sunnudagur, nóvember 12, 2006

Hver vann?

Ég var úti á þekju þegar ég spáði Kristjáni Pálssyni góðu gengi í Suðurkjördæmi. Átti að vita að Sjálfstæðisflokkurinn fyrirgefur ekki hégómleg sérframboð, þótt hann fyrirgefi refsidóma. Ofmat fréttirnar sem ég hafði af því að nú ætluðu Suðurnesjamenn að láta af sér vita. Sá svo sem ekki kjörþokka Kristjáns en bið um skilning, þetta er nú einu sinni þeir kjósendur sem ætla að tefla fram Árna Johnsen. Og getur einhver útskýrt fyrir mér kjörþokka Kjartans Ólafssonar?

Árni Mathiesen er með innan við 50% atkvæða í 1. sæti, staða hans er svo sannarlega veikari en hún var, sérstaklega í ljósi þess að þarna var sjálfur fjármálaráðherrann að keppa við þá sem hann var að keppa við.

Ég er ekki frá því að Guðni Ágústsson og Björgvin Sigurðsson séu raunverulegir sigurvegarar þessa prófkjörs.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Árni Johnsen vann og menn á Suðurnesjunum hafa væntanlega tryggt Björk 4. sætið. Hann er tvímælalaust sigurvegari þessara kosninga, og fékk fylgi um allt Suðurlandið. Fyrst og fremst vegna þess að fólk telur að hann muni vinna fyrir kjördæmið!

Kjörþokki Kjartans byggist fyrst og fremst á að hann var eini frambjóðandinn frá Árnessýslunni (Grímur Gísla talaði alltaf um sig sem Eyjamann búsettan í Árborg). Einkennilegt að menn skyldu ekki finna sterkari frambjóðanda en hann á þessu svæði. Kannski ætla menn að bíða eftir Aldís úr Hveragerði?

Ég er sammála að þetta er mjög veik kosning hjá Árna Mathiesen og væntanlega þarf hann að finna sér annað kjördæmi eftir fjögur ár þegar erfðaprinsinn í Reykjanesbæ gefur kost á sér. (Skyldi það fara að vera ein af prófkjörsreglunum hjá D að aðeins Árnar mega gefa kost á sér í fyrsta sætið :))

Almennt tel ég að menn geti lesið það mjög skýrt út úr þessum prófkjörum að enginn á neitt. Ef menn hafa lítið haft sig frammi, ekki látið fólk sjá sig eða vita af því sem þeir eru að gera á þingi þá geta þeir bara tekið dótið sitt saman og komið sér annað.

Þetta tel ég að gildi m.a. um Drífu Hjartardóttur. Hún hefur verið mjög dugleg í nefndum þingsins, verið varaþingforseti, setið í fjárlaganefnd og stjórn Byggðastofnunar, - en samt átti fólk erfitt með að benda á e-hv. sem hún hafði gert. Því fór sem fór.

Þú verður að skýra aðeins betur þetta með Björgvin og Guðna.

Kv. Eygló

Pétur Gunnarsson sagði...

Já, ég er sammála þér um þetta Eygló, ég held að Drífa hafi starfað mjög vel í þinginu og talað máli umbjóðenda sinna, þ.e. bænda, og mér sýnist að með henni sé síðasti bóndinn farinn af þingi. Það er enginn eftir held ég örugglega, nema auðvitað Valgerður Sverrisdóttir.

Með Guðna og Björgvin, ég held bara að þessi niðurstaða Sjálfstæðisflokksins hljóti að skapa sóknarfæri fyrir Framsókn og Samfylkingu, þetta er arfalélegur D-listi, 3ja sætið er orðið baráttusætið hjá B.