laugardagur, nóvember 11, 2006

Ellismellur dagsins

Sverrir Hermannsson fær enn eina rammagreinina birta eftir sig í Mogganum í dag. Eins og jafnan er kallinn orðljótari en aðrir menn og eys úr sér gusunum þannig að best er að forða sér á hlaupum. Sverrir er maðurinn sem stofnaði Frjálslynda flokkinn. Það er sennilegasta einhver ótrúlegasta vending í stjórnmálasögunni að kallinum hafi tekist að skapa um sig samúðarbylgju eftir að hann var rekinn úr stóli bankastjóra Landsbanka Íslands.

Eftir á að hyggja er það kannski einhver bestheppnaða hagstjórnaraðgerð undanfarins áratugs að reka Sverri Hermannsson, Björgvin Vilmundarson og Halldór Guðbjarnarson úr Landsbankanum. Í höndum þeirra var bankinn á hvínandi kúpunni og eilífar fréttir voru um tap bankans á hinu og þessu. Svo voru þessir kallar reknir, og pólitísku kommisararnir í Búnaðarbankanum líka og bankarnir settir í hendurnar á mönnum sem kunna að reka banka. Síðan hefur allt verið hér á fleygiferð í efnahagslífinu.

Þannig að í þessu ljósi er sennilega best að vera bara þakklátur fyrir þau atvik sem urðu til þess að Frjálslyndi flokkurinn var stofnaður, jafnskondin og þau voru á sinni tíð. En það er náttúrlega eins og út úr absúrdleikriti að Sverri, sem byggt hafði áratugalangan feril sinn á að útdeila almannafé til pólitískra vildarvina, skyldi ná að stofna um sig einhvers konar siðbótarflokk.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ótrúlegasta vending í stjórnmálasögunni er í burðarliðnum þegar þetta er skrifað. Dæmdur þjófur, alþingismaður sem hnuplaði dúk, timbri, hellum og öðru smálegu í skjóli trúnaðarstarfa fyrir almenning í landinu ,maður sem hefur aldrei viðurkennt annað en tæknileg mistök, maður sem hefur aldrei horft framan í þjóðina og viðurkennt að hann hafi breytt rangt, stolið og logið, sá maður er á leiðinni inn á Alþingi á ný. Þetta er ekki lengur hlægilegt, þetta er afskaplega, afskaplega sorglegt. Hann má fá alla fyrirgefningu fyrir mér aðra en þá að vera hleypt að sjóðum landsmanna á ný til þess að ausa þar fé til vina og vandamanna eða fóðra sína eigin vasa.