fimmtudagur, nóvember 30, 2006

Að ansa flugnasuði

Í dag er í Blaðinu eitthvert kjaftæði - dylgjur - um það að ég sé hér að blogga í leynilegum erindum Framsóknarflokksins og á launum við það frá ríkinu. Fyrstu viðbrögð voru að hlæja, þau næstu að reiðast og hringja í minn ágæta félaga -sme og spyrja hann hvaða vitleysa þetta sé og hvaða fólk hann væri eiginlega kominn með í vinnu. Sme fullvissaði mig um að hann hefði tekið þannig á málinu innanhúss að ég fer ekki fram á meira.

Ég blogga fyrir sjálfan mig og á mínum forsendum þegar ég vil, um það sem ég vil og rek ekki annarra skoðanir en mínar eigin. Ég er í Framsóknarflokknum og starfaði hjá honum frá september 2003 til september 2005, þá í félagsmálaráðuneytinu til mars 2006, síðan hjá Fréttablaðinu til júní 2006. Síðan þá hef ég unnið á eigin vegum og gengur takk bærilega. Ég skipulegg daginn sjálfur, borða þegar ég vil, tek pásu þegar ég vil, fer í frí þegar ég vil, blogga þegar ég vil.

Viðskiptavinir eru fyrirtæki og stofnanir, líka einstaklingar. Sumir sem ég vinn fyrir eru framsóknarmenn, aðrir, t.d. þeir sem ég vinn mest fyrir þessa dagana, eru sjálfstæðismenn. Ég er nýkominn úr vinnu fyrir þingmann Samfylkingarinnar. Ég fæ ekki krónu fyrir að blogga, hvorki frá einum né neinum, og bloggið mitt er ekki til sölu. Pólitíkin hér er mín pólitík. Ég eyði í þetta ca. 30-40 mínútum á dag, kannski 2 tímum þegar mest er, sjaldnast fer meiri tími en 10 mínútur í hverja færslu. Þetta er ekki mikið mál fyrir einhvern sem hefur unnið við blaðamennsku lengi og er heldur ekki mikill tími í ágætis hobbí. Og hafðu það. Ég man ekki til þess að nokkur samfylkingarmaður eða sjálfstæðismaður hafi þurft að réttlæta sitt blogg, líklega ætti ég bara að taka þetta sem komplíment, geri það þegar mér rennur reiðin.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Og hvernig ætlaði hann sme að taka á málum?

Nafnlaus sagði...

Denni...hættu þessari noju!