laugardagur, október 28, 2006

Aftur á hleri

Var að skoða gögnin á skjalasafn.is , - það sem varðar 1949. Sé ekki betur en eina gagn dómsins hafi verið forsíða Þjóðviljans. Af henni er ekki auðvelt að álykta um annað en að fólk hafi ætlað að færa sér í nyt fundafrelsið og mótmæla. Það er krafist þjóðaratkvæðis og sagt að þingmönnum verði hafnað í næstu kosningum. Þetta er hlaðið þjóðernishyggju fremur en byltingarhyggju. Markmiðið virðist að framleiða pólitískan þrýsting, ekki byltingu, svona ef lesið er það sem stendur í línunum.

Svo er eins og dómurinn krefjist einskis rökstuðnings fyrir því að viðkomandi einstaklingar eigi að vera við þetta ætlaða valdarán riðnir. Ekki einu sinni augljóst að dómarinn viti hverja á að hlera. Það er ekkert próf lagt fyrir lögregluna, engir þröskuldar settir upp. Áttu þessir einstaklingar ekki í grófum dráttum sömu stjórnarskrárvörðu réttindi þá og þeir ættu nú? Minni á að á þessum tíma var þrígreining ríkisvaldsins ófullkomin í meira lagi, rannsóknarlögregla undir sakadómara og ráðherra fór með ákæruvaldið. Hvað var gert til að tryggja meðalhóf í aðgerðunum? Voru ekki lýðræðisöflin að verjast? Trúðu þau ekki í verki á það sem þau sögðu í orði?

Það kemur fram í greinargerð dómsmálaráðuneytisins að það eigi að hindra Alþingi í störfum sínum, sama orðalag og iðulega hefur verið síðan viðhaft um það sem gerðist á Austurvelli. Voru aðrar heimildir um það en forsíða Þjóðviljans? Mér sýnist sú ályktun síður en svo blasa við af því sem stendur í blaðinu. Mér sýnist þessi gögn vera heimild um paranoju stjórnvalda, fyrst og fremst, og til þess fallin að maður vilji túlka það sem gerðist dagana á eftir í því ljósi.

Engin ummæli: