miðvikudagur, september 13, 2006

Tímans tönn

Umfjöllun í tveimur blöðum um Steingrím J vakti forvitni mína yfir morgunkaffinu.

Í fyrsta lagi Staksteinar sem gefa í skyn tvískinnung hans í hvalveiðimálum án þess að tala hreint út. Hálfkveðin vísa í anda Styrmis. Það nægði til þess að ég tók fimm mínútur í að leita í ræðum og þingskjölum á vef Alþingis að ummælum og afstöðu Steingríms til hvalveiða. Komst að því að Steingrímur sat hjá við atkvæðagreiðslu um hvalveiðar 1999 og hefur vissulega í umræðum reynt að gefa í skyn vilja til veiða en óánægju með aðferðir við að fara í málið. Hann hefur talað allmikið um málið og rætt kost og löst.

Í fljótu bragði held ég að afstaða Steingríms J. hafi staðist betur tímans tönn í þessu máli en flestum öðrum. Hins vegar er langt í frá að Steingrímur hafi talað um hvalveiðar eins og græningi, meira eins og pragmatískur bændasonur úr Þistilfirði. Ég vissi að hann væri bændasonur úr Þistilfirði en ég hef sjaldan áður tengt hann við pragmatík, sem er um það bil það jákvæðasta sem hægt er að segja um pólitíkus í mín eyru. Í mínum huga hafa Staksteinar þess vegna gert Steingrími pólitískan greiða með því að vekja athygli á afstöðu hans til hvalveiða en auðvitað er þetta aðferð til þess að draga úr trúverðugleika hans sem græningja.

Talandi um Steingrím J og tímans tönn fannst mér bráðfyndið að lesa þetta í grein eftir Jón Kristjánsson í Blaðinu í dag: "Sá tími er liðinn þegar Steingrímur Sigfússon gekk úr kaupfélaginu á Þórshöfn vegna viðskipta félagsins við Bandaríkjamenn út af byggingu radarstöðvar á Gunnólfsvíkurfjalli."

Engin ummæli: