þriðjudagur, nóvember 28, 2006

Of mikið forskot

Það er fyrst og fremst tvennt sem mér finnst að mætti breyta í þessu RÚV-frumvarpi. 1. Það er fáránlegt að ríkið fari að ryðjast með sitt afl inn á örsmáan og viðkvæman markað fyrir auglýsingar á netinu eins og núgildandi útgáfa leyfir.

2. Kostunin. Það þarf að taka á henni, ég vil banna kostun í RÚV, hún þurrkar út eðlileg mörk efnis og auglýsinga og á ekki heima í almannaþjónustuútvarpi. Við þær þröngu aðstæður sem stofnunin hefur búið undanfarin ár hefur hún nýtt sér möguleika kostunar út í ystu æsar. Mér hefur sýnst að hún hafi jafnvel rutt brautina inn á nýjar og ósmekklegar leiðir í kostun, ekki síst á Rás 2. Ég hef heyrt sögur af því sem þeir, sem gefa út tónlist og standa fyrir viðburðum, láta bjóða sér í samskiptum við almannaútvarpið til þess að þeir geti hjálpað því að sinna menningarhlutverki sínu. Það væri athyglisvert að sjá og heyra einhverja úr þeim bransa lýsa reynslunni af samskiptum við ríkið á því sviði.

Mér finnst líka æskilegt fyrir auglýsingamarkaðinn og sjónvarpsáhorfendur að setja fast hlutfall um hámark auglýsinga sem birta megi í miðlum RÚV, t.d. fastan mínútufjölda á klukkustund. Að því sögðu skil ég að útvarpsstjóri sé spenntur að fá þetta frumvarp samþykkt. Það mun leysa hann úr spennitreyju og binda enda á þá uppdráttarsýki sem stofnunin hefur glímt við undanfarin 15 ár. En það verður að setja afli ríkisins á fjölmiðlamarkaði skorður. Forskotið er of mikið.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæll Pétur,
eru þið Denni nokkuð farnir að samhæfa ykkur í pistlunum?

Búið að vera ansi mikið samræmi þarna á milli síðustu dagana :)

kv. Eygló

Pétur Gunnarsson sagði...

Nei Eygló, við Denni erum ekki að samhæfa skrif okkar, en auðvitað tek ég eftir að við erum oft að skrifa um það sama, við eigum ýmislegt sameiginlega, og deilum líklega almennum viðhorfum í mörgum málum. Þannig er það nú.

Nafnlaus sagði...

Fyrst þarf almenna sátt um RÚV. Náist hún ekki, er sjálfgefið að leggja stofnunina niður. Sáttin þarf að vera um, að RÚV sé til og um hlutverk þess. Sáttin þarf að vera um að ríkið fjármagni stofnunina annað hvort eða hvorttveggja með lögboðnum tekjustofnum eða fjárframlögum. Sáttin þarf að vera um hvernig stjórnun stofnunarinnar er háttað, þ.e. hver t.d. ákveður hvernig dagskráin eigi að líta út, hve margar rásir o.s.frv. Varasamt er að binda slíkt í lög.
Auglýsingar eru í grunnatriðum þrennskonar: Tilkynningar (sem þulur les, í sjónvarpi texti eða skjámynd með), leiknar og kostun.
Ég tek undir að kostun á ekki heima hjá RÚV, tel reyndar að kostun gjörspilli öllu fjölmiðlaefni. Ég tek undir að eðlilegt sé að takmarka leiknar auglýsingar. Tilkynningar vil ég hins vegar ekki takmarka. Ekki má gleyma því, að auglýsingar, þá kannski helst tilkynningar þegar um ljósvakamiðla er að ræða, eru meðal mikilvægustu frétta sem almeningur fær, hvers vegna ætti að svipta hlustendur og áhorfendur RÚV þeirri fréttaþjónustu? Vefurinn gegnir sífellt mikilvægara hlutverki, ég sé ekki ástæðu til að takmarka auglýsingar þar umfram það sem gert yrði í útvarpi eða sjónvarpi.
Menn, sérílagi þingmenn, verða að átta sig á, að ekki verður bæði sleppt og haldið. Það dugir ekki að banna RÚV að afla auglýsingatekna og neita um leið að fjármagna stofnunina og samtímis vanrækja að marka henni stefnu.
Þá er rétt að minna á það, að RÚV frumvarpið er enn í óvissu, þótt nokkrar líkur séu á að það verði afgreitt, enda hafa verið gerðar á því miklar breytingar. Það er nefnilega svo, að ef ekki er víðtæk sátt um RÚV lagabreytingar, þá fara þær ekki í gegn hjá hinu háa Alþingi, það hefur margoft sýnt sig að frumvörp um þessa stofnun, sem samin eru af ráðherra eða fámennum hópi fulltrúa ríkisstjórnarflokka, nær ekki fram að ganga, þ.e. óskafrumvarp ráðherra er dauðadæmt. Kannski er búið að taka nægilegt tillit til allra pólitísku aflanna á Alþingi, og ýmissa fleiri sjónarmiða, til þess að kalla megi að nú sé sátt um málið og það fái afgreiðslu, skýrist það ekki á næstu klukkutímum?