fimmtudagur, nóvember 15, 2007

laugardagur, janúar 27, 2007

Mörgu að venjast á nýju heimili

Mættur hingað á blog.is eftir að hafa verið á blogspot. Þótt útlitið sé nánast eins (þökk sé sérfræðingum mbl.is) er margt breytt í umhverfinu og stjórnarendanum. Ég verð einhvern tíma að venjast þessum breytingum að fullu.

Það er t.d. þetta með bloggvinina, ég er strax búinn að fá tilboð um að gerast bloggvinur þessa og hins. Veit ekkert hvað það er, hef bara vanist því að gera tengla á þá sem vilja. Útlitið mitt gerir ekki ráð fyrir þessum möguleika í dag en sjáum hvað setur.

Svo er það þetta með tenglana af forsíðu, ég hef vanist því að skrifa stutt, setja litla vinnu í færslur, uppfæra ört og gera út á að þetta sé nokkurs konar straumur þar sem fólk kemur alltaf inn í gegnum forsíðuna. Nú er traffíkin sjálfsagt mikið til í gegnum tengla annars staðar af mbl.is og blog.is, kallar kannski á breytt vinnubrögð í framtíðinni, veit það ekki, sjáum hvað setur

Og gamla kommentakerfið, það var skilið eftir, færslurnar fluttar en kommentin urðu eftir.

Nýtt blað - sme og Jónas funduðu í dag - Smári á hliðarlínunni?

Hvað sem króginn verður kallaður hef ég fengið staðfest að í kringum -sme er hópur að vinna að undirbúningi að útgáfu á síðdegisblaði, lausasölublaði, sem sækir í DV-hefðina. Það er óvíst hvort þessi framhjáldskrógi Sigurjóns M. Egilssonar, sem hann átti framhjá Sigurði G. Guðjónssyni og Blaðinu, verður látinn heita DV eða eitthvað annað. Kannski DB eða NT, - nú eða eitthvað allt annað.

Upphaflega var stefnt að DV nafninu en í undirbúningsvinnunni hafa menn horfst í augu við þá staðreynd að vörumerkið DV er dautt, það dó undir ritstjórn Jónasar Kristjánssonar og Mikaels Torfasonar sl. vetur, og á því verður ekki byggt á dagblaðamarkaði um fyrirsjáanlega framtíð.

Ég hef ekki fengið staðfestingu á því að Gunnar Smári, bróðir -sme, sé þátttakandi í þessum ráðagerðum en sennilega eru hann og fleiri, sem verið hafa tengdir 365, þarna að tjaldabaki.

En þótt Jónas Kristjánsson hafi á endanum ritstýrt DV út af dagblaðamarkaðnum hefur verið leitað til hans um þátttöku í undirbúningi þessarar nýju útgáfu. Hann er og verður gúrú -sme og DV-skólans í íslenskri blaðamennsku. Í dag sást til þeirra -sme og Jónasar sitja saman á kaffihúsinu í Iðu við Lækjargötu. Það þarf ekki mikið hugmyndarflug til að vita um hvað þeir voru að ræða.Og sjálfsagt hefur dómurinn sem féll í dag yfir Jónasi og Mikael Torfasyni líka borist í tal.

föstudagur, desember 08, 2006

Brynjólfur vill ritstýra Blaðinu

Það bíður mikil áskorun þeirra Sigurðar G. Guðjónssonar útgáfustjóra og Karls Garðarssonar framkvæmdastjóra að halda Blaðinu gangandi við þær aðstæður sem nú blasa við í útgáfunni.

Ritstjórinn -sme hefur sagt upp störfum, líka þrír aðrir lykilstjórnendur á ritstjórninni, Janus sonur sme, og fréttastjórarnir Brynjólfur Guðmundsson og Gunnhildur Arna. Enginn blaðamaður hefur sagt upp, t.a.m. ekki Trausti Hafsteinsson, bróðursonur sme, en sögur gengu um það í dag. Andrés Magnússon blaðamaður er á uppsagnarfresti sem rennur út um áramót og í byrjun vikunnar hætti Örn Arnarson, umsjónarmaður erlendra frétta, en hann hefur ráðið sig til starfa á nýju og endurbættu Viðskiptablaði. Eini stjórandinn á ritstjórninni, sem enn hefur ekki sagt upp er Elín Albertsdóttir, hún er nýkomin til starfa, og sagði samstarfsmönnum sínum í dag að hún teldi að hún hefði nánast verið fengin um borð í fleyið á röngum forsendum.

Það er ekki auðvelt að sjá hvers vegna Sigurður G. og Karl báðu -sme ekki að taka föggur sínar og fara út um leið og hann tilkynnti þeim fyrirætlanir sínar, það hlýtur að vera erfitt fyrir bæði ritstjórann og eigendurna að hafa kallinn vappandi á ritstjórninni við þessar aðstæður. Kannski telja þeir að þeir standi þannig betur í dómsmáli eða lögbannsmáli sem þeir munu væntanlega höfða gegn honum þegar hann gengur á dyr.

Flutningar í gangi

Stend í flutningum. Verð framvegis á slóðinni hux.blog.is. Lét undan tískustraumum eftir nokkra varnarbaráttu.
Vinsamlegast uppfærið tengla.

Stormasamur skilnaður

Það kemur ekki á óvart að -sme sé að skilja við Blaðið. Það eru tveir mánuðir síðan hann tók tilboði 365 um að ritstýra DV, en bakkaði vegna þess að það hefði orðið honum erfitt að losna undan ráðningarsamningnum við Sigurð G. Guðjónsson. Þessi uppákoma benti ekki beinlínis til þess að Sigurjón ætlaði sér að vera lengi í þessu hjónabandi. Sú saga hefur verið á sveimi undanfarnar vikur að hann sé að fara að hætta. En hvað er hann að fara að gera? RÚV hefur eftir honum að það sé rangt að hann sé að fara til 365 og Denni segir að -sme hafi logið að sér í gær um að hann væri að hætta. RÚV segir líka að nýtt dagblað sé í burðarliðnum fyrir utan áform SDA og Valda um nýtt vikublað og áform Viðskiptablaðsins um fjölgun útgáfudaga.

Sme segir í viðtali við RÚV að hann sé að skilja við fríblaðaformið og hann af öllum mönnum hefur talað býsna óvirðulega um fríblöð á eigin bloggi undanfarna daga. Í mínum huga er enginn vafi á því að ef- sme er að fara að gefa út eitthvert blað þá er það lausasölublað í anda DV, eins og það var. Ég tel mig þekkja hann nógu vel til að vita að í huga hans er DV á sínu blómaskeiði hið sanna viðmið í blaðamennsku. Eru einhverjir auðmenn að setja pening í að stofnsetja frá grunni nýtt blað í þeim anda? Hinn möguleikinn er að -sme ætli sér enn þá, eins og í október, að verða þátttakandi í einhvers konar endurreisn DV á dagblaðamarkaði. Ég veðja á að svo sé. Það kemur í ljós.

Nú verða sagðar fréttir

Fréttablaðið í dag setur þessa frétt á bls. 6.:
Þorsteinn Davíðsson, aðstoðarmaður Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra og sonur Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra, er meðal umsækjenda um stöðu dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur en dómsmálaráðherra skipar í embættið frá og með 1. janúar á næsta ári.

fimmtudagur, desember 07, 2006

Írak

Washinton Post um skýrslu nefndar Bakers og Hamiltons um Írak:
"The report is replete with damning details about the administration's competence in Iraq. It notes, for instance, that only six people in the 1,000-person U.S. embassy in Baghdad can speak Arabic fluently, and recounts how the military counted 93 acts of violence in one day in July when the group's own examination of the numbers found 1,100 acts of violence. 'Good policy is difficult to make when information is systematically collected in a way that minimizes discrepancy with policy goals,' the report says."

Lyfjamál, menntamál og ferðamál

Staksteinar taka Jakob Fal Garðarsson talsmann frumheitalyfjafyrirtækja á beinið í dag en Jakob lítur ekki svo á að lyfjafyrirtækin séu að markaðssetja framleiðslu sína þegar þau kosta alls konar uppákomur á vegum læknafélaga heldur séu þetta einhvers konar framlög til menntamála þjóðarinnar, tilkomin af illri nauðsyn vegna vanrækslu ríkisvaldsins.

Af þessu tilefni rifjast upp fyrir mér saga sem kunningi minn úr læknastétt sagði mér fyrir nokkrum árum af samskiptum við lyfjafyrirtækin. Það var haldin ráðstefna eða fundur á vegum lyfjafyrirtækis til þess að kynna nýtt og voða fínt lyf. Í lok samkomunnar var tilkynnt að sá læknir úr hópi viðstaddra sem yrði duglegastur við að ávísa þessu undrameðali næstu mánuðina mundi fá hálfsmánaðar utanlandsferð fyrir sig og fjölskyldu sína í verðlaun. Kunningi minn fór hjá sér og varð staðráðinn í því að láta hafa sig ekki að fífli með því að fara að ota þessari vöru að sjúklingum sínum umfram aðrar. Trúlega var svo um flesta kollega hans en einhver þeirra fór nú samt í ferðina góðu með konu og börn.

Viðtengingarháttur

Sme skýrir dagblaðakönnunina á bloggi sínu. Styttri útgáfa hljóðar svo: Ef veðrið hefði verið betra í könnunarvikunni og ef blaðberar Moggans stæðu sig betur í vinnunni, þá hefði Blaðið fengið magnaða útkomu í könnuninni.

Sveitarstjórnarmál

Athyglisvert þetta mál sem Fréttablaðið hefur verið að fjalla um þar sem forseti bæjarstjórnar á Álftanesi, grefur laugar og heldur grillveislur á annarra manna sjávarlóð og kemur í veg fyrir að hægt sé að byggja á henni en neitar því að það hafi nokkuð með það að gera að þá mundi hann missa sjávarútsýnið úr húsinu sínu.

miðvikudagur, desember 06, 2006

Kali spera

Mér finnst þessi pistill Björns frá Grikklandi undarlegur. Hleranirnar á Hannibal spilltu ekki fyrir sambandi Sjálfstæðisflokksins og Alþýðusambandsins, segir hann meðal annars. Ég geri þá ráð fyrir að hann hafi upplýsingar um að vitneskja um þær hafi verið á beggja vitorði.

Sturla á þorra og Sturla á aðventu

Sturla Böðvarsson á Alþingi 8. febrúar 2006: Í þessu samhengi hef ég talið skynsamlegt að nálgast málið á þeim forsendum að vegurinn milli Rauðavatns og Hveragerðis verði svokallaður 2+1 vegur og væntanlega í fyrstu einnig vegurinn frá Hveragerði til Selfoss. Síðan verði gert ráð fyrir því, og ég spái því að umferðarþróunin verði á þann veg, að í framhaldinu þurfi að gera ráð fyrir tvöföldum vegi milli Hveragerðis og Selfoss. En áhersla mín er sú að leiðin alla leið austur að Selfossi verði í 1. áfanga byggð upp sem 2+1.

Frétt frá samgönguráðuneytinu 6. desember 2006: Þar sem umferðaröryggisaðgerðir á Suðurlandsvegi og Vesturlandsvegi þola enga bið er mikilvægast að bregðast við með aðgerðum sem nú þegar gefa aukið öryggi á hættulegustu vegarköflunum. Vonir standa til þess að þegar í stað verði hægt að aðskilja akstursstefnur á Suðurlandsvegi og Vesturlandsvegi þar sem aðstæður leyfa og breikka vegina þar sem brýnast er. Með þessu verður hrundið í framkvæmd árangursríkum aðgerðum í þágu aukins umferðaröryggis. Markmið og stefna samgönguráðherra er að Suðurlandsvegur og Vesturlandsvegur verði tvöfaldaðir og að verkefnið verði sett í samgönguáætlun sem kemur til meðferðar Alþingis í byrjun næsta árs.

Könnun


Ekki stafur í Mogganum um nýja könnun á lestri dagblaða. Fréttablaðið og Blaðið túlka bæði hana sér í vil, Fréttablaðið út frá því að örlítið fleiri hafa eitthvað lesið í blaðinu en í síðustu könnun. Blaðið og út frá þeirri sókn sem það hefur verið í undanfarið misseri. Mogginn tjáir sig líklega um málið á morgun. Hvorki Fbl né Blaðið birta þessa mynd yfir meðallestur á tölublað, sem finna má á vef Capacent og er sú mynd sem Capacent virðist leggja áherslu á. Þess vegna held ég að ég birti hana bara. Smellið til að sjá stærri útgáfu, þá sést betur að meðallestur allra blaðanna er á niðurleið og Blaðið virðist búið að toppa.

Einlægar svívirðingar

Staksteinar birta í dag sannkölluð gullkorn eftir Merði Árnasyni úr umræðum á Alþingi um vantraust Ingibjargar Sólrúnar á þingflokki sínum. Þessi kafli er óborganlegur:

"Mörður [...] sagði sjálfstæðismenn í áratugi hafa mátt "una við einfalda formenn sem ekki nota ræður á fundum til að aga sitt lið heldur gera það með öðrum hætti" og skilja ekki "hvernig við förum að því að styrkja okkur í Samfylkingunni, nefnilega með sjálfsgagnrýni og einlægum skömmum og svívirðingum sem við hreinsum okkur með og stígum fram eins og goðin eftir ragnarök að lokum. Svona gera almennilegir flokkar."

Hornafjarðarpönk

Óblíðar móttökur fyrir nýaðflutta Hornfirðinga var fyrirsögn löggufréttar frá Hornafirði á Vísi í gærkvöldi. Það sem er athyglisvert við fréttina er að klukkustund eftir að hún birtist á vefnum fer í gang mikil bylgja athugasemda frá Hornfirðingum. Margar þeirra virðast komnar frá hinum meintu árásarmönnum. Þeir halda áfram að pönkast á meintum fórnarlömbum sínum í athugasemdunum og saka þá um að vera ekki bara utanbæjarmenn heldur líka heróínsjúklingar, nýkomnir frá Litla Hrauni og jafnvel frá Danmörku. Svo hafi þeir byrjað átökin.

Bækur

Sótthiti, stífluð skilningarvit og almennt slen stuðlar ekki að bloggi, a.m.k. ekki í mínu tilviki. Kom ekki frá mér staf. Í slíku ástandi kemur sér hins vegar vel að eiga áhugaverðar bækur ólesnar. Ég náði loks að klára bók Bob Woodwards, lesa bók John Dean um Conservatives Without Conscience frá upphafi til enda og er kominn vel inn í bók Sidney Blumenthal, How Bush Rules, Chronicles of a Radical Regime þegar ég rís úr rekkju. Bók Blumenthals er best en bók Dean er einnig feykilega athyglisverð og afhjúpandi. Allar til hjá Amazon, besta vini íslenskra neytenda.

Sérstaklega held ég að bók Dean gæti vakið áhuga margra vina minna í Sjálfstæðisflokknum, sem fundið hafa til skyldleika við bandaríska repúblíkana frá dögum Barry Goldwaters. Dean skrifaði bók sína í samráði við Goldwater en lauk verkinu ekki áður en sá gamli lést. Hún er magnað uppgjör fyrrverandi innsta kopps í búri bandarískra íhaldsmanna við það samfélag sem Repúblíkanaflokkurinn er orðinn. Íhaldsmenn af gamla skólanum flýja nú þennan flokk óttans, afneitunarinnar og ofstækisins hver á fætur öðrum og einnig frjálshyggjumenn, sem jafnvel eru farnir að leita hófanna um samstarf við demókrata.

sunnudagur, desember 03, 2006

Hvað næst?

Merkileg ræða Ingibjargar Sólrúnar. Gott hjá henni að viðurkenna staðreyndir eins og þær að flokkurinn nýtur ekki trausts. Það var líklega óhjákvæmilegt að þetta kæmi upp enda er þetta veikleiki Samfylkingarinnar í hnotspurn. Hún hefur viljað reyna stýra því hvernær og hvernig sú umræða kæmi upp á yfirborðið og metið það svo að það sé betra að taka þungann af því nú fremur en þegar nær kosningum dregur. Um leið gefur hún náttúrlega á sér mikið færi. Össur tekur þetta greinilega persónulega og telur sneiðina sér ætlaða. Líklega er það rétt hjá honum.

Nú hefst væntanlega markviss tilraun Ingibjargar Sólrúnar og Samfylkingarinnar til þess að ávinna þingflokknum traust, umbreyting á ímynd. Ætli Samfylkingin muni í auknum mæli reyna að tala af ábyrgð, taki undir einstaka mál og tillögur ríkisstjórnarinnar og leggi aukna áherslu á málefnalega afstöðu? Kannski munu þeir meira að segja halda útgjaldatillögum við 3ju umræðu um fjárlagafrumvarpið í lágmarki, jafnvel leggja fram hugmyndir um sparnað í ríkisrekstrinum.

RÚV í leyniþjónustustarfsemi?

Guðmundur birtir merkar upplýsingar sem kalla á nánari skýringar. Bendir til þess að starfsmenn Ríkisútvarpsins hafi fyrir 30 árum unnið fyrir ráðuneytisstjóra dómsmálaráðuneytisins við að halda til haga ummælum manna um pólitík í útvarpinu.

Íslandi að kenna

Ísland fær leiðara í Washington Post í dag. Fyrirsögnin er Blame Iceland. Tilefnið er það að tilraunir til að ná samkomulagi um eitt stærsta umhverfisverndarverkefni sem við blasir, að hlífa úthafsbotninum við botnvörpuveiðum, urðu að engu. Washington Post segir m.a. þetta: In closed-door negotiations, Iceland, along with Russia, took a particularly vocal and aggressive stand against strong action. Because the arcane rules of high-seas fishing are largely defined by consensus, even small countries that are genuine moral outliers in world attitudes toward oceans can prevent agreement.

föstudagur, desember 01, 2006

Grasrót

Tek eftir því við lestur þessarar töflu um Gallup-könnunina að fylgi framsóknar í NV stendur í stað milli mánaða, var 16% í byrjun nóvember og er 16% í byrjun desember. Neikvæð áhrif af ósigri Kristins H. Gunnarssonar í prófkjörinu mælast engin.

Höfðingjar heim að sækja

Mér er tjáð að það séu allar líkur á því að þrír bæjarstjórra muni njóta biðlauna frá Akureyrarbæ næstu þrjú og hálft ár. Kristján Þór Júlíusson er búinn að vera fimm mánuði í starfi frá kosningum og fær nú sex mánaða biðlaun. Sigrún Björk tekur við en mun víkja fyrir Hermanni Samfylkingarforingja, og fara á sex mánaða biðlaun. Hermann mun svo væntanlega eiga rétt á sex mánaða biðlaunum í lok kjörtímabilsins. Þeir eru grand á því í höfuðstað Norðurlands.

Leiðari og leiðari

Þorsteinn Pálssonar er alltaf að verða leiðari og leiðari á Jóni Baldvin, leiðari dagsins sýnir það. Rökfastur og hvass eins og oft áður. Fyrir Þorstein er þetta náttúrlega hápersónulegt mál enda er hann sjálfur dómsmálaráðherrann sem JBH segir að hafi ekki verið treystandi til þess að rannsaka hleranir CIA.

Skáld dagsins

Skáld dagsins situr suður á Spáni og yrkir limrur, Sigurður Þór Salvarsson, teygir sig aðeins í rími og segir:
Óhöpp þau eru einsk-is sök
og eins má segja um slys stök
því þótt verði mann’ á
eins og að stela og slá
þá eru það tæknileg mis-tök

fimmtudagur, nóvember 30, 2006

Pistill dagsins

Bráðfyndinn og beittur pistill hjá Guðmundi Steingrímssyni.

Erlendar fréttir

Washington: A record 7 million people — or one in every 32 American adults — were behind bars, on probation or on parole by the end of last year, according to the Justice Department. Of those, 2.2 million were in prison or jail, an increase of 2.7 percent over the previous year, according to a report released Wednesday.

Að ansa flugnasuði

Í dag er í Blaðinu eitthvert kjaftæði - dylgjur - um það að ég sé hér að blogga í leynilegum erindum Framsóknarflokksins og á launum við það frá ríkinu. Fyrstu viðbrögð voru að hlæja, þau næstu að reiðast og hringja í minn ágæta félaga -sme og spyrja hann hvaða vitleysa þetta sé og hvaða fólk hann væri eiginlega kominn með í vinnu. Sme fullvissaði mig um að hann hefði tekið þannig á málinu innanhúss að ég fer ekki fram á meira.

Ég blogga fyrir sjálfan mig og á mínum forsendum þegar ég vil, um það sem ég vil og rek ekki annarra skoðanir en mínar eigin. Ég er í Framsóknarflokknum og starfaði hjá honum frá september 2003 til september 2005, þá í félagsmálaráðuneytinu til mars 2006, síðan hjá Fréttablaðinu til júní 2006. Síðan þá hef ég unnið á eigin vegum og gengur takk bærilega. Ég skipulegg daginn sjálfur, borða þegar ég vil, tek pásu þegar ég vil, fer í frí þegar ég vil, blogga þegar ég vil.

Viðskiptavinir eru fyrirtæki og stofnanir, líka einstaklingar. Sumir sem ég vinn fyrir eru framsóknarmenn, aðrir, t.d. þeir sem ég vinn mest fyrir þessa dagana, eru sjálfstæðismenn. Ég er nýkominn úr vinnu fyrir þingmann Samfylkingarinnar. Ég fæ ekki krónu fyrir að blogga, hvorki frá einum né neinum, og bloggið mitt er ekki til sölu. Pólitíkin hér er mín pólitík. Ég eyði í þetta ca. 30-40 mínútum á dag, kannski 2 tímum þegar mest er, sjaldnast fer meiri tími en 10 mínútur í hverja færslu. Þetta er ekki mikið mál fyrir einhvern sem hefur unnið við blaðamennsku lengi og er heldur ekki mikill tími í ágætis hobbí. Og hafðu það. Ég man ekki til þess að nokkur samfylkingarmaður eða sjálfstæðismaður hafi þurft að réttlæta sitt blogg, líklega ætti ég bara að taka þetta sem komplíment, geri það þegar mér rennur reiðin.

miðvikudagur, nóvember 29, 2006

Orð og morð

Orð eru ágæt, orðhengilsháttur getur líka verið ágætur, sem samkvæmisleikur. En orðhengilsháttur um hvort það skipti einhverju máli hvort menn tali um það ástand sem nú ríkir í Írak sem borgarastyrjöld, civil war, eða átök trúarhópa, sectarian conflict, er bara andlaust kjaftæði og hefur ekkert með ástandið í Írak að gera, það hvorki versnar né batnar við það hvort orðið verður ofan á í samkvæmisleiknum. Getur e.t.v. skipt máli í kennslubókum í stjórnmálafræði eða sagnfræðiriti og þá í einhverju fræðilegu samhengi - nú eða í einhverju dómsmáli - en að því slepptu er þetta bara smekklaus brandari. Samkvæmisleikur þessi er nú stundaður víða, sérstaklega í Bandaríkjunum en þar stjórna menn sem eru mjög góðir í orðhengilshætti og því að hafa stjórn á fréttaflutningi en virðast ráða illa við flest önnur verkefni sem þeir hafa færst í fang.

Írak í dag

Leiðari NY Times: [A]t this point there may not be anything that can salvage Iraq. But more denial and drift will only lead to more chaos.

Jimmy Carter: I think that the original invasion of Iraq, and all of its consequences, yes, were a blunder, including what happened with the leadership. [...] it's going to prove, I believe, to be one of the greatest blunders that American presidents have ever made.

Hvað kostar sjálfsvirðingin?

Þorsteinn Pálsson skrifar enn einn athyglisverðan leiðarann í Fréttablaðið í dag í framhaldi af þeim gleðifréttum að samningar séu að komast í gang um varnarsamstarf Íslendinga og Norðmanna. Þorsteinn segir réttilega að hér hafi menn aldrei rætt það hvað varnir landsins megi kosta. Ekki hefur einu sinni verið kallað eftir opinberum upplýsingum um hvaða áhrif það hefði haft á kostnað við aðild að NATÓ að ganga ekki til nýrra samninga við Bandaríkjamenn.

Það eru auðvitað fyllsta ástæða til þess að fjalla um þetta mál, þ.e. ef menn vilja ganga uppréttir og reka hér utanríkisstefnu á eigin forsendum. Hin hernaðaróðu Bandaríki vörðu sýnist mér um 4,7% sinnar landsframleiðslu til hermála árið 2005 en voru í um 3% árið 2000, sem er svipað hlutfall og Bretar vörðu til málaflokksins árið 2004. Norðmenn voru með 2,5% árið 1995. Japanir nota 1% af GDP í varnir. Þessar upplýsingar hefur Google útvegað mér úr ýmsum áttum. Setjum sem svo að Íslendingar verji 1% af landsframleiðslu til varnarmála, eru það ekki um 10 milljarðar? Það mætti segja mér að menn spari sér að minnsta kosti þá upphæð nú þegar með þeim ömurlega málamyndagerningi sem nýi varnarsamningurinn við Bandaríkjamenn er. Það er spurning hvað menn eru tilbúnir að greiða fyrir það að losna úr stöðu aftaníossa Bandaríkjastjórnar á alþjóðavettvangi og vera menn til þess að reka sjálfstæða utanríkisstefnu á eigin forsendum. Í mínum huga er það hluti af uppgjörinu við Íraksstríðið að ræða þetta opinskátt. En auðvitað er það ekki draumaviðfangsefni stjórnmálamanna á kosningavetri.

Handhafi ákæruvaldsins

Fréttablaðið fjallar í dag um þær mannabreytingar sem verið er að gera hjá lögreglustjóranum í Reykjavík, ríkislögreglustjóra og saksóknara og hafa það væntanlega fyrst og fremst að markmiði að auka trúverðugleika efnahagsbrotadeildarinnar. Þarna er búið að setja í gang kapal sem ganga mun upp á næstu mánuðum, þá verður Jón H. Snorrason orðinn aðstoðarlögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.

Áhugaverðum spurningum er enn ósvarað: Fyrir nokkrum dögum varð Bogi Nilsson ríkissaksóknari 66 ára. Lögmenn hafa undanfarin misseri verið að spekúlera í því hver eigi að verða eftirmaður hans, en allar líkur voru taldar á að hann léti af embætti og leyfði Birni Bjarnasyni að skipa arftaka sinn fyrir lok þessa kjörtímabils. Þannig var staðan amk áður en loftið fór að leka úr Baugsmálinu.

Í upphafi Baugsmálsins var staða Jón H. Snorrasonar slík að nafn hans bar á góma þegar rætt var um næsta ríkissaksóknara. Hann er ekki lengur í þeirri stöðu. Þess í stað vænta menn nú þess að arftaki Boga Nilssonar verði sóttur út fyrir kerfið og þá annað hvort í raðir dómara eða starfandi hæstaréttarlögmanna. Margir eru þar til nefndir en það nafn sem mér finnst athyglisverðast er Brynjar Níelsson, hæstaréttarlögmaður, sem hefur verið áberandi sem verjandi í sakamálum, nú síðast sem verjandi Jóns Geralds Sullenbergers. Brynjar hefur gert talsvert af því að láta í té álit á málum í fjölmiðlum og hefur gert það af skynsemi og yfirvegun og er greinilega ekki bundinn á klafa neinna fylkinga. En það sem enginn veit er hvort fararasnið er á Boga Nilssyni eða hvort hann ætlar sér að gegna embætti lengur en talið var áður en Baugsmálið fór í þann farveg sem það nú er í.

þriðjudagur, nóvember 28, 2006

Of mikið forskot

Það er fyrst og fremst tvennt sem mér finnst að mætti breyta í þessu RÚV-frumvarpi. 1. Það er fáránlegt að ríkið fari að ryðjast með sitt afl inn á örsmáan og viðkvæman markað fyrir auglýsingar á netinu eins og núgildandi útgáfa leyfir.

2. Kostunin. Það þarf að taka á henni, ég vil banna kostun í RÚV, hún þurrkar út eðlileg mörk efnis og auglýsinga og á ekki heima í almannaþjónustuútvarpi. Við þær þröngu aðstæður sem stofnunin hefur búið undanfarin ár hefur hún nýtt sér möguleika kostunar út í ystu æsar. Mér hefur sýnst að hún hafi jafnvel rutt brautina inn á nýjar og ósmekklegar leiðir í kostun, ekki síst á Rás 2. Ég hef heyrt sögur af því sem þeir, sem gefa út tónlist og standa fyrir viðburðum, láta bjóða sér í samskiptum við almannaútvarpið til þess að þeir geti hjálpað því að sinna menningarhlutverki sínu. Það væri athyglisvert að sjá og heyra einhverja úr þeim bransa lýsa reynslunni af samskiptum við ríkið á því sviði.

Mér finnst líka æskilegt fyrir auglýsingamarkaðinn og sjónvarpsáhorfendur að setja fast hlutfall um hámark auglýsinga sem birta megi í miðlum RÚV, t.d. fastan mínútufjölda á klukkustund. Að því sögðu skil ég að útvarpsstjóri sé spenntur að fá þetta frumvarp samþykkt. Það mun leysa hann úr spennitreyju og binda enda á þá uppdráttarsýki sem stofnunin hefur glímt við undanfarin 15 ár. En það verður að setja afli ríkisins á fjölmiðlamarkaði skorður. Forskotið er of mikið.

Pólitískar hleranir

Vill einhver andmæla því að í tilfelli Hannibals hafi hleranirnar verið pólitískar? Fyrrverandi ráðherra, sitjandi þingmaður og forseti ASÍ hleraður. Úrskurðar aflað þannig að dómarinn kom upp í ráðuneyti til þess að blessa yfir. Ætli þeir sem óttuðust að Hannibal væri öryggi ríkisins hættulegur hefðu ekki frekar þurft á kvíðastillandi lyfjum en að halda frekar en lögregluaðgerðum af þessu tagi.

mánudagur, nóvember 27, 2006

Mistök dagsins

Einhver vandræðalegustu mistök sem ég hef séð í íslensku blaði eru gerð í Fréttablaðinu í dag. Blaðamaðurinn Hugrún Sigurjónsdóttir skrifar þar viðtal við Dofra Hermannsson, framkvæmdastjóra þingflokks Samfylkingarinnar og varaborgarfulltrúa, um þá erfiðu stöðu sem hann og fjölskylda hans eru í vegna ófullnægjandi úrræða fyrir börn á frístundaheimilum ÍTR.

Hugrún lætur vera að geta þess að þessi ungi fjölskyldufaðir er atvinnustjórnmálamaður. Þess í stað leyfir hún honum að skrúfa frá krana og gagnrýna þann meirihluta sem tók við stjórnartaumum í Reykjavíkurborg í sumar. Hún lætur þess ekki einu sinni getið að fjölskyldufaðirinn ungi er varaborgarfulltrúi og í raun einn flutningsmanna þeirra tillagna sem Hugrún kynnir í fréttinni. Hún blekkir lesendur blaðsins, hún sér þeim ekki fyrir þeim upplýsingum sem nauðsynlegt er og eðlilegt að liggi fyrir við mat á þessu efni.

Verst er að við vinnslu fréttarinnar á blaðinu tókst ekki að koma í veg fyrir að þessi pólitíski áróður Hugrúnar rataði á síður blaðsins og alla leið heim til lesenda. Þar eru mistökin, hins vegar er óhugsandi annað en að einbeittur áróðursvilji búi að baki skrifum Hugrúnar. Ég efast ekki eitt andartak um að Fréttablaðið muni biðja lesendur sína velvirðingar á þessari pólitísku misnotkun á fréttasíðum blaðsins í fyrramálið.

sunnudagur, nóvember 26, 2006

Hvar eru þau nú?

Formaður Framsóknarflokksins er búinn að gera upp við Íraksstríðið og hið sama gerði ritstjóri Morgunblaðsins í Kastljósi í kvöld. Kannski fer að koma að því að forystumenn Sjálfstæðisflokksins geri hið sama. Er ekki tími til kominn? Í drottningarviðtali á Stöð 2 um daginn var Geir H. Haarde gefið færi á hinu sama en hann notaði sér það ekki heldur fór með þulu um lýðræði í Írak. Er þetta boðlegt?

Tímabært uppgjör

Jón Sigurðsson átti líka fínan leik á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins, miðað við þær fréttir sem ég hef haft af honum. Auðvitað réði afstaða Íslands engum úrslitum um innrásina og listinn margumræddi var einhliða bandarísk uppfinning en þeirri afstöðu sem íslensk stjórnvöld tóku fylgir þung siðferðileg og pólitísk ábyrgð og óhjákvæmilegt að málið sé rætt í þaula.

Þessi innrás var byggð á lygum um gereyðingarvorp á borð við þær sem Colin Powell flutti frammi fyrir Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Vísvitandi lygum eins og þeim sem Cheney og félagar hans reyndu hvarvetna að koma á framfæri um ímynduð tengsl Íraks við Al Qaeda. Ranghugmyndum eins og þeim að Tony Blair væri trausts verður. Án þess trausts sem íslensk stjórnvöld báru til stjórnvalda nánustu bandalagsríkja Íslendinga í alþjóðamálum um áratugaskeið hefði afstaðan orðið önnur, það vita amk þeir sem þekkja hug Halldórs Ásgrímssonar til málsins. Þetta traust misnotuðu Bandaríkjamenn sér enda er það nú að engu orðið.

Aðferðin sem Halldór og Davíð Oddsson viðhöfðu við ákvörðunina var amk pólitísk mistök og svo afdrifarík að nauðsynlegt er að tryggja með löggjöf að sambærilegar ákvarðanir fái vandaðri meðferð í framtíðinni. Hins vegar er auðvitað borin von að lýðskrumarar eins og Össur Skarphéðinsson og Ágúst Ólafur Ágústsson leggi skerf til málefnalegrar umræðu um þau mál.

Lifi Þróttur

Fín helgi. Þróttarar komnir af Sp.Kef móti 5. flokks með þrjá bikara og nokkur kíló af góðmálmi. Langflottastir.

laugardagur, nóvember 25, 2006

Leiðari

Ég vil hvetja Guðmund til þess að segja meira frá þessu:
Hugmyndin um utanaðkomandi leiðarahöfund var einnig rædd á Fréttablaðinu, þegar ég starfaði þar, en ég var henni mótfallinn og frá henni var horfið.

föstudagur, nóvember 24, 2006

Tæknileg iðrun

Það voru tæknileg mistök að tala um tæknileg mistök. Eitthvað í þá veru segir Árni Johnsen í samtali við Eyjar.net.

Jólabókin komin

Það eru fyrst og fremst tvær ástæður fyrir því hvað ég er seinn til bloggs í dag: 1. Annríki við brauðstritið. 2. Ég gleymdi mér við að blaða í árituðu eintaki mínu af hinni stórkostlegu bók Halldórs Baldurssonar, skopmyndarateiknara á Blaðinu. Hún er hrein gersemi. Halldór á engan sinn líka í íslenskri blaðamennsku og fjölmiðlaflóru og er að mínu mati fyrsti íslenski skopmyndateiknarinn á heimsmælikvarða. Það verður enginn svikinn af því að kaupa svona 1-2 eintök af þessari bók. Hún heitir 2006 í grófum dráttum.

Undur og stórmerki

Muna menn önnur dæmi þess að forystumaður í stjórnmálaflokki blandi sér í prófkjörsbaráttu með líkum hætti og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, gerir á bls. 4 í Morgunblaðinu í dag? Þótt ekki sé um jafnafdráttarlausar yfirlýsingar að ræða - og forsagan önnur og óljósari - er helst að þessu megi jafna til þess þegar Geir H. Haarde kvartaði undan "aðförinni að Birni Bjarnasyni."

Dæmi: "Þorgerður tekur fram að hún telji þýðingarmikið að konur séu ekki eingöngu í baráttusætum heldur líka í öruggum þingsætum. [...] Við erum með konur sem hafa sýnt það og sannað að þær geti verið öflugir talsmenn flokksins og því tel ég að við eigum að styðja við þær eins og við höfum stutt við karlmenn sem verið hafa öflugir talsmenn flokksins."

Mér finnst ómögulegt að túlka ummæli Þorgerðar öðru vísi en sem beina stuðningsyfirlýsingu við Arnbjörgu Sveinsdóttur, þingflokksformann, í harði baráttu hennar við Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóra og andstæðing Þorgerðar í varaformannskjöri á síðasta landsfundi, og Þorvald Ingvarsson, lækni og formann sjálfstæðisfélagsins í bænum.

Ummælin, sem ég vitna til, verða ekki túlkuð sem almenn hvatning til þess að styðja konur eftir ómaklega útreið Drífu Hjartardóttur í prófkjörinu á Suðurlandi. Spurning hvort Arnbjörgu sé í raun styrkur að þessum yfirlýsingum varaformannsins eða hvort þetta hafi bara á sér blæ örvæntingar á síðustu metrum baráttunnar? Og eins og með átökin í Norðvesturkjördæmi vaknar auðvitað spurningin hvort skipti meira máli að styðja Arnbjörgu eða halda aftur af Kristjáni Þór, sem hefur verið Davíðs- og frjálshyggjumegin í flokknum.

fimmtudagur, nóvember 23, 2006

Erlendar fréttir

Atlanta: Woman, 92, Dies in Shootout With Police

Gaza: Grandmother blows herself up in Gaza

Albuquerque: About 30 women, children and fathers held a "nurse-in" at the Delta check-in counter at Albuquerque International Sunport, joining the New Mexico woman who said she was kicked off a flight last month for breast-feeding her child.

Einfalt svar við einfaldri spurningu

Ómar spyr: Hvað er næst? Vilja tryggingafélögin ekki líka fá heilsufarsupplýsingar, svo hægt sé að hækka iðgjöldin á slysatryggingum þeirra sem spila fótbolta? Svo þau geti neitað að líftryggja þá sem eiga foreldra með krabbamein?

Svarið er já, Mogginn segir frá því í dag að samkvæmt frumvarpi viðskiptaráðherra um vátryggingasamninga eiga tryggingafélögin rétt á upplýsingum um sjúkrasögu ættingja þeirra sem þau tryggja.

Stefna dagsins

Samfylkingin er farin að tala fyrir skólagjöldum í meistaranámi í ríkisháskólum, segir Hjálmar Árnason. A.m.k. sumir. Stundum.

Er það svo?

Jón Kaldal skrifar leiðara um að allt bendi til þess að RÚV frumvarpið fari í gegnum þingið á næstunni. Hverju hef ég misst af? Síðast þegar ég vissi benti fátt til þess að frumvarpið færi í gegnum þingið á næstunni.

Bjalla, fé og hirðir

Sömu daga og verið er að ganga frá löggjöf um fjármál stjórnmálaflokkanna er: 1. Frá því greint að forsætisráðherra sé að greiða fyrir myndun fjárfestahóps um kaup á bresku knattspyrnufélagi. 2. Látið að því liggja að íslenskur auðmaður hafi borgað fyrir að láta forsætisráðherra Íslands hringja bjöllu yfir kaupahéðnum á Wall Street.

Það er ekki til brýnna verkefni í þessu samfélagi en að setja löggjöf um fjármál stjórnmálastarfseminnar. Ég er hins vegar sammála þeim sem segja að eins og endranær er það gagnsæið sem skiptir meginmáli, það að hagsmunatengslin liggi á borðinu, fremur en hvort sett séu einhver þök á fjárhæðir.

miðvikudagur, nóvember 22, 2006

Undan vinstrigrænni torfu

Torfusamtökin eru skriðin undan sinni vinstrigrænu torfu, eða voru þau kannski geymd í Draugasafninu á Stokkseyri meðan VG átti aðild að meirihlutasamstarfi í borginni? Hvort heldur er hafa þau nú gengið aftur og berjast fyrir skjólleysi á Laugarveginum og eilífu lífi þeirra 30 friðuðu kumbalda sem standa við þá götu og byggðir voru af vanefnum á krepputímum.

Saga dagsins

Sammála Guðmundi. Og það er eitthvað súrrealískt að Jónína Ben. sé að vísa opinberlega í annarra manna tölvupósta. Hún birtir þá kannski bara í heild bráðum og heldur svo áfram málarekstrinum í Strassborg.

þriðjudagur, nóvember 21, 2006

Íslandssaga og mannkynssaga

Móðuharðindin drápu ekki bara Íslendinga. Skaftáreldar drógu úr rennsli Nílar og ollu hungursneyð í Egyptalandi.

Gagnsæi er gott

Venjulega pukrast sveitarfélög ósköpin öll með samskipti sín við eftirlitsnefnd sveitarfélaga. Reykjanesbær er dæmi um sveitarfélag sem hefur átt í samskiptum við nefndina út af gríðarlegri skuldasöfnun en þar á bæ hafa menn lítið verið fyrir það gefnir að miðla upplýsingum um þau samskipti til almennings. Þess vegna finnst mér hressandi að sjá á vef Bolungarvíkur bréf sem bærinn er búinn að senda sem svar við fyrirspurnum eftirlitsnefndarinnar. Ekkert pukur hjá Grími, Soffíu, Önnu og félögum. Gagnsæi er gott.

Hver fer í fötin hans Halldórs Blöndal?

Hvernig fer slagurinn um 1. sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi? Fyrirfram skyldi maður ætla að Kristján Þór Júlíusson ætti að vinna þetta. Hann hlaut 36,3% atkvæða í varaformannskjöri á landsfundi fyrir rúmu ári. Það var sagt sl. haust að stóran hluta af fylgi sínu í varaformannskjörinu ætti hann að þakka því að frjálshyggjumenn hefðu kosið hann í stríðum straumum til þess að koma til skila táknrænni andstöðu við upphefð Þorgerðar Katrínar, þetta hafi ekki verið raunveruleg mæling á hann sjálfan.

Arnbjörg Sveinsdóttir hefur verið vaxandi þingmaður, orðin mjög reynd og starfar nú sem þingflokksformaður. En reynsla sjálfstæðiskvenna af prófkjörum hefur ekki verið of góð undanfarnar vikur.

Svo er það Þorvaldur Ingvarsson, sem er Reykvíkingur eins og Halldór Blöndal. Hann er formaður Sjálfstæðisfélagsins á Akureyri og framboð hans bendir til þess að ekki sé einhugur um Kristján Þór meðal sjálfstæðismanna í bænum. Mér er sagt að hann njóti velvildar Halldórs Blöndal og hans manna í þessum leiðangri. Þorvaldur er lækningaforstjóri FSA, dósent við læknadeild HÍ og væri ný tegund af stjórnmálaleiðtoga frá Akureyri. Hann fylgir framboði sínu úr hlaði á heimasíðu sinni meðal annars með þessum orðum: "Undanfarið ár hafa orðið miklar breytingar í Sjálfstæðisflokknum undir traustri stjórn Geirs Haarde. Ferskir vindar blása um flokkinn, nýtt fólk er að kveða sér hljóðs með nýjar áherslur í atvinnu-, mennta-, heilbrigðis- og umhverfismálum. Ég er meðal þeirra." Athyglisverð yfirlýsing.

Breitt bak

Ég er ánægður með Valgerði. Auðmýktin hefur ekki verið of fyrirferðarmikil hjá íslenskum stjórnvöldum undanfarin ár. Maður verður hálfhvumsa loksins þegar hún lætur á sér kræla.

Það var búið að stofna sérstakt félag til þess að annast um varnarsvæðið og setja m.a. Árna Sigfússon bæjarstjóra yfir það, ásamt Stefáni Þórarinssyni og Magnúsi Gunnarssyni, stjórnarformanni. En Valgerður reyndi ekki að skýla sér bak við þá félaga og gott hjá henni.

Flugmóðurskip í Norður-Atlantshafi

NFS:
Utanríkisráðuneytið þarf að spyrja bandaríska flotann áður en svar er gefið um það hvort heimila megi aðgang að gögnum um hleranir íslenskra stjórnvalda á tímum kalda stríðsins. Þetta kemur fram í gögnum frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Til hamingju Ísland

Ég óska íslenskum West Ham aðdáendum til hamingju. Þeir voru átta í óktóber en verða væntanlega orðnir álíka margir og eigendur Toyota-bíla fyrir áramót. Litlir drengir í West Ham bolum merktum Reo-Coker og Bobby Zamora verða hvarvetna næsta vor og ólíklegustu menn munu halda því fram að David James hafi alltaf verið vanmetinn markvörður.

En hver tekur við KSÍ af Eggerti Magnússyni? Ég sé ekkert skrifað um það. Er ekki Guðni Bergsson rétti maðurinn í þetta? Hann vinnur meira að segja í Landsbankanum, ekki satt.

Gróði dagsins

Auglýsingahlutfallið í Blaðinu í dag er svívirðilega hátt. Örugglega arðbærasta tölublað frá upphafi. Maður sá stundum svona hlutfall í Fréttablaðinu meðan prentsmiðja Ísafoldar var lítil og vandkvæðum bundið að breyta stærð blaðsins í takt við flóð og fjöru í auglýsingasölunni. En þetta hélt ég að væri ekki vandamál hjá prentsmiðju Moggans. Þannig að líklega er þetta bara meðvituð ákvörðun um það að græða alveg ofboðslega á blaðinu í dag og selja villt og galið á vinstri síðurnar. Enda fór það svo að ég fletti í gegnum allt blaðið án þess að staldra nokkurs staðar við nema á leiðaraopnunni. Það er vandrataður meðalvegurinn í þessu og kannski eðlilegt að menn missi sig aðeins þegar þeir eru komnir í svona rífandi eftirspurn. Vona að auglýsingadeildin nái jafnvægi fljótlega, maður hættir að nenna að fletta blaðinu ef fréttirnar fá ekki sæmilegt rými.

mánudagur, nóvember 20, 2006

Hvað á Anna K. að gera?

Össur skrifar um Sleggjuna og telur fráleitt að Kristinn taki 3ja sæti framsóknar í Norðvestur í samræmi við niðurstöður prófkjörsins sem hann stofnaði sjálfur til.

Því var hvíslað að mér - og er góð ábending - að Össuri stæði líklega nær að hafa skoðun á því hvort Anna Kristín Gunnarsdóttir, þingmaðurinn sem skipaði 2. sæti lista Samfylkingarinnar í Norðvestur í síðustu kosningum en féll fyrir tveimur nýliðum niður í 3ja sæti í prófkjöri flokksins nýlega ætti að taka það sæti eða axla sín skinn og leita kannski á náðir frjálslyndra.

Hvernig er það, ætlar Anna Kristín að taka sætið, eða er kominn upp klofningur í Samfylkingunni í Norðvestur eins og hjá Valdimar og félögum í Kraganum?

Sólsetur Dagsbrúnar

Úr upplýsingakerfi Kauphallarinnar. Nýjasta tilkynningin er þessi.

Að kljúfa rekavið

Rétt svar hefur borist við getraun gærdagsins í kommentakerfið. Það var Bjarni Guðnason, prófessor og þá þingmaður Samtaka frjálslyndra og vinstri manna, sem lét þessi orð falla um stofnanda flokksins Vestfjarðagoðann Hannibal Valdimarsson á alþingi vorið 1974, skömmu áður en Ólafur Jóhannesson rauf þing og boðaði til kosninga. Hannibal rakst víst ekki vel í flokki og fannst lýðræðið best þegar niðurstaðan var honum sjálfum hagstæð. Þegar Bjarni lét þessi ummæli falla var Hannibal farinn fyrir borð í ríkisstjórnarsamstarfi sem hann hafði sjálfur átt þátt í að stofnað var til.

sunnudagur, nóvember 19, 2006

Björn dagsins

Þessa dagana er sótt að Birni Bjarnasyni á síðum Fréttablaðsins. Þorsteinn Pálsson skrifaði hárbeittan leiðara í laugardagsblaðið í framhaldi af Moggagrein Arnars Jenssonar og talar um að dómskerfið geti illa búið við það ástand sem grein Arnars hafi skapað. Til þeirrar greinar hafði Björn vísað í dagbók sinni í hlutlausri færslu, sem vakti athygli á skrifum Arnars án þess að leggja mat á efni þeirra.

Í dag fær gamall pennavinur Björns, Hreinn Loftsson, birta grein á leiðaraopnu Fréttablaðsins þar sem vísað er í leiðara Þorsteins og Björn krafinn svara og viðbragða vegna þess vantrausts sem æðstu embættismenn lögreglunnar virðist nú bera til dómskerfisins.

Björn heldur sínu striku og svarar með sínum hætti. Þessa færslu má lesa í dagbók hans í dag: Dreifingu Fréttablaðsins er þannig háttað, að blaðið berst aðeins öðru hverju heim til mín og þar af leiðandi les ég það æ sjaldnar. Hvort ég fer á mis við eitthvað, sem máli skiptir, veit ég ekki,

Getraun dagsins

Hver sagði þetta og um hvern?
Hann er nú vestur á fjörðum og klýfur þar rekavið til þess að þjóna lund sinni.
Svör óskast í komment.

Hégómi

Líklega er það rétt sem bent er á hér í kommentum og hjá Guðmundi Magnússyni að Samfylkingin verður að una við það að Valdimar L. Friðriksson hlaupi fyrir borð. Hér er bréfið þar sem Ásgeir Friðgeirsson segir af sér sem varaþingmaður og virðist orðalagið það afdráttarlaust að hann á vart afturkvæmt. Ég veit hins vegar að einhverjir félagar Valdimars skynjuðu að hverju dró undanfarna daga og gerðu ráðstafanir til þess að kanna hvort mögulegt væri að sparka honum bara af þingi og fá Ásgeir inn í staðinn.

Allt um það er þetta einstakt mál. Valdimar var annar varaþingmaður og komst inn á þing á miðju kjörtímabili þegar 1. varamaðurinn sagði sig frá starfinu. Eftir útreið Valdimars í prófkjörinu hefur hann látið hégóma sinn teyma sig út í það að ætla að mynda eins manns gengi inni í þinginu fram á vor. Þetta er sá árstími á kosningavetri þegar hégómi fallkandídata í prófkjörum er allsráðandi, það eru særð egó að sleikja sár í öllum landshlutum, eftir að hafa orðið fyrir höfnun kjósenda. Sumir ná að horfa í spegil og horfast í augu við stöðuna eins og hún er, aðrir æða áfram af hóflausum persónulegum metnaði. Auðvitað er höfnunin sár en fáum í þessari stöðu hef ég eins litla samúð með og téðum Valdimar. Honum var ekki hafnað í prófkjöri vegna þess að störf hans voru umdeild heldur vegna þess að enginn vissi hver hann var og hvað hann stendur fyrir. Hann fékk tækifærið en notaði það bara ekki.

Hvað gerir Ásgeir Friðgeirsson?

Valdimar L. Friðriksson hefur ákveðið að yfirgefa Samfylkinguna. Valdimar kom inn á þing þegar Guðmundur Árni hætti og fór til Svíþjóðar. Þá átti Ásgeir Friðgeirsson að taka sæti Guðmundar Árna en hann kaus að halda áfram starfi sínu fyrir Björgólf og BTB. Nú vaknar spurningin: á Ásgeir leið til baka? Er Valdimar fullvaxinn þingmaður eða hefur hann í raun og veru bara stöðu varaþingmanns fyrir Ásgeir Friðgeirsson? Getur Ásgeir nú skrifað forseta Alþingis bréf og sagt: Aðstæður mínar hafa nú breyst og ég geri kröfu til þess að taka þingsætið sem losnaði þegar Guðmundur Árni fór til Svíþjóðar. Ég veit það ekki en ætla að veðja á að menn í Samfylkingunni séu nú að hvetja Ásgeir til þess að láta á þetta reyna.

laugardagur, nóvember 18, 2006

Spádómar og sleggjudómar

Hér var spáð rétt um fyrstu fjögur sætin í prófkjörinu hjá framsókn í Norðvestur. Við prófkjörið fjölgaði á félagaskrá um ca. 500 manns, einkum fyrir tilverknað stuðningsmanna Herdísar Sæmundardóttur og Kristins H. Gunnarssonar.

Á kjörskrá í NV-kjördæmi í síðustu þingiskosningum voru 21.220 manns. Framsókn hlaut 21,7% fylgi sem var slakasta útkoman á landsvísu. Flokknum voru greidd rétt rúmlega tvisvar sinnum fleiri atkvæði en nemur skráðum félögum. Í Kraganum var þetta hlutfall u.þ.b. sex atkvæði fyrir hvern flokksmann.

Að loknu prófkjöri nú eru 2.552, eða um 11,9% kjósenda í Norðvesturkjördæmi, flokksbundnir framsóknarmenn. Það væri afhroð ef fylgi í kosningum færi undir tvö atkvæði fyrir hvern flokksmann. Ef atkvæði haldast umfram það lágmark ætti Herdís Sæmundardóttur að vera örugg á þing í vor og eðlilegt að líta á að þriðja sætið sem baráttusæti.

Það má halda því fram að það breikki ásýnd Framsóknarflokksins í kjördæminu og á landsvísu að hafa Kristin í 3ja sæti. Hins vegar staðfestir niðurstaða prófkjörsins að ýmis sjónarmið sem Kristinn hefur haldið á lofti eru utan við meginstrauma í flokknum. Það á ekki að þurfa að koma á óvart. Össur spáir því að Kristinn leiti nú yfir til frjálslyndra. Eftir málflutning frjálslyndra í málefnum útlendinga held ég að það sé afar ólíklegt.

föstudagur, nóvember 17, 2006

Skúbb dagsins

Valdimar Birgisson er búinn að rýna í áhorfskönnun sjónvarpsstöðva og segir fyrstur manna fréttina um minnkandi markaðshlutdeild Stöðvar 2.

Hin ýmsu verkefni íslenska ríkisins

Þessi frétt hefur farið hljótt. Ég hef hvergi séð hana nema á vef Viðskiptablaðsins. Geir H. Haarde forsætisráðherra er sagður hafa haft milligöngu um samstarf vinar Róman Abramovitsj og Eggerts Magnússonar (les Björgólfs Guðmundssonar) um kaup á West Ham United, að því er fram kemur í Daily Express.

Nýjustu tölur frá Borðeyri

Það skýrist margt í Norðvesturkjördæmi þessa helgi. Framsóknarmenn bíða spenntir eftir úrslitum prófkjörsins í kvöld. Þá fæst loks mæling sem flokksmenn hafa lengi beðið eftir. Hvaða hljómgrunn eiga sjónarmið Kristins H. Gunnarssonar raunverulega meðal flokksmanna í kjördæmi hans?

Stuðningsmenn Kristins og Magnúsar Stefánssonar virðast sigurvissir og báðir tala eins og þeir telji að sinn maður sigri með um það bil 60% atkvæða. Það gengur ekki upp, þarna eru einhverjir of bjartsýnir. Talsverð þensla hefur verið á flokksskránni fyrir prófkjörið og um 500 nýir framsóknarmenn hafa verið skráðir í kjördæminu undanfarnar vikur. Þar með eru skráðir framsóknarmenn í Norðvestur líklega komnir vel yfir 10% af kjörskránni. Mér er sagt að stærstur hluti nýskráninga sé í Skagafirði.

Ef það er rétt boðar það tæplega gott fyrir Kristin, það má segja að Skagafjörður hafi verið höfuðból andstæðinga hans innan flokksins. Ég veit það ekki en mér þykir líklegast að þessum skráningum sé mörgum beinlínis teflt gegn Kristni og að þær gagnist fyrst og fremst Magnúsi og Herdísi Sæmundardóttur, Sauðárkróki, sem sækist eftir 2. sætinu.

Ég veit ekki hvort það er gálgahúmor eða bara genetísk framsóknarmennska að láta telja atkvæðin úr prófkjörinu á Borðeyri og að ætla sér ekki að birta tölur fyrr en undir miðnætti en þannig er fyrirkomulagið allavegana. En hér kemur spá:

1. Magnús Stefánsson
2. Herdís Sæmundardóttir
3. Kristinn H. Gunnarsson
4. Valdimar Sigurjónsson.

fimmtudagur, nóvember 16, 2006

Hvenær er frétt?

Ef einhver þarna úti hefur bara lesið frétt Moggans á bls. 4 í dag um málefni rektors á Bifröst get ég upplýst viðkomandi um að aðrir fjölmiðlar hafa greint frá því að málið snúist um það að rektor er sagður standa fyrir veisluhöldum sem keyri úr hófi, eiga í ástarsambandi við nemanda á fertugsaldri og hafa veðjað meira en 200 þúsund krónum við nemanda í skólanum.

Ég er að færa þetta í tal af því að maður fær bara engan botn í málið í frétt Moggans. Það má færa gild rök fyrir því að fjalla ekki um nafnlaus kærumál sem hafa á sér blæ rógsherferðar. En ef málið er tekið upp í fréttum hins virðulega fjölmiðils á annað borð finnst mér nauðsynlegt að búa þannig um hnúta að lesendur viti um hvað málið snýst.

Að svara með þögninni

Hafa Sjálfstæðisflokknum borist úrsagnir í kjölfar þess að Árni Johnsen hreppti 2. sætið í prófkjörinu í Suðurkjördæmi og hefur síðan rætt um 22 hegningarlagabrot sem tæknileg mistök? Þessarar spurningar spyr blaðamaður Morgunblaðsins Andra Óttarsson, framkvæmdastjóra flokksins í frétt sem birt er á bls. 4 í blaðinu í dag. Svar Andra er þetta: Ég vil ekki tjá mig um málið.

Einmitt. Gefum okkur að engar úrsagnir hafi borist í kjölfar kosningar Árna og yfirlýsinga hans. Hefði Andri þá einhverja ástæðu til þess að víkja sér undan því að svara spurningunni? Ég held ekki.

miðvikudagur, nóvember 15, 2006

Sammála

Kristinn H. Gunnarsson auglýsir að það þurfi sterka Framsókn. Sammála. Held bara að hann sé ekki hluti af því dæmi. Það kemur væntanlega í ljós á föstudaginn þegar atkvæði verða talin í póstkosningunni í Norðvesturkjördæmi hver skoðun framsóknarmanna í kjördæmi Kristins er á því máli. Það verður spennandi að sjá.

Björn Ingi hjólaði í Kristin í umræðum á þinginu í dag og setti ofan í við hann. Egill Helgason sagði í Íslandi í dag að það færi ekki mikið fyrir framsókn þessa dagana og eini maðurinn sem virtist þar með lífsmarki væri Björn Ingi. Líklega væri hann sá maður sem flokkurinn gæti helst litið til sem framtíðarleiðtoga. Sammála.

Undarlegt mál

Mér þykir undarlegt að lesa Moggagrein Arnars Jenssonar á miðopnunni í dag. Það er auðvelt að skilja að Arnar sé sár og reiður og telji umfjöllun Blaðsins ósanngjarna í sinn garð. En það er erfitt að sjá fyrir sér að hann hafi sent frá sér þessa grein án þess að hafa samráð um það við yfirmenn sína hjá embætti Ríkislögreglustjóra. Og það er erfitt að sjá hvers vegna yfirmenn Arnars hafi ekki gert athugasemdir við það að hann léti greinina frá sér fara eins og hún er úr garði gerð. Það er auðvelt að færa rök fyrir því að dylgjurnar í grein Arnars séu mun betra veganesti fyrir verjendurna í Baugsmáli heldur en nokkuð það sem fram kom í þeirri umfjöllun Blaðsins um vinnubrögð lögreglu sem varð Arnari tilefni skrifanna.

Dúett dagsins

Hlustið á Geir H. Haarde og Árni Johnsen taka lagið saman í boði Helga Hjörvar.

Getraun dagsins

Heimsækið Friðjón til að lesa meira um Magnús Þór og útlendinga.

Bravó

Nefnd um fjármál stjórnmálaflokkanna gekk frá drögum að lagafrumvarpi um málið á fundi sínum í dag sem send verða til þingflokkanna.

Ég er ekki viss um að þingið geti unnið þarfara verk fyrir kosningar en að gera þetta frumvarp að lögum.

þriðjudagur, nóvember 14, 2006

Tæknileg mistök

Tvívegis var talað um tæknileg mistök í fréttunum í kvöld. Fyrst þegar Ísraelsher var að réttlæta fjöldamorðin á Gaza. Síðan þegar Árni Johnsen var að ræða um hegningarlagabrotin sín.

En hvað með Mohammed al-Durra?

Í tilefni þeirra orða ísraelska sendiherrans að Ísraelsher skjóti ekki óbreytta borgara af ásettu ráði langar mig til að rifja upp örlög 12 ára pilts sem hét Mohammed al-Durra.

Ísraelsher gekkst við verknaðinum.

Gamall temur, ungur nemur

Hlustið á Guðna Ágústsson taka Björgvin Sigurðsson á hné sér vegna forsíðufréttarinnar sem Björgvin plataði inn á Fréttablaðið á mánudag. Kosningabaráttan í Suðurkjördæmi er hafin.

Björgvin hefur ítrekað fært þetta í tal og fengið svör og athygli jafnoft en óneitanlega var kómískt að sjá þetta margrædda mál rata á forsíðu Fréttablaðsins á mánudag. Hér er t.d. umræða Björgvins og heilbrigðisráðherra um málið á þingi í nóvember 2004 og hér er sama fyrirspurn og skriflegt svar ráðherra til Björgvins í maí 2004.

Kærleiksheimilið

Það hafa margir verið að velta fyrir sér innanbúðarmálum Samfylkingarinnar eftir prófkjörið og m.a. gert því skóna að 69% kosning formannsins í 1. sætið sé til marks um litla samheldni innan flokksins. Nú er óþarfi að tala lengur um þetta í einhverjum getsagnastíl, Össur er kominn með nýjan pistil þar sem hann talar hreint út; hann telur sig og sína menn setta til hliðar. Hann talar svo hreint út að meiri hreinskilni er ekki hægt að biðja um af manni sem er í þeirri stöðu að vera þingflokksformaður:
Það er meira en nóg fyrir mig að vera formaður þingflokks. Ég hef meira gaman af því en ég hélt ég myndi hafa. Ég finn að reynsla mín kemur þar að notum, alveg einsog hún og reynsla nánustu stuðningsmanna minna og ráðgjafa myndi koma vel að notum við mótun stefnu flokksins ef menn út af fyrir sig vildu. Okkar dugur kom einfaldlega fram í prófkjörum um allt land.

Ég er góður í það og hef bestu ráðgjafa sem Samfylkingin á völ á í dag. Það ætti öllum að vera ljóst núna. Hvort menn geta notað þann hóp og þá reynslu á fleiri stöðum í flokknum kemur í ljós. En ég held að það gæti orðið öllum farsælt.

Fórnarlömb dagsins

Eins og kunnugt er hafa fordómar fylgt Frjálslynda flokknum allt frá upphafi. Flokknum hefur verið núið upp úr því að stofnandi hans hafi verið útbrunninn fyrirgreiðslupólitíkus sem settur hafi verið yfir viðskiptabanka í ríkiseigu sem hann hafi rekið þráðbeint á hausinn. Helstu afrek stofnandans séu á sviði laxveiða.

Þá hafa þeir fordómar mætt Sigurjóni Þórðarsyni, þingmanni flokksins, að hann sé lifandi sönnun atgervisflóttans af landsbyggðinni. Hins vegar er ekki ágreiningur um það að Sigurjón er sundmaður góður. Ólafur F. Magnússon, foringi flokksins í Reykjavík, hefur mætt þeim fordómum að hann sé svo sótthræddur að honum sé nánast um megn að sinna læknisstörfum sínum. Svona mætti lengi rekja þá fordóma sem frjálslyndir hafa mætt hjá þjóðinni. En nú ætla þeir að berjast á móti. Í gær kom miðstjórn flokksins saman og samþykkti ályktun þar sem mótmælt er þeim fordómum sem Frjálslyndi flokkurinn mætir hjá þjóðinni.

Til þess að menn geti kynnt sér víðsýni og frjálslyndi frjálslyndra og látið af fordómunum læt ég hér fylgja slóð á ritsafn Sverris Hermannsonar í gagnasafni Morgunblaðsins, einnig slóð á þingræður Sigurjóns Þórðarsonar.

mánudagur, nóvember 13, 2006

Atvinnumál

Náttúrufræðistofnun hefur fengið nýjan starfsmann. Róbert Marshall, verðandi þingmaður, hefur fengið það verkefni að vinna við heimasíðu stofnunarinnar í hlutastarfi og sjá um að uppfæra hana.

Forstjóri Náttúrufræðistofnunar er Jón Gunnar Ottósson, eiginmaður Margrétar Frímannadóttur. Róbert er á Suðurlandi talinn pólitískt afkvæmi Margrétar, sem Ingibjörg Sólrún kallaði ljósmóður Samfylkingarinnar.

Blóðmör

Sunnlendingurinn Sigurður Bogi ræðir prófkjör Sjálfstæðismanna á Suðurlandi: Á götuhornum á Suðurlandi hafði Kjartan Ólafsson hins vegar nánast verið blásinn af og fæstir af viðmælendum mínum töldu hann líklegan til pólitískra stórræða. Af löngum kynnum veit ég að Kjartan er vænsti piltur, en afrek hans á vettvangi stjórnmálanna eru helst hugmyndir um að leggja heilsárveg yfir Kjöl og hvetja fátækt fólk til að taka slátur, sem er að vísu alveg herramannsmatur.

Spuni dagsins

Þorsteinn Pálsson, ritstjóri og fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, og fyrsti þingmaður þess sem nú er Suðurkjördæmi, skrifar heilan leiðara um prófkjör undir fyrirsögninni Litlar pólitískar vendingar. Þar er ekki minnst einu orði á gamla kjördæmið ritstjórans og Árna Johnsen, bara fjallað um Samfylkinguna í Reykjavík og Sjálfstæðisflokkinn í Kraganum.

Að mati Þorsteins eru tíðindi helgarinnar þessi: En mesti pólitíski viðburðurinn í prófkjörum helgarinnar felst þó án efa í kosningu Bjarna Benediktssonar í annað sæti listans. Síðan fylgir útlegging um að Bjarni hafi nú tekið forskot á aðra af sinni kynslóð í baráttunni um framtíðarleiðtogahlutverk hjá Sjálfstæðisflokknum.

Ekki er sopið kálið II

Það ólgar í Sjálfstæðisflokknum vegna kosningar Árna Johnsen. Friðjón er strax búinn að gera ágreining við Geir H. Haarde: Það má vera að Árni njóti traust flokksforystunnar, en hann mun ekki njóta trausts umtalsverðs hluta Sjálfstæðisflokksins. [...] Ég vil ekki sjá að kjördæmisráð Suðurkjördæmis samþykki þennan lista.

Hann hefur líka þetta að segja um málið: [Vera Árna] á lista sjálfstæðismanna mun kosta flokkinn nokkur atkvæði í kjördæmum hingað og þangað, meira en hann bætir við í S-kjördæmi ef það er eitthvað.

Fyllsta traust

Geir Haarde forsætisráðherra segir Árna Johnsen njóta fyllsta trausts forystu Sjálfstæðisflokksins eftir að Árni hlaut annað sæti á framboðslistanum í suðurkjördæmi og öruggt þingsæti.

sunnudagur, nóvember 12, 2006

Málefnaleg umræða frjálslyndra um útlendinga

Jón Magnússon í Silfri Egils: Eiríkur [Bergmann, dósent við Háskólann á Bifröst], hættu að sveipa um þig einhverju fræðilegu umhverfi, því þú hefur það ekki!

Í sama þætti pakkar Atli Gíslason frjálslyndum saman og bendir á að Magnús Þór Hafsteinsson hafi greitt atkvæði gegn því að aðlögunartími vegna stækkunar EES yrði lengdur, þar með hafi hann í raun greitt atkvæði með því að engar hömlur yrðu á aðgangi útlendinga að landinu.

Ekki er sopið kálið

Andrés Magnússon er Vesturbæjaríhald af gamla skólanum, sjálfstæðismaður frá blautu barnsbeini, virkur þátttakandi á landsfundum og víða á ferð í baklandi flokksins í meira en tvo áratugi.

Hann segir þetta um sigur Árna Johnsen í Suðurkjördæmi: Hvaða úræði koma til greina til þess að stöðva framboð Árna Johnsen í nafni og skjóli Sjálfstæðisflokksins? Samkvæmt skipulagsreglum Sjálfstæðisflokksins þarf Miðstjórn flokksins að staðfesta framboðslista, svo að hann verði boðinn fram í nafni flokksins. En er hún líkleg til stórræða? Miðstjórnin lét gott heita að stórfellt prófkjörssvindl átti sér stað í Norðvesturkjördæmi fyrir síðustu þingkosningar, svo menn geta varla vænst myndugleika úr þeirri átt. Ekki virðast meiri töggur vera í framkvæmdastjórn flokksins. Og hvað? Á maður að lifa í voninni um að Sjálfstæðisfélag Vestmannaeyja víki Árna úr félaginu og þar með flokknum?

Stefán Friðrik Stefánsson er líka eðalsjálfstæðismaður norður á Akureyri og öflugur bloggari. Hann segir þetta um útkomu Árna: Endurkoma Árna í stjórnmálin er umdeild. Mér líkar ekkert alltof vel þessi endurkoma, hreint út sagt. Þetta á eftir að verða umdeilt að flestu leyti. En flokksmönnum í Suðurkjördæmi gafst færið á að kjósa og ekki betur hægt að sjá en að þeir vilji Árna aftur í fremstu víglínu hjá sér.

Kjördæmi kvenna

Sjálfstæðisflokkurinn fær sterkan lista út úr prófkjöri sínu í Kraganum. Þorgerður, Bjarni og Ármann eru öflugir frambjóðendur og einnig Ragnheiður Elín í 5. sæti. Jón Gunnarsson, hvalveiðiáhugamaður og björgunarsveitarforingi fær þingsæti. Er þetta ekki hans þriðja tilraun? Í sex efstu sætum er kynjahlutfallið jafnt. Allt líkleg þingsæti. Það eru tíðindi fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Það stefnir í að Kraginn verði kvennakjördæmið mikla, þaðan sýnist mér að gætu komið sjö þingkonur í vor. Þorgerður Katrín, Siv hjá Framsókn og líklega Katrín Jakobsdóttir hjá VG verða þar foringjar og eiga við nýliðann Gunnar Svavarsson, oddvita Samfylkingar.

Hver vann?

Ég var úti á þekju þegar ég spáði Kristjáni Pálssyni góðu gengi í Suðurkjördæmi. Átti að vita að Sjálfstæðisflokkurinn fyrirgefur ekki hégómleg sérframboð, þótt hann fyrirgefi refsidóma. Ofmat fréttirnar sem ég hafði af því að nú ætluðu Suðurnesjamenn að láta af sér vita. Sá svo sem ekki kjörþokka Kristjáns en bið um skilning, þetta er nú einu sinni þeir kjósendur sem ætla að tefla fram Árna Johnsen. Og getur einhver útskýrt fyrir mér kjörþokka Kjartans Ólafssonar?

Árni Mathiesen er með innan við 50% atkvæða í 1. sæti, staða hans er svo sannarlega veikari en hún var, sérstaklega í ljósi þess að þarna var sjálfur fjármálaráðherrann að keppa við þá sem hann var að keppa við.

Ég er ekki frá því að Guðni Ágústsson og Björgvin Sigurðsson séu raunverulegir sigurvegarar þessa prófkjörs.

Upprisur og föll

Össur: Það má því segja að síðasta hálfa áratuginn hafi Samfylkingin bæði hafið mig til himna, féllt mig til heljar, og nú veitti hún mér upprisu í annað sinni.

Mér sýnist að Össur og Björn Ingi séu búnir að segja flest sem þarf um prófkjör Samfylkingarinnar í Reykjavík en ég ætla að bæta örlitlu við. Ég hafði talið að Steinunn Valdís yrði sterkari. Hún nýtt vel það tækifæri sem henni gafst sem borgarstjóri. En fáir tóku þátt í þessu prófkjöri og fyrst og fremst flokkskjarninn. Í þeim hópi hefur Steinunn líklega goldið þess að hún hefur víst verið lítið sýnileg í flokksstarfinu. Það gaf henni borgarstjórastólinn á sínum tíma að samstarfsmenn hennar í Reykjavíkurlistanum töldu ólíklegt að með því væru þeir að ala upp nýjan leiðtoga fyrir Samfylkinguna eins og gert hefði verið áður með Ingibjörgu Sólrúnu. Í dag virðist það mat hafa verið réttmætt.

Ágúst Ólafur rak góða prófkjörsbaráttu, auglýsti talsvert en beitti sér af mestum þunga inn í flokkinn. Hann náði að undirstrika mikilvægi þess að varaformaðurinn fengi góða niðurstöðu og að uppskera fyrir þær áherslur sem hann hefur lagt á þessu kjörtímabili á kynferðisbrot og önnur mál. Með þessu prófkjöri er hann orðinn fullmegtugur varaformaður og þarf ekki lengur að búa við glósur vegna landsfundarins þar sem hann náði kjöri.

laugardagur, nóvember 11, 2006

Ellismellur dagsins

Sverrir Hermannsson fær enn eina rammagreinina birta eftir sig í Mogganum í dag. Eins og jafnan er kallinn orðljótari en aðrir menn og eys úr sér gusunum þannig að best er að forða sér á hlaupum. Sverrir er maðurinn sem stofnaði Frjálslynda flokkinn. Það er sennilegasta einhver ótrúlegasta vending í stjórnmálasögunni að kallinum hafi tekist að skapa um sig samúðarbylgju eftir að hann var rekinn úr stóli bankastjóra Landsbanka Íslands.

Eftir á að hyggja er það kannski einhver bestheppnaða hagstjórnaraðgerð undanfarins áratugs að reka Sverri Hermannsson, Björgvin Vilmundarson og Halldór Guðbjarnarson úr Landsbankanum. Í höndum þeirra var bankinn á hvínandi kúpunni og eilífar fréttir voru um tap bankans á hinu og þessu. Svo voru þessir kallar reknir, og pólitísku kommisararnir í Búnaðarbankanum líka og bankarnir settir í hendurnar á mönnum sem kunna að reka banka. Síðan hefur allt verið hér á fleygiferð í efnahagslífinu.

Þannig að í þessu ljósi er sennilega best að vera bara þakklátur fyrir þau atvik sem urðu til þess að Frjálslyndi flokkurinn var stofnaður, jafnskondin og þau voru á sinni tíð. En það er náttúrlega eins og út úr absúrdleikriti að Sverri, sem byggt hafði áratugalangan feril sinn á að útdeila almannafé til pólitískra vildarvina, skyldi ná að stofna um sig einhvers konar siðbótarflokk.

Björn dagsins

Margrét [Sverrisdóttir] lét í Kastljósi eins og upphlaup frjálsyndra réði einhverju um það, að í morgun lögðum við þrír ráðherrar fram tillögu á ríkisstjórnarfundi um nýtt skipulag á íslenskukennslu fyrir útlendinga. Ég veit manna best, hve lengi þetta mál hefur verið á döfinni og afgreiðsla þess á ekkert skylt við tal Magnúsar Þórs Hafsteinssonar. Orð Margrétar sýndu mér aðeins, hve langt er seilst af frjálslyndum til að skreyta sig með fjöðrum annarra.

föstudagur, nóvember 10, 2006

Mannanafnanefnd verði lögð niður

Nafn manna hefur löngum verið talið einn mikilvægasti þáttur sjálfsmyndar þeirra og margir hafa litið svo á að það varðaði fremur einkahagi fólks og persónurétt þess en hagsmuni alls almennings.
Þessi orð eru rituð í greinargerð með frumvarp til laga um breytingu á lögum um mannanöfn, sem Björn Ingi Hrafnsson flytur á Alþingi ásamt Guðlaugi Þór Þórðarsyni, Guðjóni Ólafi Jónssyni og Sæunni Stefánsdóttur.

Í frumvarpinu er eytt út úr gildandi lögum öllum tilvísunum til mannanafnanefndar og hún lögð niður. Þannig að þeir einstaklingar sem hafa hist reglulega til funda til þess að fjalla um það hvort rita eigi nöfn manna með einu r-i eða tveimur þurfa að finna sér annað að gera verði frumvarpið að lögum.

Skallbandalagið nýja

Fyrst skrifaði Össur lof um Björn Inga. Nú þakkar Björn Ingi fyrir sig, skrifar lof um Össur og segir: Þeir Kratar sem ég talað við síðustu daga, segja flestir að útkoma Össurar Skarphéðinssonar skipti miklu máli um stuðning þeirra við Samfylkinguna í vor.

Halldóri sagt upp hjá Vísa Ísland

Mér voru að berast fréttir af því að Halldóri Guðbjarnarsyni hefði verið sagt upp störfum framkvæmdastjóra hjá Vísa Ísland. KB-banki er orðinn stærsti eigandi fyrirtækisins og hefur sett Höskuld H. Ólafsson, sem var hjá Eimskip, inn í fyrirtækið sem nýjan framkvæmdastjóra.

Halldór Guðbjarnarson var bankastjóri Landsbankans en var sagt þar upp störfum á sama tíma og Sverri Hermannssyni og Björgvin Vilmundarsyni. Áður var hann bankastjóri Útvegsbanka Íslands og var m.a. ákærður en sýknaður í Hafskipsmálinu á sínum tíma.

Á Árni Johnsen endurkomu?

Veit ekki vel hvernig þetta fer hjá Sjálfstæðisflokknum í Suður en ætla að skjóta á þetta:

1. Árni Mathiesen
2. Árni Johnsen
3. Kristján Pálsson
4. Drífa Hjartardóttir
5. Björk Guðjónsdóttir
6. Grímur Gíslason.

Samkvæmt þessu væru þrír þingmenn ekki meðal sex efstu: Guðjón Hjörleifsson, Kjartan Ólafsson og Gunnar Örlygsson. Einnig verður spennandi að sjá hvaða mælingu Árni Mathiesen fær í sínu nýja kjördæmi. Veðja á að Suðurnesjamenn vilji láta að sínum mönnum kveða og lyfti Björk og Kristjáni í ágæta niðurstöðu. Tek eftir því að Árni Sigfússon hefur stillt sér upp með Kristjáni Pálssyni í heilsíðuauglýsingu en ég hef ekki séð hann styðja frænda sinn og nafna, Árna Johnsen, með sama hætti. Hvað segir anonymous um þetta og aðrir helstu sérfræðingar? Látið ljósið skína í kommentum. Það er líka spáð hálfvitlausu veðri, sem gæti dregið úr kjörsókn, amk hjá fólki í dreifbýlinu.

Kosningaspá dagsins

Þessu ætla ég að spá um prófkjör sjálfstæðismanna í Kraganum.
1. Þorgerður Katrín.
2. Bjarni Benediktsson.
3. Ármann Ólafsson
4. Ragnheiður Elín Árnadóttir.

Ef þetta verður niðurstaðan er Sjálfstæðisflokkurinn með geysilega sterkan lista í þessu kjördæmi.

Þá er það Samfylkingin í Reykjavík, þar læt ég nægja að segja það sem allir vita að í þremur efstu sætunum verða Ingibjörg Sólrún, Össur og Jóhanna. Um önnur sæti vísa ég til lesenda og bið þá gera sína eigin spá í kommentakerfið eða þá að fara og taka þátt í þessari prófkjörskönnun hér, nema hvorttveggja sé.

Tíðindalaust af suðurvígstöðvunum

Framsóknarmenn í Reykjavíkurkjördæmi suður ákváðu að stilla upp framboðslista fyrir alþingiskosningarnar á kjördæmisþingi í kvöld. Áður höfðu framsóknarmenn í norðurkjördæmi Reykjavíkur ákveðið að fara sömu leið. Björn Ingi fjallar um þetta á heimasíðu sinni og segir að hann gefi ekki kost á sér í 2. sæti listans eins og síðast og ætli að einbeita sér að borgarpólitíkinni. "Jónína Bjartmarz, umhverfisráðherra, hefur ein gefið kost á sér í 1. sæti listans og nýtur án efa mikils stuðnings í það sæti." segir Björn.

fimmtudagur, nóvember 09, 2006

Leiðrétting

Með glöðu geði kem ég því á framfæri sem fjórir lesendur hafa orðið til að benda mér á í kommentum að Þorgerður Katrín og Bjarni hafa þegar haldið svona fund hjá Ragnheiði Ríkharðsdóttur og jafnvel fleiri frambjóðendum. Svona vilja staðreyndirnar stundum svipta mann ánægjunni af því sem betur hljómar. Ég þarf greinilega að fara að rýna fastar í prófkjörsauglýsingarnar. Ég treysti því að greiningardeildin færi þetta til bókar.

Tilkynning til spámanna og -kvenna

Helgi býður öllum, sem vilja, að taka þátt í prófkjörsgetraun, og raða upp lista Samfylkingarinnar í Reykjavík að vild. Sannspáum er heitið verðlaunum.

Skilaboð til Ragnheiðar Ríkharðsdóttur

Það er heilsíðuauglýsing í Blaðinu í dag frá stuðningsmönnum Ármanns Ólafssonar, sem keppir við Ragnheiði Ríkharðsdóttur um 3ja sæti sjálfstæðismanna í Kraganum um helgina.

Alls konar fólk lýsir þar yfir stuðningi við kappann en stuðningur sumra skiptir meira máli en stuðningur annarra. Þess vegna tek ég eftir rastaða rammanum neðst í auglýsingunni. Þar kemur fram að Þorgerður Katrín, hinn óumdeildi leiðtogi listans, og Bjarni Benediktsson, hinn óumdeildi maður í 2. sæti, ætla að mæta á kosningaskrifstofu Ármanns kl. 17.30 í dag og spjalla um málefni kjördæmisins.

Skilaboðin verða ekki öllu skýrari, forystan vill sjá Ármann á Alþingi. Þá er bara spurning hvort kjósendur eru á sama máli.

Úr tilhugalífi stjórnarandstöðunnar

Steingrímur J. við Magnús Þór: “Er þetta þá allt okkur að kenna? Það er ekki nóg með að við þurfum að þola þig eins og þú ert, helvítis fíflið þitt!”

miðvikudagur, nóvember 08, 2006

Talsmaður neytenda ekki í framboði

Gísli Tryggvason, sem kosinn var í 4. sæti á framboðslista Framsóknarflokksins í Kraganum um síðustu helgi, hefur ákveðið að taka ekki sæti á listanum. Gísli stefndi upphaflega á 2. sæti. Í yfirlýsingu, sem barst rétt í þessu, segist Gísli ekki hafa náð því markmiði sem hann stefndi að með framboði sínu. Hann hafi fallist á að taka 4. sæti listans þegar honum bárust áeggjanir þess efnis á kjördæmisþinginu sjálfu.

Að nánar athuguðu máli, og að fengnum óháðum lögfræðiálitum, telji hann að ekki leiki vafi á því að framboð til Alþingis væri ósamrýmanlegt óbreyttum störfum talsmanns neytenda. Því hafi hann ákveðið að taka ekki 4. sætið en einbeita sér þess í stað að embættinu. Hann segir þessa niðurstöðu fengna í fullri sátt við oddvita listans, Siv Friðleifsdóttur, heilbrigðisráðherra.

Fyrir Alþingi liggur fyrirspurn, sem Magnús Þór Hafsteinsson lagði fram á mánudag og beindi til Jón Sigurðssonar viðskiptaráðherra. Spurningin er svohljóðandi: Telur ráðherra það samræmast starfi talsmanns neytenda á Íslandi að sá sem því gegnir sé í framboði fyrir stjórnmálaflokk til Alþingis? Nú þegar ákvörðun Gísla liggur fyrir er væntanlega ekki lengur þörf á að ræða málið á Alþingi.

Vika er langur tími í pólitík

1. nóvember 2006: President Bush said Wednesday he wants Defense Secretary Donald Rumsfeld and Vice President Dick Cheney to remain with him until the end of his presidency, extending a job guarantee to two of the most-vilified members of his administration. "Both those men are doing fantastic jobs and I strongly support them," Bush said.

8. nóvember 2006: President Bush announced Wednesday that Defense Secretary Donald Rumsfeld is stepping down from his post. "The timing is right for new leadership at the Pentagon," Bush said at the White House Wednesday afternoon.

Niko kwenye uchaguzi wa

Bryndís Ísfold er búin að þýða áherslurmál sín á svahílí. Flestir láta nægja ensku, pólsku og eitthvað fleira. Hún varð um daginn fyrsta manneskjan í sögu Morgunblaðsins til að fá þar birta grein með fyrirsögn á pólsku. Svo var hún með tillöguna um grænu kellinguna á gangbrautarljósunum og er fyrsti prófkjörsframbjóðandinn, sem ég veit um, sem er með YouTube í þjónustu sinni.

Ég held að hún og Ingibjörg Sólrún og Guðrún Ögmundsdóttir séu einu konurnar í prófkjöri Samfylkingarinnar sem Staksteinar hafa ekki lýst sérstakri velþóknun á.

Týnda ræðan

Andrés Magnússon er byrjaður að blogga og auðvitað fjallar hann um samskipti Skúla Helgasonar og sme og veltir fyrir sér hverju goðin reiddust.

En það sem vakti athygli mína var að Andrés fullyrðir í neðanmálsgreinBorgarnesræða Ingibjargar Sólrúnar sé nú horfin af vef Samfylkingarinnar.

Til hægri snú

Orðið á götunni er með athyglisverðar upplýsingar um hvernig afstaða Magnúsar Þórs Hafsteinssonar til útlendinga á Íslandi hefur breyst frá árinu 2004 til 2006. Styður hugmyndir um að þetta sé markviss tilraun til að komast úr 3% farinu og halda vinnunni næstu fjögur ár.

Þættinum hefur borist bréf

Bréfritari er Skúli Helgason, framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar sem gerir grein fyrir sinni hlið á samtali sínu við Sigurjón M. Egilsson. Bréfið er í lengra lagi en hér eru feitustu bitarnir:

"Blessaður Pétur!
Þú fjallar á ágætri bloggsíðu þinni um samtal mitt við ritstjóra Blaðsins í gær og lýsir yfir einlægum áhuga á samtalinu. Mér er ljúft og skylt að sinna því enda hlynntur samræðum eins og félagar mínir í Samfylkingunni. Samtal okkar Sigurjóns fjallaði um lítið smáatriði sem tengist Blaðinu og reyndar nokkuð persónulegt. Nú þarf ég að tala varlega því málið snýst um fjarstaddar persónur sem ég þekki lítið og get því ekki farið út í smáatriði. En ég læt nægja að segja að málið snúist um spennu og ástríður, óendurgoldna ást og lofsöng sem stundum fer vandræðalega yfir strikið.

[...] Tvennt kemur fram í máli Sigurjóns sem ber vott um verulegan misskilning. Annars vegar kveður hann mig hafa pantað hrókeringar á ritstjórn Blaðsins og hins vegar hótað aðgerðum ef menn létu ekki svo lítið að afgreiða pöntunina. Hvort tveggja er skemmtilegt en því miður fjarstæðukennt. Ég er nú ekki svo stórtækur að ég gangi um og panti hrókeringar hjá fjölmiðlum eða yfirhöfuð nokkrum aðilum í þessu þjóðfélagi enda væri það fullkomlega út í hött.

[...] Ég get því fullvissað Sigurjón um að Samfylkingin mun ekki grípa til neinna aðgerða gegn Blaðinu umfram það að lesa það auðvitað – sem varla flokkast undir fréttnæm athafnastjórnmál.

[...] Láttu svo vita ef þú vilt að við Sigurjón höfum þig á ‘speakernum’ í næsta spjalli.
Bestu kveðjur
Skúli Helgason."

Skammir en ekki hótanir

Sme tjáir sig nánar um hringingu framkvæmdastjóra Samfylkingarinnar og segir: Mér er lífsins ómögulegt að taka fljótfærnisleg orð framkvæmdastjórans sem hótun, og þá hótum um hvað, heldur einhver að hann ætli að lemja mig?

Hvítur vann

Demókratar náðu fulltrúadeildinni og enn er tvísýnt um öldungardeildina. Bandaríkjamenn eru þar með búnir að endurvekja þrígreiningu ríkisvaldsins í reynd en fráfarandi meirihluti Repbúblíkana var forsetanum svo þægur í taumi að mönnum þætti jafvel orð á því gerandi hér á landi.