föstudagur, október 13, 2006

Ertu að hlusta, Heimdallur?

Finnst engum öðrum en mér undarlegt að ekkert heyrist í ungum sjálfstæðismönnum vegna símhleranamálsins? Nú eru þeir frægir áhugamenn um verndun friðhelgi einkalífsins, það er einmitt hennar vegna sem þeir skunda ár hvert niður á skattstofu og vernda skattskrána fyrir augum forvitinna.

Nú eru uppi grunsemdir um að árum og áratugum saman hafi verið rekin hér án lagaheimilda einhvers konar leyniþjónusta sem stundaði eftirlit með einkalífi fjölmargra einstaklinga, jafnvel ráðherra í ríkisstjórn landsins. Er það ekki brot á stjórnarskrárverndaðri friðhelgi einkalífsins að hlera síma fólks nema um sé að ræða dómsúrskurði í tengslum við rannsóknir sakamála? Það hélt ég.

En ekkert heyrist frá Heimdalli og bræðrum hans. Eru þeir kannski ennþá niðri á skattstofu?

Huxandi um þetta fer ég að velta fyrir mér nafni félagsins. Var ekki Heimdallur sá ás sem sá jafnt nætur sem daga, þurfti minni svefn en fugl og heyrði svo vel að hann heyrði grasið gróa? Karlgreyið, hann hefur ekki komist hjá því að vera með nefið ofan í hvers manns koppi. Feginn er ég að vera ekki fæddur með þessum ósköpum.

Athyglisvert að ungir sjálfstæðismenn kenni sig við Heimdall, fáir aðrir hafa orðið til að halda nafni hans á lofti. Það hefur ekki einu sinni verið skírt eftir honum varðskip, eins og flestum öðrum ásum af karlkyni, sem halda uppi sýnilegri og lögbundinni öryggisgæslu í landhelginni.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta er snilld!

Nafnlaus sagði...

Vantar ekki bara leiðtoga hjá ungum sjálfstæðismönnum. Sú kynslóð sem er að taka við í flokknum virðist vera ágæt (Guðlaugur Þór, Gísli Marteinn, Ásdís Halla), en yngri kynslóðir þessa lands eru einfaldlega gerilsneyddar af áhuga um stjórnmál. Atvinnulífið freistar líklega meira, enda meira upp úr því að hafa, í peningum og völdum...

Nafnlaus sagði...

Það er alveg ljós í þessu máli að sími allra er hleraður. Sem sönnun á þessu segir ég eftirfarandi :

Sigrún sem kennir sig við samtök fátækra sagði á Útvarpi Sögu í vikunni að hennar sími væri hleraður. Ef einhver NENNIR að hlera hennar síma þá eru allir símar hleraðir, ekki satt ??

Nafnlaus sagði...

Væri ekki gáfulegra að skora á SUS að koma með eitthvað um þetta, þar sem að það er jú samband allra ungra sjálfstæðismanna, ekki bara þeirra sem búa í Reykjavík?