miðvikudagur, október 25, 2006

Hvenær styður maður mann II?

Í dag er dreift í hús í borginni bæklingum frá bæði Guðlaugi Þór og Birni Bjarnasyni. Báðir flagga því að þeir njóti stuðnings Vilhjálms borgarstjóra. Engum kemur á óvart að Vilhjálmur styðji Gulla, hann á honum sennilega öðrum fremur að þakka sigurinn í prófkjörinu sl. haust og þar með borgarstjórastólinn. Hins vegar hafa margir rekið upp stór augu við að sjá Vilhjálm á forsíðu stuðningsmannablaðs Björns. Vilhjálmur sjálfur er víst einn þeirra sem varð hissa, og hreint ekki glaður.

Það sem þarna mun hafa gerst er að Vilhjálmur flutti stutta tölu við opnun kosningaskrifstofu Björns og fór viðurkenningarorðum um frambjóðandann við það tækifæri, eins og tilheyrir. En mínar heimildir úr herbúðum Gulla herma að Vilhjálmur hafi verið alls óviðbúinn því að stuðningsmenn Björns tækju setningar úr þeirri tölu og settu með mynd á bæklings Björns til þess að gefa til kynna sérstakan stuðning borgarstjórans við Björn og þar með andstöðu við Gulla. Gamli, góði Villi hafi ekki gefið leyfi til þess að þetta efni væri notað á þennan hátt. Hann er sagður vera að velta fyrir sér viðbrögðum.

Það verður spennandi að sjá hvernig þeir fóstbræður Vilhjálmur borgarstjóri og Guðlaugur Þór bregðast við. Hvaða mótleik eiga þeir?

Engin ummæli: