þriðjudagur, september 19, 2006

Damage control

Skuldir íslenska ríkisins eru hærri en skuldir Dagsbrúnar. Þetta upplýsir Hreinn Loftsson í Morgunblaðinu í dag.

Það sem rak Hrein til að upplýsa þetta var að Björn Bjarnason nefndi skuldir ríkisins og Dagsbrúnar í sömu andrá í pistli á heimasíðu sinni nýlega. Björn fór víst ekki rétt með tölur - hann hélt að ríkið skuldaði minna en 73 milljarða. Hreinn upplýsir að skuldir ríkisins séu samtals 206 milljarðar. Um leið staðfestir Hreinn að skuldir Dagsbrúnar séu 73 milljarðar króna, ef ég skil hann rétt.

Milljarðar, prósentur og tonn eru ekki mitt fag, það þarf að skera þetta ofan í mig í munnbitum, t.d. með því að bera saman stöðu ríkissjóðs sem ég veit að veltir um 300 milljörðum og Dagsbrúnar sem ég held að velti 6 til 7 milljörðum.

Þegar Hreinn setur þetta svona fram þá skil ég loksins að Dagsbrún er í verulega vondum málum.

Ég veit ekki hvort það var gott "damage control" hjá Hreini að svara staðhæfingum á heimasíðu Björns í 53.000 prentuðum eintökum. Reyndar læðist að mér sá grunur að hann hafi fyrst og fremst viljað koma höggi á Björn og hafi gripið tækifærið loksins þegar það gafst. Björn er nefnilega ekki oft staðinn að því að fara rangt með staðreyndir. Líklega heldur Hreinn með Gulla í prófkjörinu.

Hvað sem honum gekk til kann ég Hreini bestu þakkir fyrir að setja stöðu Dagsbrúnar í samhengi sem ég skil. Ég les heimasíðu Björns oft og iðulega en þessi pistill hafði farið fram hjá mér.

Engin ummæli: