þriðjudagur, nóvember 21, 2006

Hver fer í fötin hans Halldórs Blöndal?

Hvernig fer slagurinn um 1. sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi? Fyrirfram skyldi maður ætla að Kristján Þór Júlíusson ætti að vinna þetta. Hann hlaut 36,3% atkvæða í varaformannskjöri á landsfundi fyrir rúmu ári. Það var sagt sl. haust að stóran hluta af fylgi sínu í varaformannskjörinu ætti hann að þakka því að frjálshyggjumenn hefðu kosið hann í stríðum straumum til þess að koma til skila táknrænni andstöðu við upphefð Þorgerðar Katrínar, þetta hafi ekki verið raunveruleg mæling á hann sjálfan.

Arnbjörg Sveinsdóttir hefur verið vaxandi þingmaður, orðin mjög reynd og starfar nú sem þingflokksformaður. En reynsla sjálfstæðiskvenna af prófkjörum hefur ekki verið of góð undanfarnar vikur.

Svo er það Þorvaldur Ingvarsson, sem er Reykvíkingur eins og Halldór Blöndal. Hann er formaður Sjálfstæðisfélagsins á Akureyri og framboð hans bendir til þess að ekki sé einhugur um Kristján Þór meðal sjálfstæðismanna í bænum. Mér er sagt að hann njóti velvildar Halldórs Blöndal og hans manna í þessum leiðangri. Þorvaldur er lækningaforstjóri FSA, dósent við læknadeild HÍ og væri ný tegund af stjórnmálaleiðtoga frá Akureyri. Hann fylgir framboði sínu úr hlaði á heimasíðu sinni meðal annars með þessum orðum: "Undanfarið ár hafa orðið miklar breytingar í Sjálfstæðisflokknum undir traustri stjórn Geirs Haarde. Ferskir vindar blása um flokkinn, nýtt fólk er að kveða sér hljóðs með nýjar áherslur í atvinnu-, mennta-, heilbrigðis- og umhverfismálum. Ég er meðal þeirra." Athyglisverð yfirlýsing.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Lesönd ætlar að gerast svo djörf að spá fyrir um úrslitin hjá þeim fyrir norðan:

1. Kristján Þór
2. Ólöf Nordal
3. Arnbjörg Sveinsdóttir
4. Sigríður Ingvarsdóttir
5. Þorvaldur Ingvarsson

Nafnlaus sagði...

Sæll Pétur

Þetta verður spennandi prófkjör. Þarna takast á þrír góðir kostir í leiðtogastöðuna. Virði þau öll, þau eru mjög ólík að flestu leyti en sameinast í að vera tryggir flokksmenn og hafa öll unnið flokknum mikið gagn hérna.

Fyrst og fremst fögnum við hér fyrir norðan að eiga val um leiðtogahlutverkið nú þegar að Halldór hættir eftir langt og farsælt starf. Það er ekki öllum gefið að fara í skóna hans Halldórs. Hann er virtur af fólki hér fyrir sitt góða verk.

Sýnist flest stefna í sigur Kristjáns Þórs, en öll reka þau góða og vandaða baráttu. Það verður því spurt svosem að leikslokum en á pappírunum teljast möguleikar bæjarstjórans mestir og það er ekki óvarlega ætlað já. Mikla athygli mun vekja hver útkoma kvennanna verður eftir slæma útreið þeirra í Suðrinu.

mbk. Stefán Friðrik Stefánsson
Akureyri

Nafnlaus sagði...

Þrátt fyrir að vera ötull lesandi síðunnar hef ég aldrei skilið eftir athugasemd. Það er mál til komið að breyta því. Ég ætla að koma með spá:

1. Arnbjörg Sveinsdóttir
2. Kristján Þór Júlíusson
3. Sigurjón Benediktsson
4. Þorvaldur Ingvarsson
5. Ólöf Nordal

Þetta er mjög tvísýnt á milli Kristjáns og Arnbjargar. Fyrir stuttu síðan hefði ég sagt að Kristján ætti sigurinn vísan en undanfarið hafa margir sagt Arnbjörgu standa mun betur að vígi en fyrr var talið. Bakland hennar á Austurlandi er mjög sterkt.

Sigurjón Benediktsson verður sá sem kemur mest á óvart í prófkjörinu.

Nafnlaus sagði...

Ég er ósammála fyrri spám.

Arnbjörg hefur ekki gott bakland fyrir austan, en er líklega eina von Austfirðinga um ráðherrasæti. Þess vegna mun hreppapólitík hugsanlega ráða því að Austfirðingar kjósi Arnbjörgu í 1. sætið. Ef skynsemin nær yfirhöndinni munu þeir koma Ólöfu Nordal í gott sæti.

Ég tel óvarlegt að útiloka Þorvald. Hann er mjög frambærilegur kandídat og á mikið persónufylgi, sem mun aukast eftir því sem hann kynnir sig betur. Þorvaldur er að mínu mati besti valkosturinn í fyrsta sætið. Laus við fortíðarvandamál og óumdeildur.

1. Þorvaldur Ingvarsson
2. Arnbjörg Sveinsdóttir
3. Kristján Þór
4 Sigríður Ingvarsdóttir
5. Ólöf Nordal

Nafnlaus sagði...

Kristján Þór
Arnbjörg
Þorvaldur
Ólöf

Kveðja
Sigurður