miðvikudagur, nóvember 08, 2006

Talsmaður neytenda ekki í framboði

Gísli Tryggvason, sem kosinn var í 4. sæti á framboðslista Framsóknarflokksins í Kraganum um síðustu helgi, hefur ákveðið að taka ekki sæti á listanum. Gísli stefndi upphaflega á 2. sæti. Í yfirlýsingu, sem barst rétt í þessu, segist Gísli ekki hafa náð því markmiði sem hann stefndi að með framboði sínu. Hann hafi fallist á að taka 4. sæti listans þegar honum bárust áeggjanir þess efnis á kjördæmisþinginu sjálfu.

Að nánar athuguðu máli, og að fengnum óháðum lögfræðiálitum, telji hann að ekki leiki vafi á því að framboð til Alþingis væri ósamrýmanlegt óbreyttum störfum talsmanns neytenda. Því hafi hann ákveðið að taka ekki 4. sætið en einbeita sér þess í stað að embættinu. Hann segir þessa niðurstöðu fengna í fullri sátt við oddvita listans, Siv Friðleifsdóttur, heilbrigðisráðherra.

Fyrir Alþingi liggur fyrirspurn, sem Magnús Þór Hafsteinsson lagði fram á mánudag og beindi til Jón Sigurðssonar viðskiptaráðherra. Spurningin er svohljóðandi: Telur ráðherra það samræmast starfi talsmanns neytenda á Íslandi að sá sem því gegnir sé í framboði fyrir stjórnmálaflokk til Alþingis? Nú þegar ákvörðun Gísla liggur fyrir er væntanlega ekki lengur þörf á að ræða málið á Alþingi.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Að Gísli Tryggvason hafi hafnað 4 sætinu sem hann var kosinn til á kjördæmisþingi framsóknarmanna í SV er honum til minnkunar. Hefði hann gert hið sama hefði hann náð takmarki sínu sem var annað sætið?
Með því að taka fjórða sætið og hafna því síðan setur hann framboðmál framsóknarmanna í uppnám.
Sérkennilegt að Siv oddviti framsóknarmanna í kjördæminu minnist ekkert á þessi stórtíðindi á heimasíðu sinni, þrátt fyrir að ákvörðun hans sé gerð í fullri sátt við hana. Var það kanski ekki svo ??