sunnudagur, október 29, 2006

Fram og aftur Miklubrautina

Framsóknarmenn í Reykjavíkurkjördæmi norður ákváðu á 30 manna kjördæmisþingi í dag að stilla upp framboðslista sínum vegna alþingiskosninganna næsta vor. Jón Sigurðsson formaður vill skipa fyrsta sætið og ekki er annað vitað en að Guðjón Ólafur Jónsson alþingismaður stefni í annað sætið. Óvíst er um fyrirætlanir Sæunnar Stefánsdóttur, þingmanns kjördæmisins og ritara flokksins, en hún er um þessar mundir á ferðalagi um Norðausturkjördæmi.

Framsóknarmenn stilltu upp í báðum Reykjavíkurkjördæmum fyrir síðustu kosningar og margir vildu að önnur leið yrði farin nú, annað hvort með kosningu á tvöföldu kjördæmisþingi beggja Reykjavíkurkjördæmanna eða prófkjöri. Ekki var stemmning fyrir þeirri leið norðan Miklubrautarinnar.

Óvíst er hvað gerist í Reykjavíkurkjördæmi suður. Þar er kjördæmisþing annan fimmtudag og þá skýrist fyrst hvort framsóknarmenn í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur stilla sameiginlega upp framboðslista eða hvort þeir sunnanmegin fara eigin leiðir og efna til tvöfalds kjördæmisþings eða prófkjörs.

2 ummæli:

Grimur sagði...

ég spái því að ónefndur fyrrverandi fréttastjóri ákveðins miðils í borginni muni kjósa eitthvað annað en bé í vor....

Pétur Gunnarsson sagði...

Nei, vinur, það verður ekki þannig.