miðvikudagur, október 25, 2006

Talsmaður neytenda

Gísli Tryggvason hefur sýnt að hann er prinsíppmaður og er kominn í fjölmiðlabindindi fram yfir prófkjör til þess að verja embætti sitt ásökunum um pólitíska misnotkun. Með þessari ákvörðun komst hann reyndar í fréttirnar en gott hjá honum og til háborinnar fyrirmyndar.

Nú er skarð fyrir skildi. Hver á að gæta hagsmuna neytenda og vera talsmaður þeirra? Eiga íslenskir neytendur nú engan vin? Það þýðir ekkert að bíða eftir að einhver annar leysi vandann. Ég hef því ákveðið að axla þessa ábyrgð í forföllum Gísla, eða fram til 4. nóvember. Ég mun ekki krefjast launa fyrir starfið ekki fremur en Kjartan Gunnarsson krafði Sjálfstæðisflokkinn um laun fyrir erfiði sitt. Maður verður að gera skyldu sína, eins og kallinn sagði. Hefst nú lesturinn:

Meðalverð á slægðri ýsu á fiskmörkuðum í síðustu viku var 167 kr./kg og framboðið gríðarlegt. Í dag borguðum við hjónin 1.300 krónur fyrir kílóið af ýsuflökum í búð. Það er eitthvað að.

Ég er að velta þessu fyrir mér í sambandi við verðlagið hér á landi. Nú eru ekki tollar eða vörugjöld að sprengja upp verðlagið á ýsunni. Landbúnaðarkerfið er mér engan veginn að skapi. Ég væri til í að hafa á því endaskipti og geta keypt osta hvaðanæva að en ég er hræddur um að það yrði ekki til þess að lækka verðið á ýsunni.

Íslenskir neytendur eru hafðir að fíflum á öllum sviðum, ekki bara í bensínsölu, bankaviðskiptum og verði á landbúnaðarvörum.

Góðar stundir.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Haltu áfram að vera ólaunaður talsmaður neytenda þessa 10 daga sem Gísli verður í fjölmiðlabindini.
Burtséð frá bindindisprinsippi Gísla er þetta góð auka auglýsing sem hann fær fyrir framboði sínu. Skildu aðrir sem taka þátt vera sáttir við sjálfa yfirlýsinguna. Betra hefði verið að þegja bara þennan tíma, en Gísli varð auðvitað að nýta sér auglýsingagildi yfirlýsingarinnar.

Nafnlaus sagði...

Hólshreppurinn er á því að það hafi heyrst meira í nýjum talsmanni neytenda (þ.e.a.s. þér) í dag en í þeim sem nú er kominn í bindindi - þó var hann talsmaður talsvert lengur en þú. Mig langar bara í grískan geitaost (þann eina sem má kalla feta), svartar ólívur frá Derveni, stóra tómata, nýjan lauk, agúrí og gríska ólívuolíu.

Nafnlaus sagði...

Athyglisvert - þú ert fréttamaður.
Kannaðu þetta fyrir okkur. Hvar er hækkunin. Hver er það sem tekur mismunin til sín? Ég er alveg til í vita það.

Pétur Gunnarsson sagði...

Þú ert ofboðslega duglegur við að kommentera hjá mér anonymous, mér finnst ég vera farinn að þekkja þig, við ættum að fá okkur kaffibolla einhvern tímann, ha?
En ég er ekki fréttamaður, ég var það, og ég hef nóg annað að gera sem talsmaður neytenda.

Nafnlaus sagði...

Flakanýting ýsu er ca 40 % sem þýðir að flakaverðið á markaðnum er rúmar 400 krónur. Þarna bætast við tæpar 900 krónur á leiðinni upp í fiskbúð. 260 krónur eru vaskur sem þýðir væntanlega að milliliðurinn er að taka eitthvað yfir 600 krónur fyrir ómakið.
Sem hráefni er ýsuflak í flokki með kjúklingabringum. Næringargildi og nýting álíka mikil. Ef við gætum keypt kjúklingabringur á 500 - 600 kall kílóið eins og aðrir evrópubúar er ég sannfærður um að fisksalinn kæmist ekki upp með svona okur.