þriðjudagur, október 03, 2006

Hvað segir Björn?

Það er spurning hvernig Birni Bjarnasyni fellur í geð ráðning nýs framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins. Andri Óttarsson hefur skrifað mikið á Deigluna og iðulega gagnrýnt embættisfærslur Björns í embætti dómsmálaráðherra. Skoðum nokkur dæmi:

Þessi grein heitir Versta frumvarp sögunnar, þar er meginefnið gagnrýni á Sturlu Böðvarsson en með beittu skoti á dómsmálaráðherrann:
Eins og með sum frumvörp sem koma úr dómsmálaráðuneytinu þá virðist frumvarp samgöngumálaráðherra vera skrifað af lögreglunni, fyrir hana sjálfa en gegn almenningi í landinu. Innan lögreglunnar virðist það viðhorf nefnilega ríkja að ef tæknin býður upp á möguleika til að fylgast með einkalífi borgaranna þá eigi að nýta hana. Ekkert er henni heilagt í þeim efnum.
Þessi hét Mannréttindaprútt:
En dómsmálaráðherra var ekki af baki dottinn. Í fyrra lagði hann einnig fram frumvarp til breytinga á lögum um meðferð opinberra mála. Þar var lagt til lögreglu væri heimilt að hefja hleranir án dómsúrskurðar.
Í miðjum umræðum um skipan Björns Bjarnasonar á hæstaréttardómara lagði Andri til málanna þessa grein, sem hann kallaði: Ráðherraleg óhlýðni:
Í vestrænum ríkjum hefur skapast sú hefð að þegar borgarar eru ósáttir við lög eða önnur fyrirmæli stjórnvalda þá mótmæla þeir lagasetningunni með því að virða ekki lögin á táknrænan hátt. Þetta hefur verið kallað borgaraleg óhlýðni. Á sama hátt mætti kalla viðbrögð ráðherrans einhvers konar ráðherralega óhlýðni. Í hnotskurn þá hefur málsvörn hans grundvallast á því að lögin séu vitlaus og því hafi hann ekki farið eftir þeim.

Engin ummæli: