mánudagur, nóvember 27, 2006

Mistök dagsins

Einhver vandræðalegustu mistök sem ég hef séð í íslensku blaði eru gerð í Fréttablaðinu í dag. Blaðamaðurinn Hugrún Sigurjónsdóttir skrifar þar viðtal við Dofra Hermannsson, framkvæmdastjóra þingflokks Samfylkingarinnar og varaborgarfulltrúa, um þá erfiðu stöðu sem hann og fjölskylda hans eru í vegna ófullnægjandi úrræða fyrir börn á frístundaheimilum ÍTR.

Hugrún lætur vera að geta þess að þessi ungi fjölskyldufaðir er atvinnustjórnmálamaður. Þess í stað leyfir hún honum að skrúfa frá krana og gagnrýna þann meirihluta sem tók við stjórnartaumum í Reykjavíkurborg í sumar. Hún lætur þess ekki einu sinni getið að fjölskyldufaðirinn ungi er varaborgarfulltrúi og í raun einn flutningsmanna þeirra tillagna sem Hugrún kynnir í fréttinni. Hún blekkir lesendur blaðsins, hún sér þeim ekki fyrir þeim upplýsingum sem nauðsynlegt er og eðlilegt að liggi fyrir við mat á þessu efni.

Verst er að við vinnslu fréttarinnar á blaðinu tókst ekki að koma í veg fyrir að þessi pólitíski áróður Hugrúnar rataði á síður blaðsins og alla leið heim til lesenda. Þar eru mistökin, hins vegar er óhugsandi annað en að einbeittur áróðursvilji búi að baki skrifum Hugrúnar. Ég efast ekki eitt andartak um að Fréttablaðið muni biðja lesendur sína velvirðingar á þessari pólitísku misnotkun á fréttasíðum blaðsins í fyrramálið.

9 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ætlar fólk ekki að fara að átta sig: það er engin framtíð í Reykjavík :-) Það hefur ringt stanslaust frá því að DéBé´tók við; Strætó er alltaf seinn og það eru bara útlendingar sem þjóna okkur; kaffið hefur versnað; það er alltaf mótvindur og allir sætur strákarnir horfnir. Þetta hefur allt gerst frá því að DéBé tóku við....

Pétur Gunnarsson sagði...

Ég hef líka velt þessu fyrir mér með veðrið undanfarnar vikur og hvort það góðviðrisskeið sem einkennt hefur tíð þessarar ríkisstjórnar sé á enda runnið. En kaffið hefur ekki versnað, það hefur batnað, nema á Segafredó og á Tárinu í Bankastræti, þar hefur það versnað. Var að klára fínan latte á París.

Nafnlaus sagði...

Blassfemí! Kaffið á Tárinu er alltaf gott - þú kemur bara svo sjaldan þangað.....

Unknown sagði...

Hugrún Sigurjónsdóttir. Annars efa ég að þetta hafi verið einbeittur áróðursvilji, líklega hefur bara verið stolið úr henni að viðmælandi hennar var þessi Dofri.

Unknown sagði...

Þ.e. þessi Dofri, en ekki einhver nafni hans.

Pétur Gunnarsson sagði...

leiðrétti nafnið Steindór en að öðru leyti, því miður, þetta lyktar langar leiðir af misnotkun á aðstöðu. Sem betur fer afar sjaldgæft að fólk geri svona, jafnvel einstakt og óþolandi fyrir blaðið að lenda í.

Nafnlaus sagði...

Sæll Pétur.
Það væri gaman að vita hvað þú átt við með "þetta lyktar langar leiðir af misnotkun á aðstöðu. Sem betur fer afar sjaldgæft að fólk geri svona, jafnvel einstakt og óþolandi fyrir blaðið að lenda í."
Get upplýst þig og aðra bloggara framsóknar um eftirfarandi:
Hinn að því er virðist lítt reyndi blaðamaður hafði samband við mig af fyrra bragði og vildi fá stutt viðtal til að ljá persónulegan vinkil úttekt sem hún sagðist vera að gera á biðlistamálinu. Þar sem ég hef verið að berjast í því að formaður íþrótta- og tómstundaráðs taki á sig rögg í málinu taldi ég mér ekki fært að víkjast undan því.
Útkoman er hins vegar töluvert önnur en blaðakonan taldi mér trú um að væri meiningin, ýmislegt er rangt eftir mér haft og ljóst að hér er um byrjanda að ræða sem blaðinu hefur láðst að fylgjast með og kenna betri vinnubrögð.
Ég frábið mér því aðdróttanir þess efnis að ég hafi í áróðursskyni veifað börnum og blekkt saklausa fréttamenn. Finnst slíkar aðdróttanir hins vegar lýsandi fyrir hugarfar þeirra sem halda slíku fram.
Kv. Dofri Hermannsson

Pétur Gunnarsson sagði...

Dofri hér eru engar aðdróttanir í þinn garð, ég geri engar athugasemdir við að þú komir þínum málstað á framfæri þegar þú færð tækifæri til, með misnotkun á aðstöðu var ég að vísa til blaðamannsins, sem misnotaði aðstöðu sína til þess að skrifa pólitískan áróður í fréttapláss blaðs sem ég læt mér annt um. Ég á í raun erfitt með að sjá hvernig þú getur lesið annað út úr þessu, alveg óþörf viðkvæmni, þú ert ekki ábyrgur fyrir trúverðugleika Fréttablaðsins, amk ekki í mínum huga.

Nafnlaus sagði...

Talandi um kaffi, farið frekar á nýja kaffihús Te & Kaffi í Eymundsson í Austurstræti. Þar fáið þið almennilegan kaffibolla.