sunnudagur, október 22, 2006

Fuglahræðublús

Samstaða til sigurs er slagorð Björns Bjarnasonar. Í fyrstu yfirlýsingu sinni sem framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins talaði Andri Óttarsson um mikilvægi þess að flokkurinn kæmi sameinaður til kosninga í vor. Nú er það svo að flokkur, sem er sæmilega sameinaður fyrir, getur einbeitt sér að öðrum verkefnum en þeim að búa til sameiningu í sínum röðum. En meðan einingin er ekki fyrir hendi verður ekki friður til þess að gera nokkuð annað.

Þekkt aðferð til þess að búa til samstöðu er að búa til sameiginlegan óvin - ímyndaðan eða raunverulegan - og þjappa liði sínu saman um andúð á honum. Þetta er gjarnan gert þegar valdhafar vilja beina athyglinni frá eigin heimilisböli eða þegar pópúlistahreyfingar eru að sækjast eftir auknum áhrifum og ítökum.

Í fjórdálkabanner á forsíðu sunnudagsMoggans er leidd fram algeng útgáfa af ímynduðum andstæðingi. Þetta er það sem Kaninn kallar fuglahræður, þ.e.a.s. andstæðingur sem virðist ógnvekjandi úr fjarska en er ekki til þegar að er gáð. Auðvitað er enginn ytri andstæðingur að gera aðför að Birni Bjarnasyni, þeir sem að honum sækja eru þeir sjálfstæðismenn sem vilja fella hann í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Engin ummæli: