sunnudagur, nóvember 12, 2006

Upprisur og föll

Össur: Það má því segja að síðasta hálfa áratuginn hafi Samfylkingin bæði hafið mig til himna, féllt mig til heljar, og nú veitti hún mér upprisu í annað sinni.

Mér sýnist að Össur og Björn Ingi séu búnir að segja flest sem þarf um prófkjör Samfylkingarinnar í Reykjavík en ég ætla að bæta örlitlu við. Ég hafði talið að Steinunn Valdís yrði sterkari. Hún nýtt vel það tækifæri sem henni gafst sem borgarstjóri. En fáir tóku þátt í þessu prófkjöri og fyrst og fremst flokkskjarninn. Í þeim hópi hefur Steinunn líklega goldið þess að hún hefur víst verið lítið sýnileg í flokksstarfinu. Það gaf henni borgarstjórastólinn á sínum tíma að samstarfsmenn hennar í Reykjavíkurlistanum töldu ólíklegt að með því væru þeir að ala upp nýjan leiðtoga fyrir Samfylkinguna eins og gert hefði verið áður með Ingibjörgu Sólrúnu. Í dag virðist það mat hafa verið réttmætt.

Ágúst Ólafur rak góða prófkjörsbaráttu, auglýsti talsvert en beitti sér af mestum þunga inn í flokkinn. Hann náði að undirstrika mikilvægi þess að varaformaðurinn fengi góða niðurstöðu og að uppskera fyrir þær áherslur sem hann hefur lagt á þessu kjörtímabili á kynferðisbrot og önnur mál. Með þessu prófkjöri er hann orðinn fullmegtugur varaformaður og þarf ekki lengur að búa við glósur vegna landsfundarins þar sem hann náði kjöri.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hvað finnst þér svo um stöðu Ingibjargar eftir prófkjörið hjá henni? Fannst þetta ekkert voðalega sterkt, og almennt takmarkaður áhugi hjá flokkskjarnanum að fá mikinn fjölda til að taka þátt.

Ég tel að Össur og Ágúst Ólafur séu tvímælalaust sigurvegarar prófkjörsins. Össur hefur aldrei verið sterkari og Ágúst Ólafur er mjög frískur.

Pétur Gunnarsson sagði...

Mér finnst 69% fylgi frekar lélegt hjá formanni, sem er friðaður í sitt sæti. Það tóku um 4000 þátt í prófkjöri framsóknar í borginni vegna sveitarstjórnarkosningarnar og innan við 5000 hjá Samfylkingunni, það finnst mér lítil þátttaka. Það var bara einn kjörstaður og sá var í austurborginni, fjarri almenningssamgöngum, en þetta er miðbæjar- og vesturbæjarflokkur. Netkosningin tókst ekki vel, í umgjörðinni mátti ýmislegt fara betur. Það kusu um 11000 hjá sjálfstæðisflokknum í borginni fyrir nokkrum vikum, þannig að tæp 5000 er ekkert til að státa sig af fyrir flokkinn sem á 1. þingmann í öðru kjördæminu.