraun dagsins

Er ekki nokkuð ljóst að það eru greinar Hreins Loftssonar um Björn Bjarnason sem eru tilefni Staksteina í dag, einkum seinni greinin? Ég held það.

Þarna er líka talað um einhverja sem að baki standi og oti mönnum eins og Hreini fram, það er eins og Hreinn megi ekki bara bera ábyrgð á þessu sjálfur heldur sé hann verkfæri í höndum annarra, ekki maður heldur peð. Hvaða illvirki er það sem teflir Hreini fram. Eiga Staksteinar við Jón Ásgeir? Var mér amk ekki ætlað að skilja það þannig?

Annarri spurningu er ósvarað (ef það er rétt kenning að við Hrein sé átt): Fyrst skrif Hreins voru svona rætin og svakaleg, af hverju samþykkti ritstjóri Morgunblaðsins þá að birta þau í blaðinu sínu?

fimmtudagur, september 21, 2006

Helga Vala í prófkjör hjá Samfylkingunni í Norðvestur

Helga Vala Helgadóttir er í þann veginn að gefa kost á sér í prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi. Hún mun setja markið á 2.-3. sætið og kemur sterk inn í baráttuna.

Helga Vala, leikarari, leikstjóri, fjölmiðlakona, laganemi, og bæjarstjórafrú er nýlega flutt til Bolungarvíkur ásamt eiginmanni sínum, Grími Atlasyni bæjarstjóra. Ekki er vafi á að hún mun hressa verulega upp á framboðslista Samfylkingarinnar í kjördæminu. Í prófkjörinu mun Helga Vala meðal annars etja kappi við Önnu Kristínu Gunnarsdóttur, Sigurð Pétursson, Bryndísi Friðgeirsdóttur og Karl V. Matthíasson, að ógleymdum Guðbjarti Hannessyni, skólastjóra á Akranesi, sem spáð er sigri í baráttunni um 1. sætið.

Athyglisverður árangur

Eftir seinni grein Hreins Loftssonar í Morgunblaðinu virðist ljóst að skuldir Dagsbrúnar eru 54 milljarðar króna en ekki 73 milljarðar króna. Rétt skal vera rétt.

Með þessu hefur Hreinn - að því er virðist - færst nær því marki að sýna fram á að Björn Bjarnason hafi farið með rangt mál um fjármál Dagsbrúnar annars vegar og fjármál ríkisins hins vegar. Hreinn hefur einnig náð þeim árangri með ritdeilu sinni við Björn að framvegis munu margir hugsa til skulda ríkissjóðs þegar skuldastaða Dagsbrúnar berst í tal.

Össur

Ég er ekki frá því að maðurinn hafi nokkuð til síns máls.
Það er bókstaflega talað út í hött að gerður sé nýr tvíhliða samningur um varnir landsins án þess að utanríkisnefnd sé höfð í ráðum.

Hvað er málið?

FL Group rýkur upp, Hannes Smárason kaupir og kaupir, ætli það sé rétt sem mér er sagt að hann sé búinn að finna nýjan kjölfestufjárfesti í Icelandair?

Það getur ekki verið. Ég hef ekkert vit á þessu, treysti bara á Hafliða, sem var að segja á NFS að allt gangi sinn vanagang á markaðnum.

Í skugga spámannsins

Lúðvík, Björgvin og Jón slást um að leiða lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi. Af heimasíðunum skuluð þið þekkja þá, sjá hér, hér og hér.

Svo er spurning hvort spádómurinn muni rætast.

Segðu mér hverju þú mótmælir...

Ungt fólk á Íslandi er aftur farið að mótmæla, það hefur skoðanir og því er ekki sama. Dag einn í sumar voru þrenn mótmæli á sama tíma. Sumir mótmæltu Kárahnjúkavirkjun, aðrir árásarstríði Ísraels gegn Líbanon. Sumir fóru niður á skattstofu og stóðu vörð um skattskrána.

Í dag er aðalfundur Heimdallar. Þar verður kosinn nýr formaður. Tvær ungar konur eru í framboði. Önnur þeirra verður í fararbroddi þegar Heimdellingar gera áhlaup á skattstofuna næsta sumar.

miðvikudagur, september 20, 2006

Nægt framboð en takmörkuð eftirspurn

Árni Þór Sigurðsson er með fleiri járn í eldinum en væntanlegt þingframboð. Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga verður haldið á Akureyri í næstu viku og þar á að kjósa nýjan formann í stað Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar borgarstjóra. Árni Þór hefur mikinn áhuga á embættinu og sækir það stíft. Fleiri eru um hituna.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, sækist líka eftir að verða fremstur meðal jafningja í hópi sveitarstjórnarmanna. Þriðji maðurinn í spilinu er Smári Geirsson, nestor Samfylkingarmanna í Fjarðarbyggð. Smári hefur lengi verið orðaður við þessa stöðu og er án efa kominn lengra í sínum undibúningi fyrir þingið en hinir tveir.

Í raun eru framboð Árna Þórs og Halldórs andsvar við hugmyndinni um Smára Geirsson en lengi sumars leit út fyrir að all góð samstaða gæti náðst um hann.

Sú von er nú úti og því stefnir - að óbreyttu - í spennandi kosningar á Akureyri í næstu viku.

Hljóð úr horni

Nú er sýslumanni nóg boðið:
Væri ekki nær að lögreglan í landinu hefði tækifæri til þess að sinna umferðareftirliti, sem er vissulega eitt af hennar verkefnum heldur en að samgönguráðherra geti látið af fé samgöngumála til hennar, svona rétt eins og þegar fólki var skammtað úr hnefa það sem það fengi til að eta á öldum fyrr? Enginn efast um góðan vilja samgönmguráðherra, en aðferðirnar eru tæpast réttar eða treystir fjárveitingarvaldið ekki lögreglunni til verka?

Gos í aðsigi?

Veit ekki alveg hvað þetta táknar en skjálftavirknin er greinilega orðin mikil.

Skuldir, ritdeilur og Frammarar

Björn Bjarnason upplýsir í Mogganum í dag að hreinar skuldir ríkissjóðs séu um 60 milljarðar og hafi lækkað um 90 milljarða á síðasta ári.

Enn er ekki um það deilt að skuldir Dagsbrúnar séu 73 milljarðar. Eins og málið lítur út nú er staðan sú að það er rangt að skuldir íslenska ríkisins séu hærri en skuldir Dagsbrúnar. Nú er staðan sú að skuldir Dagsbrúnar eru hærri en skuldir ríkisins.

Er verið að bera saman epli og appelsínur? Hreinn á leikinn. Er Björn að reyna að slá ryki í augu okkar með því að bera saman hreinar skuldir ríkisins og heildarskuldir Dagsbrúnar?

Nú vantar Jón Steinar en Sveinn Andri hlýtur að vera sestur við tölvuna. Kannski Hallgrímur Helgason líka. Allt Frammarar .

þriðjudagur, september 19, 2006

Damage control

Skuldir íslenska ríkisins eru hærri en skuldir Dagsbrúnar. Þetta upplýsir Hreinn Loftsson í Morgunblaðinu í dag.

Það sem rak Hrein til að upplýsa þetta var að Björn Bjarnason nefndi skuldir ríkisins og Dagsbrúnar í sömu andrá í pistli á heimasíðu sinni nýlega. Björn fór víst ekki rétt með tölur - hann hélt að ríkið skuldaði minna en 73 milljarða. Hreinn upplýsir að skuldir ríkisins séu samtals 206 milljarðar. Um leið staðfestir Hreinn að skuldir Dagsbrúnar séu 73 milljarðar króna, ef ég skil hann rétt.

Milljarðar, prósentur og tonn eru ekki mitt fag, það þarf að skera þetta ofan í mig í munnbitum, t.d. með því að bera saman stöðu ríkissjóðs sem ég veit að veltir um 300 milljörðum og Dagsbrúnar sem ég held að velti 6 til 7 milljörðum.

Þegar Hreinn setur þetta svona fram þá skil ég loksins að Dagsbrún er í verulega vondum málum.

Ég veit ekki hvort það var gott "damage control" hjá Hreini að svara staðhæfingum á heimasíðu Björns í 53.000 prentuðum eintökum. Reyndar læðist að mér sá grunur að hann hafi fyrst og fremst viljað koma höggi á Björn og hafi gripið tækifærið loksins þegar það gafst. Björn er nefnilega ekki oft staðinn að því að fara rangt með staðreyndir. Líklega heldur Hreinn með Gulla í prófkjörinu.

Hvað sem honum gekk til kann ég Hreini bestu þakkir fyrir að setja stöðu Dagsbrúnar í samhengi sem ég skil. Ég les heimasíðu Björns oft og iðulega en þessi pistill hafði farið fram hjá mér.

Öðru vísi mér áður brá

Frétt dagsins? Hvergi rekist á hana nema í hádegisfréttum RÚV. Samkomulag að nást í nefnd um fjármál stjórnmálaflokkanna?

Marshall út, Sigmundur inn

Nýjustu fréttir? Eftir opna bréfið er ekki hægt að segja að þessi niðurstaða komi á óvart.

En hvernig sem allt fer mun ég halda því fram að þessi færsla mín sé rétt á því augnabliki sem hún er skrifuð.

JFM í prófkjör?

Hellir Jakob Frímann Magnússon sér í prófkjörsslag Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi? Ég heyri að hann liggi nú undir feldi.

NFS

Mér sýnist að hér sé AFAR vænlegt að líta við í leit að nýjum fréttum af framtíð NFS og afdrifum starfsfólksins.

Það er fleira bloggað um málið. Ekki-auglýsingastjórinn þekkir vel til. Hann skrifar Róbert opið bréf. Neðsta færslan á síðunni hans er líka athyglisverð.

Sigmar og Róbert hittust hér í gærkvöldi. Án þess þó að Sigmar nefndi þetta hér.

Þættinum hefur borist bréf...

Það er svohljóðandi:
Heill og sæll, Pétur.

Dylgjur þær sem þú hefur eftir Magnúsi Kristinssyni um viðskipti Björgólfs Thors á bloggvef þínum með hlutabréf í Kaldbaki í aðdragandi sameiningar Burðaráss og Kaldbaks (NB. Viðskipti sem MK átti enga aðkomu að og veit ekkert meira um en þú) eru úr lausu lofti gripnar eins og flestir vita sem fylgjast bærilega með í íslensku viðskiptalíf. Mikið var um þessi viðskipti fjallað á sínum tíma, einkum í Morgunblaðinu. Aðrir miðlar tóku málið einnig upp. Hér að neðan sendi ég þér grein Soffiu Haraldsdóttur á Morgunblaðinu um þetta mál en þar ræður hún við málsaðila en enginn þeirr hefur nokkru sinni borið brigður á viðskiptin. Þetta er blaðamennska af ágætustu sort frá þínum uppeldisstöðvum. Þegar þú hefur lesið grein Soffíu og kynnt þér málsatvik þá skaltu láta reyna á eigin dómgreind um hvort þetta sé sambærilegt við þau gögn sem eru opinber um viðskiptin með Vöruveltuna.

Varðandi hugleiðingar MK um viðskipti BTB erlendis þá er það rétt að þau eru um margt ólík því sem kvótakóngur úr Vestmannaeyjum stundar. Mér er ekki kunnugt um viðskiptasigra MK á erlendri grundu þannig að eg veit ekki hvort það viðskiptavit sem felst í því að erfa kvóta hafi staðist próf hins alþjóðlega viðskiptalífs.

En hér kemur grein Soffíu, - sem þú getur að sjálfsögðu fundið sjálfur í ágætum gagnagrunni Morgunblaðsins – sem því miður er alltof lítið notaður.

Kær kveðja,
Ásgeir Friðgeirsson
Ég birti ekki grein Soffíu enda væntanlega varin höfundarrétti en slóðin á hana í gagnasafni Mbl er hér fyrir áhugasama.

mánudagur, september 18, 2006

Árni Páll fer fram í Kraganum

Árni Páll Árnason lögmaður er í þann veginn að tilkynna um framboð sitt í prófkjöri Samfylkingarinnar í Kraganum, að því er mínar heimildir herma. Ég veit ekki á hvaða sæti hann stefnir en tel borðleggjandi að hann ætli sér að vera í forystusveitinni.

Ég held að Árni Páll sé tvímælalaust sterkur frambjóðandi. Hann er einn helsti sérfræðingur landsins í Evrópurétti og var árum saman helsti lögfræðilegi ráðgjafi Halldórs Ásgrímssonar í Evrópumálum, m.a. á þeim tíma þegar Halldór setti fram hugmyndir um samband Íslands og ESB í frægum ræðum í Berlín og á Akureyri. Árni Páll hefur unnið fleiri verkefni fyrir núverandi ríkisstjórn og m.a. rekið mál fyrir hönd ríkisins fyrir ESA og EFTA-dómstólnum. Hann hefur þó alltaf verið Samfylkingarmaður, handgenginn Össuri og Jóni Baldvin.

Miklar sögur hafa verið um væntanlegt framboð Árna Páls undanfarið eða allt frá því að Jón Baldvin hélt þrumuræðu í fertugsafmæli hans fyrir nokkrum mánuðum þar sem hann fór hástemmdum orðum um afmælisbarnið og talaði um hann sem einn af framtíðarleiðtogum Samfylkingarinnar. Væntanlega hefur Jón Baldvin m.a verið að vísa til Árna Páls þegar hann ræddi um nauðsyn þess að endurnýja í þingflokki Samfylkingarinnar til þess að hleypa að fólki sem nyti trausts og væri fært til verka.

Beðið eftir 2011?

Samfylkingin er að skapa sér stöðu sem veitir ýmsa möguleika. Flokkurinn á nú kost á að stilla upp nýju fólki í oddvitastöður í þremur kjördæmum. Jón Baldvin og fleiri hafa kallað eftir því að gerð yrði breyting og stillt upp verkfæru fólki og fólki sem nyti trausts. Jóhann, Rannveig og Margrét hafa nú skapað jarðveg fyrir þessa endurnýjun. Ef vel tekst til gæti það eflt Samfylkinguna og gert hana ferskari valkost fyrir kjósendur og máð af henni gamla allaballastimpilinn.

Á sama tíma er staðan önnur í Framsóknarflokknum. Í dag er ekki raunhæft að ætla flokknum meira en sjö til átta þingmenn næsta vor. Eins og málið lítur út í dag verður aðeins endurnýjun í Reykjavík norður. Þar er búist við að nýr formaður hasli sér völl í stað þess gamla, og þá á kostnað nýjustu og ferskustu þingmanna flokksins, Guðjóns Ólafs og Sæunnar. Það er svo annað mál að þingsæti í Reykjavík norður er sýnd veiði en ekki gefin fyrir formanninn eins og staðan er nú.

Mér finnst líklegra en hitt að framsóknarmenn verði utan ríkisstjórnar á næsta kjörtímabili. Þingflokkur þeirra í stjórnandstöðu yrði að mestu skipaður þeim þrautreyndu stjórnmálamönnum sem eru í oddvitasætum flokksins nú, og vanari ríkissjórnarsetu en stjórnarandstöðu. Í dag er fátt sem bendir til þess að Framsóknarflokkurinn hafi afl til að skila ungu, öflugu fólki eins og Páli Magnússyni, Birni Inga Hrafnssyni, Sæunni Stefánsdóttur og Guðjóni Ólafi Jónssyni til frambúðar inn í landsmálapólitíkina fyrr en í fyrsta lagi árið 2011. Ætli þau verði flest ekki búin að snúa sér að einhverju öðru þegar þar að kemur?

sunnudagur, september 17, 2006

Eplið, eikin og almúginn

Ég heyri að Guðlaugur Þór verði Birni Bjarnasyni þungur í skauti í prófkjörsbaráttunni. Baráttan um annað sætið verður mæling á því hvernig flokkurinn er stemmdur í garð nánustu samherja Davíðs Oddssonar. Ákvörðun Gulla um að miða á 2. sætið þýðir að hann veðjar á að sú stemmning sé ekki mjög jákvæð.

Skil núna af hverju Gulli ætlar bara að vera stjórnarformaður í Orkuveitunni fyrsta árið á kjörtímabili nýrrar borgarstjórnar. Hann miðar á ráðherrastól næsta vor.

Heyri líka að Jóhanna Vilhjálmsdóttir í Kastljósi (fyrrverandi kærasta Guðlaugs Þórs) sé alvarlega að hugleiða framboð. Hún er dóttir Vilhjálms borgarstjóra.

Áslaug Friðriksdóttir, sem nýlega var kosin í stjórn Hvatar, er líka líkleg til að gefa kost á sér. Hún er dóttir Friðriks Sophussonar.

Svo er verið að vinna í Ingibjörgu Guðmundsdóttur, varaforseta ASÍ. Henni er ætlað að skipa hefðbundið sæti verkalýðsforingja á framboðslista sjálfstæðismanna í Reykjavík. Þar situr nú Guðmundur Hallvarðsson. Framboð Ingibjargar veit ekki á gott fyrir hann. Það er bara gert ráð fyrir einum fulltrúa verkalýðsins í partíinu. Hún lagar líka kynjahlutfallið. Tveir fyrir einn.

Spurning um trúverðugleika?

Fyrir utan endursögn NFS og mola í Fbl. hef ég ekki séð neina umfjöllun um uppgjör Magnúsar Kristinssonar við Björgólf Thor. Ég er leikmaður en mér sýnast ásakanir hans að sumu leyti sambærilegar við þær sem Jón Gerald bar á Jón Ásgeir. Kannski finnst mönnum Magnús Kristinsson ekki jafntrúverðugur og Jón Gerald.

Hvers eiga Jóhann og Rannveig að gjalda?

Ekki á hverjum degi sem ungliðahreyfing leggst gegn endurnýjun á framboðslistum.

laugardagur, september 16, 2006

Milljarðar milli vina

Mögnuð grein Magnúsar Kristinssonar í sunnudagsmogganum. Þarna eru lýsingar á Straumi og Novator og viðskiptunum með Kaldbak sem væri gaman að heyra sérfróða tjá sig um í fréttum á morgun.

Þarna eru líka svona kaflar:
"[...Björgólfur Thor hóf] feril sinn í viðskiptum í brugghúsi í Rússlandi og umgekkst þar eflaust eingöngu fólk sem er jafnvant að virðingu sinni og hann. Hann hefur þannig ekki sama reynsluheim og ég sem hef í gegnum tíðina einkum haft samskipti við venjulegt fólk úr mínu nánasta umhverfi, í Vestmannaeyjum aðallega, auk sjómanna og útvegsmanna á Íslandi. Í þeim hópi hef ég ekki þótt undarlegri en aðrir Eyjapeyjar."

Samfylking í verki

Jón Gunnarsson, alþingismaður Samfylkingarinnar, studdi þessa ályktun á aðalfundi SSS um síðustu helgi. Hann var enda formaður fráfarandi stjórnar og það var einmitt stjórnin sem bar ályktunina fram. Ályktunin var samþykkt með einu mótatkvæði. Fylgjandi henni - og þar með hvatamenn álvers í Helguvík - voru sveitarstjórnarmenn Samfylkingarinnar í öllum sveitarfélögum á Suðurnesjum.

Upplýsingaþjónusta ferðamanna

Össur: "Ég geng nokkrum sinnum dag hvern yfir Austurvöll á leið til og frá þinginu. Það bregst varla að hvern einasta dag spyr mig einhver hvað sé merkilegt við manninn á styttunni."

Merkilegt; ætli þingmenn fái almennt þessar daglegu fyrirspurnir á leið sinni yfir Austurvöll eða er það eitthvað í fari Össurar sem vekur upp hjá fólki hugmyndina um Upplýsingaþjónustu ferðamanna? Kannski er hann bara þannig í fasi að fólkið hópast að honum og vill láta fræða sig. Eftir kynni mín af Össuri er ég alveg opinn fyrir þeim möguleika. Og þó...

Var það ekki Steinn Steinarr sem orti: "Jón Sigurðsson, forseti, standmynd, sem steypt er í eir/hér stöndum við saman, í myrkrinu, báðir tveir"

Hér hefði ég viljað segja: þegar stórt er spurt? en ætla að standast freistinguna og varast eftirlíkingar.

föstudagur, september 15, 2006

Jakob og Stefán Bogi slíðra sverðin

Það er allt löðrandi í sátt og samlyndi innan Framsóknarflokksins þessa dagana. Nú hafa Stefán Bogi og Jakob Hrafnsson fallist í faðma, Jakob heldur formennsku í SUF en Stefán Bogi býður sig fram til stjórnarsetu. Sem sagt: engar kosningar í SUF um helgina. Sjá hér.

Ákært verður fyrir olíusamráð

Heimildir sem ég treysti segja mér að það liggi nú fyrir að einhverjir einstaklingar verði ákærðir vegna ætlaðra lögbrota í tengslum við samráð olíufélaganna. Ákærur verða hins vegar væntanlega ekki gefnar út fyrr en í næsta mánuði.

Fréttastofa Stöðvar 2 endurfæðist

Enn er ekkert í fjölmiðlum að gagni um mál NFS en mér er sagt að málið sé þetta: 1. NFS verður lokað. 2. Fréttastofa Stöðvar 2 verður endurvakin uppi á Lynghálsi. 3. Ísland í Bítið verður áfram sent út uppi á Lynghálsi. Það verður augljóslega mikil fækkun í starfsliðinu. Semsagt: Það verður sett í bakkgírinn og farið í það horf sem hlutirnir voru í áður.

Tímaritaútgáfunni verður hætt eins og fram kom í Blaðinu í morgun. Enn er tekist á um DV, sem mér skilst að seljist aðeins í 4-5000 eintökum í hverri viku og tapi því stórfé. Mér finnst það að vissu leyti sorglegt því að ég tel að Páll Baldvin hafi náð að gera góða hluti með blaðið undanfarna mánuði. Íþrótta- og menningarumfjöllun í sérflokki, en það er kannski ekki það sem hinn hefðbundni markhópur DV hefur verið að leita eftir. En ég held að DV sé ekki á hausnum af því að hann hafi ekki staðið sig; það eru fortíðarvandræðin sem eru að sliga skútuna. Vörumerkið dó í vetur sem leið.

fimmtudagur, september 14, 2006

Fáfróður Frakki

Mér sýnist að hér komi tvennt til greina: 1. Nicolas Sarkozy, innanríkisráðherra Frakklands, veit ekki að forsætisráðherra hefur úrskurðað að ESB-aðildarviðræður séu ekki raunverulegt viðfangsefni í íslenskum stjórnmálum. 2. Honum er alveg sama.
"The European Union is open to all those states which clearly belong to the continent of Europe, such as Switzerland, Norway and the Balkans, and nearby islands like Iceland," he said.

Allt búið?

Stórfréttir í vændum?
"Samkvæmt heimildum hefur sú ákvörðun verið tekin að leggja niður sjónvarpsstöðina NFS með manni og mús. Búast má við uppsögnum í tengslum við það fyrir mánaðarmótin."

Kunnugleg rödd

Spurningin um aðildarviðræður við ESB "er ekki raunverulegt viðfangsefni í íslenskum stjórnmálum," segir forsætisráðherra.

Málið er ekki á dagskrá sagði forveri hans á formannsstóli í Sjálfstæðisflokknum árum saman, eins og íslenskt þjóðfélag snerist í kringum höfuð hans. Með tímanum fór nákvæmlega það að gerast.

Ég efast um að nýi forsætisráðherrann sé maður með svo mikið aðdráttarafl. En yfirlýsingin finnst mér benda til þess að ekki vanti í hann suma aðra af eiginleikum eldri árgerðarinnar.

Sjá nýja könnun Samtaka iðnaðarins hér.

Nýr leiðtogi S í Kraganum

Gunnar Svavarsson stefnir á fyrsta sætið hjá Samfylkingunni í Kraganum og mun keppa um það við Þórunni Sveinbjarnardóttur.

Þórunn er þekkt nafn út á við eftir að hafa verið á þingi í tvö kjörtímabil og er, að því er mér sýnist, í þeim hluta þingflokksins sem hefur hvað mesta vigt. Gunnar er lítið þekktur út á við en mér segir fólk, sem ég veit að þekkir mjög vel, til að Þórunn eigi tæplega séns í hann.

Hann er formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, forseti bæjarstjórnar í Hafnarfirði og mjög vel látinn fyrir mikil og öflug störf innan flokksins. Það er fullyrt að Gunnar fari létt með að vinna 1. sætið í prófkjöri. Hann sýndi mikinn styrk í sveitarstjórnarkosningunum með því að sækjast eftir 6. sæti í prófkjöri og fá það með massívu atkvæðahlutfalli, síðan fékk Samfylkingin 7 menn í bæjarstjórnina.

Þannig að hann virðist vera einhvers konar Jón Sigurðsson þeirra í Samfylkingunni, stjarna innan flokksins en óþekktur út á við. Mun samt vinna í prófkjöri konu sem er þekkt út á við en hefur ekki sterka stöðu innan flokksins.

Almennt held ég að það verði mest spenna á prófkjörsvertíðinni innan Samfylkingarinnar. Veit ekki hvaða séns þessi Benedikt Sigurðsson frá Grænavatni á í Kristján Möller, skilst að hann sé umdeildur, m.a. vegna starfa sem stjórnarformaður KEA. Hann var sá sem rak Andra Teitsson úr starfi fyrir að fara í fæðingarorlof og var svo felldur á aðalfundi. Held hins vegar að Lára Stefánsdóttir geti orðið Einari Má hættuleg í baráttunni um annað sætið. Norðvestur verður spennandi, menn eru ekki spenntir fyrir að bjóða upp á Jóhann Ársælsson og Önnu Kristínu Gunnarsdóttur í efstu sætin áfram. Árni Páll fer ekki fram þar, er mér sagt en leit að þungaviktarfólki stendur yfir.

miðvikudagur, september 13, 2006

Lúðvík á leikinn

Sá í kvöldfréttunum að sú saga sem ég hafði heyrt er rétt að Dofri Hermannsson er launaður starfsmaður Samfylkingarinnar og hefur sem slíkur verið að vinna að mótun nýrrar umhverfisstefnu fyrir flokkinn undanfarna mánuði. (Hvar var annars varaformaður Samfylkingarinnar á þessum blaðamannafundi?)

Hin nýja umhverfisstefna Samfylkingarinnar kemur væntanlega fyrst til framkvæmda hjá bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Stækkun í Straumsvík er næsta hugsanlega stóriðjuverkefni hér á landi. Bæjarstjórnin er búin að selja Alcan lóð undir stækkun í Straumsvík og mun hafa úrslitaáhrif um hvort af stækkuninni verður. Lúðvík Geirsson og Gunnar Svavarsson, sem stefnir á fyrsta sæti Samfylkingarinnar í Kraganum, hafa málið á valdi sínu.

Fram og aftur Reykjanesbrautina

Ármann er áreiðanlega á leið í prófkjör í Kraganum. Það er viðtal við hann í Mogganum í dag þar sem hann segir óráðið hvað hann taki sér fyrir hendur. Ég veðja á að hann vilji verða Kópavogsbúinn á D-listanum og þar með arftaki Gunnars I. Birgissonar.

Aðalverkefni nýja aðstoðarmannsins fyrstu mánuðina verður sennilega að tryggja fjármálaráðherra fyrsta sætið í Suðurkjördæmi. Áður voru Árni Sigfússon og Steinþór Jónsson búnir að gefa sig upp með Árna Matt og nú bætist Böðvar Jónsson í hópinn og sem maður í fullu starfi fram yfir prófkjör. Suðurnesin eru með 40% af kjósendum Suðurkjördæmis þannig að þetta lítur vel út fyrir Árna Mathiesen.

Það hlýtur að vera þreytandi að þurfa að taka Keflavíkurrútuna í vinnuna á hverjum morgni, sérstaklega ef maður er sjálfstæðismaður og lítið gefinn fyrir almenningssamgöngur. Kannski það verði ráðinn sérstakur einkabílstjóri aðstoðarmanns ráðherra. Ég gæti trúað að margir kjósendur Sjálfstæðisflokksins á Suðurlandi hefðu skilning á því að það er engin ástæða til þess að láta drenginn taka rútu þótt honum hafi aðeins orðið á og áfengið hafi brenglað dómgreind hans, eins og Eyþór Arnalds sagði.

Svo er líka til í dæminu að Böðvar fái far með Eysteini Jónssyni, aðstoðarmanni landbúnaðarráðherra, sem býr í Keflavík og vinnur í næsta húsi við fjármálaráðuneytið. Eysteinn er með bílpróf. Eysteinn er í minnihlutanum í bæjarstjórn Reykjanesbæjar en Böðvar er í meirihlutanum. Þeir geta rætt fjármál bæjarins á leið í og úr vinnu.

Tímans tönn

Umfjöllun í tveimur blöðum um Steingrím J vakti forvitni mína yfir morgunkaffinu.

Í fyrsta lagi Staksteinar sem gefa í skyn tvískinnung hans í hvalveiðimálum án þess að tala hreint út. Hálfkveðin vísa í anda Styrmis. Það nægði til þess að ég tók fimm mínútur í að leita í ræðum og þingskjölum á vef Alþingis að ummælum og afstöðu Steingríms til hvalveiða. Komst að því að Steingrímur sat hjá við atkvæðagreiðslu um hvalveiðar 1999 og hefur vissulega í umræðum reynt að gefa í skyn vilja til veiða en óánægju með aðferðir við að fara í málið. Hann hefur talað allmikið um málið og rætt kost og löst.

Í fljótu bragði held ég að afstaða Steingríms J. hafi staðist betur tímans tönn í þessu máli en flestum öðrum. Hins vegar er langt í frá að Steingrímur hafi talað um hvalveiðar eins og græningi, meira eins og pragmatískur bændasonur úr Þistilfirði. Ég vissi að hann væri bændasonur úr Þistilfirði en ég hef sjaldan áður tengt hann við pragmatík, sem er um það bil það jákvæðasta sem hægt er að segja um pólitíkus í mín eyru. Í mínum huga hafa Staksteinar þess vegna gert Steingrími pólitískan greiða með því að vekja athygli á afstöðu hans til hvalveiða en auðvitað er þetta aðferð til þess að draga úr trúverðugleika hans sem græningja.

Talandi um Steingrím J og tímans tönn fannst mér bráðfyndið að lesa þetta í grein eftir Jón Kristjánsson í Blaðinu í dag: "Sá tími er liðinn þegar Steingrímur Sigfússon gekk úr kaupfélaginu á Þórshöfn vegna viðskipta félagsins við Bandaríkjamenn út af byggingu radarstöðvar á Gunnólfsvíkurfjalli."

þriðjudagur, september 12, 2006

Burt með boxið

"Yfirstíga þarf tæknileg vandamál áður en unnt verður að senda út læstar sjónvarpsrásir um öll kerfin, en gert er ráð fyrir að þær útsendingar hefjist í síðasta lagi 15. september næstkomandi."
Þetta er tekið úr fréttatilkynningu Dagsbrúnar og Símans þann 7. apríl sl. Fyrirtækin voru að lofa neytendum því að frá og með næsta föstudegi ættu þeir að geta séð dagskrá Stöðvar 2 og Sýnar annars vegar og Enska boltans hins vegar í gegnum sama boxið. Um leið og færi gefst mun ég losa mig við arfalélegan Digital Ísland myndlykil og láta nægja að horfa á sjónvarpið í gegnum ADSL frá Símanum; bæði Stöð 2, Sýn og Enska boltann.

Ég er hins vegar farinn að bíða eftir því að þessu ágætu fyrirtæki auglýsi þessi merku tímamót og tilkynni hvernig ég á að bera mig að við þessa breytingu á viðskiptum mínum við þau.

Árbær eða Álftanes

Sammála Össuri. Það er bráðsniðugt hjá VG að halda sameiginleg prófkjör fyrir allt höfuðborgarsvæðið. Almennir kjósendur eru ekkert að spá í því hvort þeir eru staddir í Reykjavík, á Seltjarnarnesi eða í Kópavogi. Enn síður hvort þingmennirnir þeirra eiga heima í Árbæ eða á Álftanesi.

Róttæklingurinn

Þennan útdrátt úr nýrri bók eftir Sidney Blumenthal, How Bush Rules: Chronicles of a Radical Regime lesa á Salon í dag. Þar stendur m.a. þetta:
"Neither his opponents, nor the reporters covering him, nor his closest campaign aides suggested that he would be the most willfully radical president in American history."
Meira hér.

mánudagur, september 11, 2006

Financial Times um síðustu fimm ár

FT:
'The way the Bush administration has trampled on the international rule of law and Geneva Conventions, while abrogating civil liberties and expanding executive power at home, has done huge damage not only to America's reputation but, more broadly, to the attractive power of Western values.'"

11. september

Independent:
"2,973 Total number of people killed (excluding the 19 hijackers) in the September 11, 2001 attacks 72,000 Estimated number of civilians killed worldwide since September 11, 2001 as a result of the war on terror 2 Number of years since US intelligence had any credible lead to Osama bin Laden's whereabouts" Sjá líka þetta hér.
11. september 2001 var ég á fréttastjóravakt á Fréttablaðinu, fór á fund í hádeginu og þegar ég kom til baka voru samstarfsmenn mínir að horfa á CNN. Skömmu síðar flaug seinni vélin á norðurturninn. Ég held að við höfum öll áttað okkur á því strax að heimurinn var að breytast.

Á þessum fimm árum hafa Bandaríkin breyst úr forysturíki hins frjálsa heims í Rogue State undir forystu manna sem fá vonandi makleg pólitísk málagjöld í þingkosningunum vestanhafs í nóvember. Vonandi ná demókratar völdum í bæði fulltrúa- og öldungadeildum og geta snúið sér að því að koma lögum yfir þetta hyski. (Mæli með að menn lesi bæði stefnuskrá repúblíkana í Texas sérstaklega kaflann um Sameinuðu þjóðirnar og skrif þessarar merku konu um hugmyndafræðilegan föður hinna neó-konservatívu.)

Sem betur fer er herinn nú að fara. Við eigum að semja við Breta, Dani og Norðmenn um hefðbundnar varnir, taka ábyrgð á hryðjuverkavörnum og ratsjáreftirliti í lofthelginni sjálf og leita samstarfs við Norðmenn, Dani, Breta og Rússa um eftirlit með Norðursiglingum.

laugardagur, september 09, 2006

Er Elín karlremba?

Ég var að horfa á stórfrétt dagsins í beinni útsendingu þegar klukkan varð sjö. Staðan var 3-3 í framlengdum bikarúrslitaleik kvenna, dómarinn flautaði til leiksloka og framundan var vítakeppni til að skera úr um hvort stelpurnar í Val eða Breiðabliki yrðu bikarmeistarar.

Þá var útsendingin rofin og tilkynnt að nú væri komið að fréttum!

Ég setti mig í stellingar og bjó mig undir að verða fyrir sjokki, minnugur þess að RÚV taldi ekki nauðsynlegt að hætta útsendingu á landsleik Englands og Þýskalands 17. júní árið 2000 þegar Suðurlandsskjálftinn reið yfir. Það hlaut eitthvað rosalegt að hafa gerst.

Elín Hirst birtist á skjánum og ég hélt niðri í mér andanum. En viti menn, þrjár helstu fréttir laugardagsins - að hennar mati - voru þessar: 1. Óhapp í norsku kjarnorkuveri - enginn slasaðist; 2. Sumir krakkar í grunnskólanum eru svo duglegir að læra að þeir eru búnir með námsefnið áður en þeir koma í 10. bekk; 3. Tony Blair vill ekki viðurkenna að hann er pólitískt dauður og hélt ræðu í dag.

Eftir að þessar þrjár fréttir voru farnar í loftið skipti Elín yfir á Laugardalsvöllinn. Fyrir tilviljun voru Valsstúlkur á því augnabliki að tryggja sér sigurinn með síðustu vítaspyrnunni. Blikar höfðu brennt af tveimur spyrnum. Auðvitað hafði þetta allt verið ótrúlega dramatískt og spennandi en ég fékk ekki að sjá það.

Ég vissi ekki hvort ég átti að gráta eða hlæja. Það var hreinlega engin stærri frétt í gangi í íslensku þjóðfélagi í dag en bikarúrslitaleikur kvenna í knattspyrnu.

Konurnar á heimilinu voru ekki lengi að saka Elínu um karlrembu og fullyrtu að þetta hefði aldrei verið gert ef þetta hefði verið bikarúrslitaleikur Vals og Blika í karlaflokki. Dóttir mín manaði litla bróður sinn til þess að hringja í RÚV og kvarta en hann náði ekki sambandi; það voru allar línur uppteknar.

föstudagur, september 08, 2006

Hugmynd að kosningaauglýsingu?

Hugtakið neikvæð kosningabarátta fær nýja merkingu hér.

Hrossakjöt ólöglegt í Bandaríkjunum

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings hefur samþykkt frumvarp til laga um bann við slátrun hrossa til manneldis. Sjá hér. Staðfesti öldungadeildin frumvarpið verður það að lögum í Bandaríkjunum.

Stakkur sýslumaður

Það er í gangi hörð ritdeila á Vestfjörðum. Nafnlaus dálkahöfundur í Bæjarins besta fór hörðum orðum um ráðningu Gríms Atlasonar í starf bæjarstjóra Bolungarvíkur.

Bæjarstjórinn svaraði af hörku á bloggsíðu sinni og lét þann nafnlausa ekkert eiga inni hjá sér. Í svarinu lætur bæjarstjórinn að því liggja að hann viti hver nafnleysinginn er og að hann búi austur í Flóa.

Lengra gengur hann ekki en ég hef upplýsingar um að sá sem skrifar í BB undir nafninu Stakkur sé enginn annar en Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður á Selfossi, sem áður var sýslumaður þeirra Ísfirðinga og um leið oddviti sjálfstæðismanna í bæjarstjórninni.

Þótt Ólafur Helgi sé fluttur burt er hann með Vestfirðingum í andanum og áhugasamur um mál fjórðungsins. Eins og allir sjálfstæðismenn á Vestfjörðum er hann enn í sárum yfir falli meirihluta sjálfstæðismanna í Bolungarvík, sem var meðal fréttnæmustu atburða sveitarstjórnarkosninganna í vor. Nú eru sjálfstæðismenn einir flokka í minnihluta í þessu fyrrverandi höfuðvígi Vestfjarðaíhaldsins.

fimmtudagur, september 07, 2006

Sameinast þau um kosningu í nefndir?

Er það eitthvað nýtt að stjórnarandstaðan ætli að "stilla saman strengina" á þinginu? Hefur það ekki alltaf verið þannig? Ég man eftir þessum sameiginlega blaðamannafundi í upphafi þings haustið 2004 þar sem höfð voru stór orð um fyrirhugað samráð.

En kannski er eitthvað nýtt í þessu, kannski fellst t.d. Samfylkingin á að stjórnarandstaðan bjóði sameiginlega fram til nefndakosninga í þinginu nú í haust Það væri nýtt á þessu kjörtímabili og til marks um raunverulegan samstarfsvilja af hálfu Samfylkingarinnar.

Hættulegt starf

Rannsóknarblaðamaður í San Diego verður fyrir líkamsárás í vinnunni.

Heitt í hamsi

Sjáðu þetta. Jón Baldvin hefur ekki mikla trú á þingliði Samfylkingarinnar, kallinum hitnar í hamsi þegar hann fer að tala um prófkjör og uppstillingu á lista Samfylkingarinnar vegna þingkosninganna, segir að það verði að vera hægt að stilla upp fólki sem er "verkfært" og sem "nýtur trausts."

Ég held að margt Samfylkingarfólk sé að hugsa á þessum nótum, sérstaklega þeir sem hafa rætur í Alþýðuflokknum eða líta á sig sem hægri krata. Þetta eru skiljanlegar áhyggjur, sérstaklega ef stjórnarandstaðan ætlar sér að bjóða fram einhvers konar kosningabandalag næsta vor. Nú eru gamlir alþýðubandalagsmenn í flestum forystusætum í Samfylkingunni þannig að Samfylkingin+VG lítur út eins og endurreist Alþýðubandalag. Þjóðin mundi aldrei kaupa þann pakka í kosningum.

Mathiesen og Sigfússon

Það eru ákveðin tíðindi í því að Árni Sigfússon stilli sér upp sem helsti bakhjarl Árna Matt fyrir áhugamenn um intrígur í Sjálfstæðisflokknum. Þeir voru hvor í sínum arminum í þrjátíuárastríðinu innan hreyfingar ungra sjálfstæðismanna. Mathiesen var t.d. framarlega í flokki stuðningsmanna Sigurbjörns Magnússonar á þingi SUS í Borgarnesi 1987 en þar tapaði Sigurbjörn naumlega fyrir Árna Sigfússyni eftir blóðuga baráttu.

Sú kosning skildi eftir sig sár sem voru örugglega helsta ástæða þess að Davíð Oddsson treysti sér ekki til þess að styðja Árna Sigfússon sem arftaka sinn þegar hann yfirgaf Ráðhúsið og sneri sér að landsmálunum. Sigfússon var í hófsamari arminum en Mathiesen í frjálshyggjuarminum með Sigurbirni, Hannesi Hólmsteini, Gunnlaugi Sævar og fleiri vinum Davíðs.

Árnarnir í Suðurkjördæmi

Er að horfa á blaðamannafund þar sem Árni Mathiesen tilkynnir um framboð í fyrsta sæti hjá Sjálfstæðisflokknum í Suðurkjördæmi. Bak við hann standa tveir stólpar íhaldsins í Reykjanesbæ; Steinþór Jónsson hótelstjóri og snillingur og Árni Sigfússon, bæjarstjóri.
Ég held að það sé ljóst að Árni Sigfússon væri ekki að stilla sér upp sem stuðningsmaður Árna Matt nema það væri búið að semja við Árna Johnsen frænda hans um að sækjast ekki eftir 1. sæti í Suðurkjördæmi heldur láta sér nægja 2. eða 3. sæti.

Drífa sig

Athyglisvert. Og ekki orð um það meir.