fimmtudagur, október 05, 2006

Endurnýjun á kostnað hinna ungu

Það er ekki óvænt að Jón Sigurðsson ákveði að hasla sér völl í Reykjavík. Við því var búist að hann mundi velja þá leið að gera tilkall til þingsætis Halldórs Ásgrímssonar. Hins vegar þótti mörgum framsóknarmönnum víða um land tvennt mæla gegn því að hann veldi þann kostinn.

Það er hæpið að gera ráð fyrir að Jón nái kjördæmakosningu í borginni, en vissulega á hann mikla möguleika á uppbótarsæti. Það þýðir að alla kosningabaráttuna verður formaður Framsóknarflokksins í mikilli varnarstöðu í allri umræðu.

Hins vegar mun framboð Jóns í Reykjavík þrengja möguleika nýjustu þingmanna flokksins, Guðjóns Ólafs Jónssonar og Sæunnar Stefánsdóttur, á að komast á þing. Þau eru þingmenn Reykjavíkurkjördæmis norður en hljóta nú bæði að horfa annað í leit að pólitísku framhaldslífi. Þess vegna höfðu margir vænst þess að formaðurinn veldi ekki þennan kost.

Í Norðvesturkjördæmi hefur Framsóknarflokkurinn átt í forystukreppu, sem hægt hefði verið að binda enda á ef nýr formaður hefði þar lagt sig að veði í prófkjöri sem framundan er. Það var meðal annars í þeirri von sem meirihluti kjördæmisþingsfulltrúa í Norðvesturkjördæmi ákvað að velja leið póstkosningar við uppstillingu. Formanninum höfðu borist áskoranir um að fara þessa leið frá því á flokksþinginu í ágúst.

En af því varð ekki og nú bendir allt til þess að öfugt við aðra flokka verði endurnýjunin í þingliði framsóknarmanna fólgin í því að ungir þingmenn missa sæti sitt en hinir eldri sitja sem fastast.

Engin ummæli: