laugardagur, október 14, 2006

Konur slógust í Kraganum

Kosið var milli nánustu samstarfsmanna Sivjar Friðleifsdóttur og Jónínu Bjartmarz á kjördæmisþingi framsóknar í Suðvesturkjördæmi í dag. Sivjarfólk vann með fjórum atkvæðum en það gæti hafa verið Pyrrhosarsigur. Ólga er í baklandinu vegna framkvæmdar kosningarinnar.

Vitað var að kjósa þyrfti formann í stað Eyjólfs Árna Rafnssonar, sem léti af störfum eftir langa þjónustu. Hildur H. Gísladóttir í Hafnarfirði, ein nánasta samstarfskona Sivjar, og Guðrún H. Brynleifsdóttir, lögmaður og bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi og náin samstarfskona Jónínu Bjartmarz, höfðu lýst yfir framboði. Þrýst var á Guðrúnu að bjóða sig ekki fram. Guðrún sagði fjölmörgum þingfulltrúum að Siv hefði tekið hana tali á þinginu sjálfu og beðið hana að draga sig í hlé. Guðrún Helga neitaði. Hún er bæjarfulltrúi flokksins í heimabæ Sivjar en gömul og náin vinkona Jónínu. Samband Guðrúnar og Jónínu er talin helsta ástæða þess að Siv vildi ekki að hún yrði formaður.

Þegar að kosningum kom sauð upp úr. Formanni kjörnefndar Guðmundi Einarssyni, frá Seltjarnarnesi, framkvæmdastjóra Heilsugæslunnar í Reykjavík, láðist að geta þess að Guðrún Helga hefði boðið sig fram sem þó var á allra vitorði. Stuðningsmenn Hildar byrjuðu að klappa, rétt eins og sjálfkjörið væri. Kurr varð í salnum. Þegar hitinn var mestur féllu þau orð að þar hefði Guðmundur gengið of langt í að reka erindi heilbrigðisráðherrans. Guðrún Helga þurfti því að kveða sér hljóðs og lýsa yfir framboði. Svo var kosið. Hildur Helga vann með fjögurra atkvæða mun. Enn jók það tortryggnina milli fylkinga að ekki var kannað hverjir hefðu kosningarétt heldur lét Guðmundur nægja að biðja þá að víkja úr salnum sem ekki mættu kjósa. Kærur eru ekki taldar útilokaðar.

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þakka ágæta grein, sem segir síst of mikið!

Nafnlaus sagði...

Mér finnst ég vera að lesa lýsingu af fjölmörgum fundum, sem ég hef setið hjá flokknum undanfarin misseri. Siv Friðleifsdóttir mun að lokum verða til þess að flokkurinn hverfur!

En hvernig var það, eru ekki allir vinir í þingflokknum núna???

Pétur Gunnarsson sagði...

Takk fyrir það Sigrún mín, gaman að heyra frá þér, mér finnst skemmtilegast að fá komment þegar ég veit hver það er sem talar, þá er líka minni hætta á að kommentin verði misnotuð í einhvern leðjuslag. Það þætti mér verra.

Nafnlaus sagði...

er hr Pétur Gunn ekki framsókanarmaður

Nafnlaus sagði...

Ég hef aldrei kynnst jafn gegnheilum Framsóknarmanni og umræddum Pétri.

Nafnlaus sagði...

Hvernig er það ertu ekki Þróttari svona mest?

Pétur Gunnarsson sagði...

Ég er Frammari en sonur minn er Þróttari. Hann var að spila úrslitaleik í Reykjavíkurmóti um daginn við Fram og tvisvar stóð ég mig að því þegar ég ætlaði að hvetja hann að ég sagði segja: Koma svo Frammarar, sumt er bara svo djúpt í manni, t.d. það að vera Frammari. Þróttur vann og varð Reykjavíkurmeistari í 6. flokki.