fimmtudagur, desember 07, 2006

Lyfjamál, menntamál og ferðamál

Staksteinar taka Jakob Fal Garðarsson talsmann frumheitalyfjafyrirtækja á beinið í dag en Jakob lítur ekki svo á að lyfjafyrirtækin séu að markaðssetja framleiðslu sína þegar þau kosta alls konar uppákomur á vegum læknafélaga heldur séu þetta einhvers konar framlög til menntamála þjóðarinnar, tilkomin af illri nauðsyn vegna vanrækslu ríkisvaldsins.

Af þessu tilefni rifjast upp fyrir mér saga sem kunningi minn úr læknastétt sagði mér fyrir nokkrum árum af samskiptum við lyfjafyrirtækin. Það var haldin ráðstefna eða fundur á vegum lyfjafyrirtækis til þess að kynna nýtt og voða fínt lyf. Í lok samkomunnar var tilkynnt að sá læknir úr hópi viðstaddra sem yrði duglegastur við að ávísa þessu undrameðali næstu mánuðina mundi fá hálfsmánaðar utanlandsferð fyrir sig og fjölskyldu sína í verðlaun. Kunningi minn fór hjá sér og varð staðráðinn í því að láta hafa sig ekki að fífli með því að fara að ota þessari vöru að sjúklingum sínum umfram aðrar. Trúlega var svo um flesta kollega hans en einhver þeirra fór nú samt í ferðina góðu með konu og börn.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þessi saga getur eiginlega ekki verið að öllu leyti sönn, þó ekki væri nema vegna þess að lyfjafyrirtæki hafa engan aðgang að upplýsingum um hvaða læknar ávísa hvaða lyfjum.

Að því sögðu er sjálfsagt að taka undir efasemdaraddir um að endurmenntun lækna sé eitthvert heilagt samfélagslegt hlutverk lyfjaiðnaðarins. Auðvitað er það ekki svo. Lyfjafyrirtæki, eins og önnur fyrirtæki sem framleiða og selja vöru á frjálsum markaði, skilgreina sjálf hlutverk sitt, en taka ekki við fyrirmælum þar að lútandi frá samfélaginu. Eins og með flest fyrirtæki er meginmarkmið þeirra að skila hagnaði. Í þeim tilgangi stunda lyfjafyrirtækin (eins og öll önnur fyrirtæki) markaðssetningu á vörum sínum, og þó þannig vilji til að aukaafurð þessarar markaðssetningar sé endurmenntun læknastéttarinnar, er fráleitt að halda því fram að hún hafi verið megintilgangurinn. Hins vegar er það svo að lyfjafyrirtækjunum er gert það býsna auðvelt að halda þessu fram vegna þess að sá aðili sem öðru jöfnu ætti að hvetja til og styðja við endurmenntun viðkomandi starfsmanna, þ.e. vinnuveitandi þeirra (ríkið), stendur sig engan veginn í því hlutverki.