mánudagur, september 25, 2006

Bak við tjöldin

Af reynslu sinni sem ráðherra og embættismaður telur Björn Bjarnason fráleitar fullyrðingar Guðna Th. Jóhannessonar að lögreglan hefði haldið úti eins konar öryggisdeild Sjálfstæðisflokksins. Athyglisvert að hann vísi til reynslu sinnar sem embættismaður en embættismennska Björns fólst í því að vera skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, þar sem hann starfaði meðal annars undir stjórn Ólafs Jóhannessonar ef ég veit rétt.

Engin gögn liggja fyrir um dómsúrskurði eða hleranir í tíð Ólafs (eða hef ég misst af einhverju?). Mér finnst það ekki óeðlileg túlkun á orðum Björns að hann hafi sem embættismaður haft eitthvað með starfsemi "öryggislögreglunnar" að gera, fyrst hann vísar til embættismennskunnar í þessu sambandi. En jafnalvarlega og ég tek staðhæfingar Björns allajafna duga þær ekki til í þessu tilviki. Það nægir mér ekki að hann einn lýsi því yfir að þetta hafi verið þverpólitísk starfsemi.

Allt hnígur í eina átt, þá sem Björn Bjarnason lýsti sig reyndar fylgjandi í fréttum í gær, ef ég skildi hann rétt, að galopna eigi aðgang að öllu sem að starfsemi njósnadeildar lögreglunnar í Reykjavík lýtur. Björn segir ljóst að starfsemin hafi öll verið innan ramma laganna þannig að þeir sem verkin unnu hafa ekkert að óttast. Það eru þeir sem hleraðir voru sem knýja á um gögn og upplýsingar og fyrst hinum ætluðu landráðamönnum er sama, hverjum má þá ekki vera sama? Öryggishagsmunir ríkisins? Ríkið, sem óttast var að landráðamenn ynnu fyrir er ekki lengur til og brottför Varnarliðsins segir allt sem segja þarf um það hvort slík umræða væri skaðleg frá öryggissjónarmiði í dag. Utan gildissviðs upplýsingalaga? Já, það á við um mál sem eru til lögreglurannsóknar og mál sem varða öryggi ríkisins en stjórnvöldum er alltaf heimilt að ganga lengra en upplýsingalögin kveða á um, þau fjalla bara um lágmarksaðgang að upplýsingum.

Engin ummæli: