mánudagur, október 30, 2006

Óþekkti þingmaðurinn eða Vitlausa póstnúmerið

Kostulegar þessar skýringar Önnu Kristínar Gunnarsdóttur á hrakförum sínum í prófkjörinu. Ég á reyndar erfitt með að setja mig inn í þessa stemmningu að það skipti miklu máli í hvaða póstnúmeri þú býrð hvort þú færð einhver atkvæði. Veit ekki til þess að á þessu landsvæði sé einhver að spá í hvort frambjóðandi býr í 105, 109 eða 220. En ég veit að úti á landi er þetta eitthvað sem skiptir máli. Ég held samt að þetta ráði ekki úrslitum þegar frambærilegt fólk á í hlut og að Anna Kristín reyni þarna að selja sjálfri sér fullauðvelda skýringu.

Nú er hún sitjandi þingmaður og kannski sá þingmaður sem fæstir Íslendingar þekkja. Hún átti aldrei séns í 1. sætið og tapar 2. sætinu fyrir manni sem var hættur eftir tilþrifalítinn pólitískan feril. Hún hangir með 16 atkvæðum í 3ja sætinu. Sú sem var næstum búin að fella hana enn neðar var einn fjögurra "vestfirskra" frambjóðenda í toppslagnum og aðeins búin að búa í kjördæminu í nokkrar vikur. Anna Kristín var hins vegar eini frambjóðandinn úr norðvesturhluta kjördæmisins sem sóttist eftir forystusæti.

Ég kaupi ekki að póstnúmerið hafi ráðið úrslitum og held að málið sé einfaldlega þetta: Hefði Anna Kristín notað betur það tækifæri sem hún hefur fengið á þessu kjörtímabili hefði hún rúllað þessu upp. Hún hafði forskot þegar lagt var af stað, eina konan í hópi alþingismanna í kjördæminu, en það nýttist henni ekki.

Ps. Er Anna Kristín réttur handhafi titilsins Óþekkti þingmaðurinn? Hverjir aðrir koma til greina? Svör óskast í komment.

19 ummæli:

Unknown sagði...

Til dæmis Kjartan Ólafsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Guðjón Hjörleifsson, Jón Bjarnason, Þuríður Backman, Guðjón Ólafur Jónsson, Sæunn Stefánsdóttir og Jón Kristjánsson áður en hann var gerður að ráðherra.

Annars skiptir búseta miklu máli í kjördæmunum utan Reykjavíkur. Hafnfirðingar leggja t.d. ofurkapp á það að koma "sínum" mönnum í efstu sætin í suðvesturkjördæmi, og þá skiptir engu máli þó að þeir séu óþekktir utan póstnúmersins 220.

Hafði einhver utan Akraness heyrt minnst á Guðbjart Hannesson fyrir prófkjörið?

Pétur Gunnarsson sagði...
Höfundurinn hefur fjarlægt þessi ummæli.
Pétur Gunnarsson sagði...
Höfundurinn hefur fjarlægt þessi ummæli.
Pétur Gunnarsson sagði...

Ég átti sjálfur þessi eyddu komment, kem því fyrir í einu sem ég ætla að segja:
Þessum þingmönnum sem þú nefnir má skipta í tvo flokka: stjórnarþingmenn ina Guðjón Ólaf, sem settist á þing í vor, Sæunni, sem settist á þing í haust, Kjartan, sem settist á þing sennilega haustið 2004, Arnbjörgu og Guðjón Hjörleifsson og Jón Kristjánsson. Arnbjörg er orðin þingflokksformaður og amk í fréttum einu sinni í mánuði. Guðjón H var áður þekktur bæjarstjóri og landsfrægur frá því að hann varð grunaður um lögbrot í sumar!?! Kjartan hefur lítið sýnt en Jón Kristjánsson var landsþekktur formaður fjárlaganefndar árum saman og sífellt í fréttum í nóvember og desember ár hvert. Af þessum stendur Kjartan eftir sem kandidat.
Svo eru það stjórnarandstæðingarnir, sem eru báðir í VG. Þuríður hefur helst orðið fræg sem flutningsmaður eftirlaunafrumvarpsins 2003 og vissulega verðugur kandidat í þetta. Hóla-Jón hefur hins vegar verið glúrinn við að koma sér á framfæri, sérstaklega úti í kjördæminu, svo sér sixpensarinn og málrómurinn fyrir því að kallinn er amk eftirminnilegur karakter.
Málið er sem þú segir að það þekkti enginn þennan Guðbjart nema Skagamenn en það nægði af því að Anna K hafði ekki nýtt forskotið sitt til þess að skapa sér neina stöðu.

Nafnlaus sagði...

Já, manni hefur þótt Anna Kristín einstaklega lítið áberandi á þinginu og líka í kjördæminu og úrslitin koma ekkert á óvart. Er ekkert viss um að færri hafi þekkt Guðbrand við upphaf baráttunnar. Held það segi nú töluvert að séra Karl hafi sigrað hana.

Það er þónokkur togstreita milli einstakra svæða í kjördæminu og ber mest á því í Skagafirði, á Ísafirði og Akranesi. Ísfirðingum finnst t.d. sitt svæði bara hafa 3-4 þingmenn á meðan öðrum íbúum kjördæmisins finnst þeir hafa 10.

Annars held ég að Herdís Sæmundardóttir eigi 2. sætið öruggt hjá Framsókn þannig að konunum fækkar líklega ekki. Eftir sem áður er hneyksli fyrir okkur íbúa í kjördæminu hversu fáar konur eru í þessum hópi.

Nafnlaus sagði...

Jón, áttu við að Framsókn nái inn tveimur þingmönnum? Það held ég að sé stórkostlegt ofmat. Þar að auki veit ég satt að segja ekki hvort Magnús eða Kristinn tapi fyrir Herdísi... á satt að segja síður von á því

Pétur Gunnarsson sagði...

Fékk athyglisverða ábendingu. Hún er sú að sú staðreynd að enginn hafi enn nefnt Jón Gunnarsson sem óþekkta þingmanninn segi mikið um stöðu hans. Hann gleymist meira segja þegar menn leiti að óþekkta þingmanninum. Þetta er amk hæfilega meinfýsið til þess að eiga heima hér í kommenti.

Nafnlaus sagði...

Ég taldi mig nú vera upplýstan borgara með sæmilegasta áhuga á pólitík og fjölmiðlum (annars læsi maður nú varla þessa síðu :) ) en mér hreinlega dauðbrá þegar þessi Anna var titluð þingmaður, fór beint á vef alþingis til að sannreyna þetta, og ég get staðfest það - Anna Kristín ER þingmaður! (kona).

Hinir sem voru nefndir hér efst eru langtum þekktari, þó svo að þeir geri fátt merkilegt - en þeir gera þó eitthvað.

-daníel

Nafnlaus sagði...

Það er eitt að vera óþekktur stjórnarþingmaður - það er nokkuð auðvelt. En að vera óþekktur stjórnarandstæðingur er ansi erfitt. Óþekktasti þingmaður allra tíma verður að teljast: Kristín S. Kvaran eða Jón Gunnarsson.

Pétur Gunnarsson sagði...

Rétt Hólshreppur, þetta með stjórnarandstöðuna. Það þarf ekki annað en að einhver selji trillu eða segi upp opinberum starfsmanni úti á landi til þess að stjórnarandstöðu- þingmaður í því kjördæmi sé kominn með ágætis tækifæri til þess að láta að sér kveða í þingi og fjölmiðlum, ef hann nennir.

Nafnlaus sagði...

Svæðaskipting ræður talsvert miklu, gömlu kjördæmin taka enn talsvert pláss innan þeirra nýju. Þó ekki alveg, samanber Einar og Einar af Vestfjörðum hjá Sjálfstæðisflokki.
Akranes er stærsti bitinn í kjördæminu, sem skýrir gengi heimamannsins. Snæfellsnes og Breiðafjörður skýra hins vegar engan veginn gengi Karls V. Þar kemur eitthvað annað til. Hvað? Hann hefur ekki verið atkvæðamikill og var það aldrei á þingi, á meðan hann sat þar, þótt hann kvakaði stöku sinnum í fjölmiðlum.
Vinur minn einn benti á skýringu: Anna Kristín væri eins máls kona. Hún hefði verið á móti virkjunum og varla eða aldrei tekið til máls um neitt annað. Það hefði valdið því að hennar "heimamenn" (hún er aðflutt, sem getur verið "glæpur" á þessum slóðum) hafi snúið við henni bakinu. Þeir vilja jú virkja Skagfirðingar.
Hvað sem hæft er í þessari kenningu um virkjanaandstöðuáhrif á fylgisleysi Önnu, þá reynist mér afar erfitt að finna eftirminnilegan málflutning hennar á þingi jafnt sem utan.
Aðsópsmikill þingmaður vinnur gjarnan fylgi langt út fyrir sína heimasveit, samanber Einar Odd, Steingrím Joð, Kidda Sleggju, Jóhönnu Sig., Össur, Guðna, Geir HH, og á sínum tíma Steingrím Hermannsson, Davíð Oddsson, Jón Baldvin, Svavar Gestsson, Guðrúnu Helgadóttur.

Nafnlaus sagði...

Mætti nefna Hjálmar Árnason því þótt hann sé þekktur er það ekki fyrir þingstörf heldur sem talsmaður ráðherrranna.

Nafnlaus sagði...

Ég ætlaði einmitt að nefna Jón Gunnarsson eftir að hafa lesið fyrstu tvö kommentin, en ég heyrði fyrst af honum um daginn.En svo fékk ég smá bakþanka og kannaði fyrst hvort þetta væri alveg örugglega rétt hjá mér. Og jú, reyndar, althingi.is staðfestir að Jón Gunnarsson er raunverulega þingmaður. Annar kandidat er Valdimar L. Friðriksson, sá sem auglýsti á forsíðu blaðs að hann væri búinn að opna heimasíðu. Man ekki hver hún var en hjó eftir framsetningunni http:// og svo kom vefsíðanpunktur.is - með stóru letri. En Valdimar datt auðvitað óvart inn fyrir ekki svo löngu.
En stjórnarandstöðuþingmaður sem getur ekki fengið athygli fjölmiðla getur engum kennt um nema sjálfum sér.

Nafnlaus sagði...

ég bý nú í þessu blessaða kjördæmi hennar Önnu og tel mig fylgjast vel með. engu að síður hafði ég hreinlega hvorki séð né heyrt minnst á þessa manneskju áður og það þykir mér vel af sér vikið hjá þingmanni... eða þannig...

Nafnlaus sagði...

Skagafjörður er næstum því jafn fjölmennur og Akranes. Hún var jafnframt eini frambjóðandinn af nv landi sem sóttist eftir 1 sætinu.

Af akranesi voru 2 menn sem sóttust eftir fyrsta sætinu.

Það mætti bara enginn í gamla nv landi til að styðja ,,sinn" mann.

Ólyginn segir einnig að anna hafi ekki einu sinni verið í kjördæminu að smala heldur í reykjavík að gera hvað veit enginn.

Nafnlaus sagði...

Vegna spurningar hérna að ofan. Já, ég held að Framsókn haldi örugglega 2 mönnum í Norðvesturkjördæmi. Byggi það á því að það er búið að spá þeim hrikalegri útreið 2 kosningar í röð, en samt sem áður hafa þeir haldið sínu og jafnvel aukið við. Þegar upp verður staðið í vor hefur Framsókn eytt langmestu í vel heppnaða og massíva auglýsingaherferð og verður enn með sína 10-13 menn og skammtar sér áfram völd að vild.

Í NV-kjördæmi fer þetta þó eftir stemmningunni og hvor er nr. 1, Magnús Stef eða Kristinn H. Sá fyrrnefndi yrði í bullandi vörn í kosningabaráttunni í vor við að verja gjörðir ríkisstjórnarinnar í mörgum málum, en hinn gæti auðveldlega látið eins og hann hafi verið hluti af stjórnarandstöðunni.

Herdís verður hins vegar örugglega í öðru sæti hjá Framsókn, það er alveg pottþétt. Hún er tiltölulega hlutlaus en þó dugleg, Framsókn er sterk í Skagafirði, en fyrst og fremst á hún það sæti öruggt vegna baráttunnar um 1. sætið. Þar mætast andstæðir pólar, fulltrúi flokksforystunnar sem hlýðir skilyrðislaust og ver stefnuna og fékk ráðherradóm að launum og hins vegar sá sem mest hefur gagnrýnt stefnu flokksins og vill breytingar. Sá sem setur Magnús í 1. sæti hefur Kristinn alls ekki númer 2 og líklega verður hann hvergi sjáanlegur á þeirra listum. Og öfugt.

Jón.

Nafnlaus sagði...

Ekki gleyma því að Kalli matt er AA maður..þar fer hulduher --B

Nafnlaus sagði...

Ein vitleysa í þessu. Anna Kristín er ekki aðkomumanneskja á Króknum.

Pétur Gunnarsson sagði...
Höfundurinn hefur fjarlægt þessi ummæli.