sunnudagur, október 15, 2006

Fyrsti allaballinn í utanríkisþjónustunni

Enn bætist við hleranamálið. Árni Páll Árnason, var fyrsti Alþýðubandalagsmaðurinn sem var ráðinn til starfa í utanríkisþjónustunni. Já, það er staðreynd að yfirlýstur Alþýðubandalagsmaður fékk fyrst starf í utanríkisþjónustunni í tíð Jóns Baldvins á árunum 1991-1995.

Árni Páll er sonur séra Árna Pálssonar, eins þeirra manna sem dæmdir voru fyrir árásina á Alþingishúsið 30. mars 1949. Verjandi séra Árna í því máli var einmitt Sigurður Ólason, faðir Jón Sigurðssonar formanns Framsóknarflokksins.

Jón Baldvin réði Árna Pál til starfa í utanríkisráðuneytinu. Jón Baldvin fól honum að starfa á varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins og sendi hann síðan til starfa í NATÓ um það leyti sem Jón Baldvin sjálfur fór úr ráðuneytinu og var þá búinn að láta flytja ráðuneytið úr lögreglustöðinni (þar sem hlerunarmiðstöð útlendingaeftirlitsins og fíknó var á neðri hæðinni) og yfir á Rauðarárstíginn.

Það þarf ekki gamla menn til þess að átta sig á því að bakgrunnur Árna Páls gerði það allt annað en sjálfsagt að hann væri aufúsugestur í hinu innvígða og innmúraða öryggissamfélagi á tíunda áratug síðustu aldar, jafnvel þótt hann væri ráðinn og skipaður til starfa af utanríkisráðherra sem lögum og stjórnarskrá Íslands samkvæmt bar ábyrgð á rekstri utanríkisráðuneytisins og samskiptum Íslands við alþjóðastofnanir á borð við NATÓ.

Engin ummæli: